Valgerður Guðsteinsdóttir, fyrsta og eina atvinnuhnefaleikakona Íslands, berst í kvöld í York Hall í London. Þetta verður fjórtándi atvinnumannabardaginn hennar Valgerðar en í þetta skiptið mætir hún Lillie Winch (3 – 0) sem er ósigruð heimakona.
Valgerður mætti síðasta Shauna O’Keefe í fyrra en eftir bardagann skildi Valgerður við þjálfarann sinn, Oscar Luis, og gekk í raðir Ringcraft á Englandi. Valgerður æfir núna undir fagmannlegri handleiðslu Simon Taylor og Ian „Jumbo“ Johnson sem eru báðir mjög reyndir í sportinu. Ringcraft er ungur en virtur klúbbur í Bretlandi sem er stjórnað af reynslumiklum mönnum en Ian Johnson er með 30 ára reynslu sem þjálfari og cutman. Hann hefur til að mynda unnið með Tyson Fury, Katie Taylor, Nathan Cleverly, Chris Billam-Smith, Caroline Dubois, Ellie Scotney og Adam Azim svo dæmi séu tekin.
Þar að auki er Valgerður líka að vinna með nýjum matchmaker og umboðsmanni, honum Jon Pegg sem er sjálfur fyrrum atvinnuhnefaleikamaður.
Fyrsti bardaginn undir nýjum þjálfurum
Bardaginn verður sýndur á DAZN í kvöld og verða alls níu bardagar á dagskrá og eru þar af 3 upp á titil. Þetta er flott uppröðun af bardagamönnum og eru margir efnilegir á þessu kvöldi.
Valgerður mætir Lillie Winch sem er eins og áður sagði ósigruð í atvinnuhnefaleikum og á ennþá eftir að tapa lotu á ferlinum. Bardaginn milli Valgerðar og Lillie er skráður sem átta tveggja mínútna lotur en Valgerður fær hér tækifæri til að leita í reynslubankann og spyrja Lillie spurningar sem hún getur ekki svarað.
Eins og sjá má í síðasta bardaga Lillie er hún með hrikalega beitta stungu í vinstri hendinni og gerir vel í að hreyfa sig úr fjarlægð áður en svarið frá andstæðingnum kemur. Valgerður hefur sýnt að hún getur stigið inn á móti andstæðingunum sínum og er með mikinn kraft í hægri hendinni og liggur í loftinu að henni muni takast að tímasetja hægri-yfirhendina vel gegn Lillie.