Það eru alltaf einhverjir efnilegir bardagamenn á hverju bardagakvöldi en sá áhugaverðasti um helgina er Jamahal Hill.
Aldur: 29 ára
Bardagaskor: 8-0
Rothögg: 4
Uppgjafartök: 0
Stærsti sigur: Klidson Abreu
Jamahal ‘Sweet Dreams’ Hill mætir reynsluboltanum Ovince St. Preux á UFC bardagakvöldi helgarinnar. Hill er ósigarður í átta bardögum og þar af tveimur í UFC. Hill vann sér inn samning hjá UFC eftir flottan sigur í Contender series á móti Alexander Poppeck.
Bardagastíll
Hill er agaður örvhentur „striker“. Hann notfærir sér það mjög vel að berjast úr örvhentri stöðu þar sem hann er með góða stungu og spörk í skrokkinn. Á meðan hann er að þessu heldur hann góðri fjarlægð og nýtir rúmlega tveggja metra faðminn sinn vel. Glíman hjá honum er þó mjög stórt spurningarmerki þar sem hann hefur sýnt frekar lélega felluvörn en þó verið fínn í að komast aftur upp.
Það sem er þó stærsta rauða flaggið að mínu mati er vörnin hans standandi. Þar er hakan hans er eiginlega alltaf uppi og hendurnar niðri. Hans helsta vörn er að vera snöggur en hann notar ekkert sérstaka tækni í þessum varnarhreyfingum og er hann eiginlega bara að hreyfa sig í burtu. Þetta mun bíta hann einhvern tímann á ferlinum ef hann lagar þetta ekki. Það er ekki góð uppskrift að vera með litla fótavinnu, hendurnar niðri og hreyfa hausinn ekki neitt.
🇭🇹 OSP 𝕧 Sweet Dreams 🇺🇸
— UFC on BT Sport (@btsportufc) December 4, 2020
Ovince Saint-Preux and Jamahal Hill face-off 🤜🤛#UFCVegas16 | Saturday | BT Sport 1 HD pic.twitter.com/WPE7s5lvaU
Mögleikarnir á móti OSP
Við eðlilegar kringumstæður ætti Hill að vinna OSP en í mínum bókum eru báðir þessir bardagamenn stór spurningarmerki á mismunandi vegu. Þá heyrði ég í frábæru hlaðvarpi að OSP væri eins og „box of chocolates, you never know what you’re gonna get”. Ég bara gæti ekki orðað þetta betur því að hann hefur verið hræðilega óáreiðanlegur á ferlinum. Hann á þó alveg möguleika í þessum bardaga þar sem Hill er mjög óreyndur og vitum við ekki ennþá hve góður hann er upp við búrið eða í gólfinu. Þetta getur OSP nýtt sér og reynt að gera þetta að leiðinlegum hægum bardaga.
OSP á það til að velja ekki auðveldustu leiðina og kæmi það mér ekkert á óvart ef hann væri bara sáttur standandi þar sem hann ætti líklegast að vera að tapa. OSP er þó kraftmeiri og getur alveg lent þungu höggi sem slekkur ljósin hjá Sweet Dreams. Ef að Hill heldur bardaganum standandi og tæknilegum ætti hann að vinna þetta frekar örugglega.
Hversu langt getur hann náð?
Ef Hill vinnur OSP er hann kominn á topp 15 en ég er alls ekki hrifinn af því sem ég sé þegar ég sé Hill berjast og hafa báðir sigrar hans í UFC eiginlega komið mér að óvart. Það lengsta sem ég get séð Hill ná er að verða hliðvörður í léttþungavigt en hann hefur talað um að hann geti farið niður í millivigt þar sem ég held að honum gæti gengið mun betur.
Aðrir spennandi bardagmenn
Jamahal Hill er ekki eini spennandi bardagamaðurinn á þessu kvöldi. Því að persónulega er ég mjög spenntur fyrir Jimmy ‘The Brick Flick’ sem keppir á móti Cody Durden á upphitunarhluta kvöldsins. Ég varð mjög spenntur að sjá Flick í UFC eftir að hafa horft á hann í Contender Series í geggjuðum bardaga sem hann vann með uppgjafartaki í 3. lotu. Hann er þrátt fyrir það ekkert rosalega góður og er kannski ekki að fara ná langt á UFC styrkleikalistum en hann gæti vel orðið skemmtilegur og vinsæll bardagamaður á svipaðan hátt og Jason ‘The Kid’ Knight.