Fyrsta umferð Vorbikarmóts Hnefaleikasambands Íslands fór fram í dag í nýjum húsakynnum Hnefaleikafélags Hafnarfjarðar og voru sex bardagar á dagskránni. Mætingin var góð og MMA Fréttir streymdu einnig mótinu í beinni útsendingu á YouTube.
Ísak Guðnason og Bjarni Ottósson áttu líklega skemmtilegasta bardaga dagsins en viðureign þeirra var algjör flugeldasýning frá byrjun til enda en bardaginn endaði snemma í þriðju lotu þegar Bjarni fékk sína þriðju talningu og tók hné. Bjarni sýndi góða takta en Ísak reyndist honum aðeins of mikið og TKO sigur Ísaks útkoman. Hér fyrir neðan má sjá megnið af þeim bardaga:
Fyrsti bardagi dagsins var viðureign Hilmars Þorðvarðarsonar og Tristans Styff. Þessir tveir ungu strákar hafa mæst nokkrum sinnum og er ávallt lítið sem aðskilur þá en Tristan hafði þó betur gegn Hilmari í tvígang á Vorbikarmótinu í fyrra. Aftur í dag var bardaginn þeirra á milli hnífjafn og endar í klofinni dómaraákvörðun en líklega hefur Hilmar náð að gera aðeins meira og sannfært tvo dómara um að dæma sigurinn í hans horn.
Fyrstu þrír bardagarnir voru allir hnífjafnir og enduðu allir í klofinni dómaraákvörðun en Artem Siurkov sigraði Arnar Jaka Smárason og Kormákur Steinn Jónsson sigraði Mihail Fedorts. Litlu mátti muna í öllum þessum þremur viðureignum og mega allir sex boxarar ganga sáttir frá hringnum í dag.
Það var svo nýtt andlit meðal keppanda í dag en Pétur Gunnarsson frá Bogatýr mætti Símoni Kristjánssyni frá Hnefaleikafélagi Kópavogs í B-flokki og lét aldeilis taka eftir sér með mjög sannfærandi frammistöðu. Pétur var mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum og var að hitta Símon trekk í trekk með þungum höggum.
Stóru strákarnir í þungavigtinni, Magnús Kolbjörn Eiríksson og Elmar Freyr Aðalheiðarson, enduðu svo daginn með hörku bardaga sem endaði á sigri Magnúsar Kolbjarnar eftir einróma dómaraákvörðun. Þeir tveir hafa mæst margoft og Kolla ekki tekist að vinna Elmar í nokkur skipti í röð en hafði þó betur í dag. Sannfærandi sigur að þessu sinni og góður bardagur til að enda daginn.
Hér er útsendingin þar sem sjá má alla bardaga dagsins:
Næstu tvær umferðir fara fram í VBC, dagana 21. og 22. febrúar, og munu MMA Fréttir einnig streyma þeim í beinni útsendingu á YouTube.





