Tony Ferguson hefur yfirgefið UFC en hann er þó ekki hættur að berjast. GFL (Global Fight League) tilkynntu svo að Tony Ferguson væri að ganga í þeirra raðir.
Nýjustu MMA bardagasamtökin á markaðnum, GFL, hafa verið að fá marga þekkta bardagamenn til að ganga til liðs við sig undanfarið. Nokkrir eldri sem eru að snúa tilbaka eftir að hafa sest í helgan stein hafa verið að skrifa undir samninga og má nefna menn á borð við Rashad Evans, Mauricio Rua, Wanderlei Silva og Frank Mir.
Eins og kom fram í frétt MMA Frétta í desember þegar Tyron Woodley skrifaði undir þá eru GFL að borga mönnum mjög góð laun og útskýrir það af hverju margir hafa tekið þá ákvörðun að snúa tilbaka.
GFL tilkynntu það í dag að Tony Ferguson væri búinn að skrifa undir og birtu mynd af honum þar sem atvinnumannaferill hans er skráður sem 23 sigrar og 7 töp en þeir sem hafa fylgst grannt með falli Ferguson síðustu ár vita að hann er búinn að tapa 8 bardögum í röð. Ferguson hefur í raun unnið 25 og tapað 11 eins og kemur fram á Tapology.com og öðrum svipuðum vefsíðum. Fyrir það hafði Ferguson sett saman eina bestu runu sigra sem sést hefur í UFC, 12 talsins.
Margir aðdáendur Tony Ferguson hafa verið að vonast eftir því að hann leggi hanskana á hilluna en Ferguson ætlar ekki að gera það alveg strax. Stór bardagi sem hægt væri að setja saman væri Tony Ferguson gegn Dillon Danis en Danis skrifaði einnig undir hjá GFL nýlega.
Dillon Danis er aðallega glímumaður en er 2-0 sem atvinnumaður í MMA með báða sigrana í Bellator. Hann mætti Logan Paul og tapaði gegn honum í exhibition hnefaleika bardaga í október í fyrra en er núna kominn yfir til GFL í leit að gulli og grænum skógum og gæti bardagi við Ferguson, El Cucuy vs. El Jefe, skilað góðum tölum.
