RVK MMA eru að halda út með 48 manns til Manchester um helgina þar sem 29 keppendur keppa á Interclub-æfingamóti sunnudaginn 30. mars. Farið verður á Caged Steel deginum áður (29. Mars) og horft á liðsfélagana keppa áður en MMA2 hópurinn keppir á Interclub-mótinu deginum eftir.
MMA2 hópurinn er búinn að vera í stífum æfingarbúðum undir handleiðslu Kidda, Hákons og Ármanns Loga til að undirbúa sig fyrir komandi átök. Hópurinn heldur út 28. mars og fer beint til Doncaster til að horfa á Caged Steel. Eftir að bardagakvöldinu þar lýkur fer hópurinn beint í rútu og heldur til Manchester og keppir daginn eftir.
Á Interclub-æfingamótum er ekki sama harka og í alvöru áhugamanna MMA bardögum og því aðeins þægilegra að taka sín fyrstu skref þar heldur en á alvöru bardagakvöldi eins og t.d. Caged Steel. RVK MMA hafa sjálfir haldið Interclub mót undir nafninu Training Day margoft sem hefur gengið mjög vel en mögulega eru dómarar aðeins slakari úti í Manchester en þeir eru heima í Reykjavík þar sem MMA er auðvitað enn óheimilt.
RVK MMA munu senda út upprennandi bardagamenn á öllum aldri en 15 af þeim eru undir 18 ára aldri og sá yngsti er 12 ára. Fyrir þá sem eru undir 16 ára aldri eru höfuðhögg ekki leyfileg heldur aðeins högg í skrokkinn og eru 5 strákar sem falla undir þann hóp. Engin stelpa er skráð á mótið en þáttaka kvenna í MMA hefur ekki verið mikil undanfarið frá Íslendingum. Hekla María Friðriksdóttir berst þó á Caged Steel um helgina sinn fyrsta bardaga og er hún fyrsti kvenmaður til þess að stíga inn í búr síðan Dagmar Hrund Sigurleifsdóttir gerði það í september 2023.
Það verður gaman að fylgjast með þessari nýju kynslóð MMA bardagamanna brjóta blað í sögu blandaðra bardagalista á Íslandi og munu MMA Fréttir að sjálfsögðu senda fulltrúa sína á staðinn og færa fólkinu heima fréttir þaðan.