Fyrrum þungavigtarmeistarinn tilkynnti á Instagram í gær að hann væri hættur virkri keppni í hnefaleikum. Tyson á hrikalega góðan feril að baki en hann tapaði síðustu viðureignunum sínum gegn Uzyk í tvígang. Tyson hefur sagst vera hættur í hnefaleikum margoft áður og eru aðdáendur eðlilega skeptískir á að hann standi við orð sín.
Frasinn „Dick Turpin wore a mask“ er gjarnan notaður þegar fólk telur sig hafa verið rænt eða orðið fyrir svindli. Turpin er raunveruleg persóna frá 18. öld og er best þekktur fyrir að ræna fólk á hestbaki.
Færsluna hans Tyson Fury má sjá hér:
Tyson byrjaði að keppa árið 2008 og sameinaði þungavigtarbeltin fyrst 2015 gegn Wladimir Klitschko með einróma dómaraákvörðun. Hann endar ferilinn með 34 sigrum og 2 töpum. Eða er hann ekki annars hættur í alvörunni?
Þetta er í fimmta skipti sem Tyson Fury tilkynnir heiminum að hann sé hættur hnefaleikum, núna eftir tvö töp gegn Oleksandr Usyk. Fyrst sagðist Fury vera hættur árið 2013 þegar bardaginn hans við David Haye féll fyrir í annað skiptið. Fury var þó mættur aftur í hringinn þremur mánuðum seinna gegn Joey Abell. Í október 2016 hætti Fury í annað skiptið eftir að hafa dregið sig úr bardaga gegn Wladimir Klitschko vegna andlegra veikinda. Hann stóð ekki lengi við orðin sín þá og tilkynnti á Twitter klukkustundum seinna að hann væri hættur við að hætta. Í þetta skiptið lét hann af hendi alla titlana sem hann hafði unnið af Klitschko árinu áður þar sem hann sat undir rannsóknum vegna mögulegrar kókaínneyslu. British Boxing Board of Control (BBBoC) setti Tyson í keppnisbann í kjölfarið.
2017 var Fury enn ekki kominn með keppnisleyfi aftur og eftir að BBBoC setti hann í keppnisbann sagðist Fury þá vera hættur hnefaleikum með twitter-færslu.
Fury snéri þó aftur í hringinn gegn Sefer Seferi árið 2018 og sigraði hann með TKO sigri í fjórðu lotu. En viti menn! Tyson Fury tilkynnti fyrir heiminum að hann væri hættur að keppa í hnefaleikum eftir sigur gegn Dillian Whyte árið 2022. Hann sagðist þá vera búinn að uppfylla allt sem hann langaði úr hnefaleikaferlinum og gæti gengið sáttur frá borði. Sama ár hætti Fury við að hætta við í fjórða skipti til að klára þríleikinn sinn gegn Derek Chisora. Fury sigraði bardagann og vann WBC-beltið á Tottenham-leikvanginum í London.
Fury á það til að hætta við að hætta. Það líða allt frá nokkrum klukkustundum upp í rúmt ár milli þess að hann tilkynnir brotthvarf þar til hann ákveður að snúa til baka. Spurningin er þá – er hann hættur í alvörunni?