Glacier Fight Night var haldið í fyrsta skipti 15. nóvember sl. við góðar viðtökur en þessi nýju innlendu bardagasamtök ætla að snúa fljótt aftur með nýjan viðburð, stærri og flottari, laugardaginn 28. febrúar í Framheimilinu. Aðalbardagar kvöldsins eru staðfestir en Hákon Örn Arnórsson frá RVK MMA og Viktor Gunnarsson frá Mjölni fá þann mikla heiður að loka kvöldinu.
Hákon Örn Arnórsson mætir Ali Albazi í aðalbardaga kvöldsins fyrir fjaðurvigtartitil GFN og Viktor Gunnarsson mætir Caleb Mullin í co-main bardaganum sem verður uppá bantamvigtartitilinn en andstæðingarnir koma báðir frá Englandi. Albazi frá Great Britain Top Team undir Brad Picket og Mullin frá American Top Team í Manchester. Fleiri titilbardagar í öðrum þyngdarflokkum verða svo kynntir seinna. Bardagarnir verða alls 9-11 talsins og skiptast jafnt á milli RVK MMA og Mjölnis.
Hákon Örn Arnórsson vs. Ali Albazi:
Hákon Örn barðist einnig í aðalbardaganum á fyrri viðburði Glacier Fight Night þar sem hann mætti Norðmanninum Eric Nordin í æsispennandi viðureign og snýr nú fljótt aftur fyrir tækifærið á sínu fyrsta belti í áhugamanna MMA. Andstæðingurinn, Ali Albazi, verður þó ekkert lamb að leika sér við.
Ali gæti verið íslenskum bardagaaðdáendum kunnugur en hann þreytti frumraun sína í maí 2023 á Caged Steel gegn Baldri Sigurðssyni frá RVK MMA en í dag hefur hann 10 bardaga undir beltinu, 7 sigra og 3 töp. Ali er bróðir Amir Albazi, UFC bardagamanns sem er í 6. sæti styrkleikalista fluguvigtarinnar. Ali hefur æft náið með bróður sínum og hans liði í aðstöðu UFC í Las Vegas. Bræðurnir eru fæddir í Írak en ólust upp í Svíþjóð og Englandi. Ali hefur mikla glímugetu og hefur m.a. glímt fyrir landslið Íraks. Ali kemur inn í þennan bardaga á fjögurra bardaga sigurgöngu, barðist síðast í september en fyrir það vann hann sitt fyrsta belti í Arena Wars Fighting Series í Nevada í júlí.
Hér má finna viðtal sem Fimmta Lotan tók við Ali Albazi stuttu eftir bardaga hans við Baldur á Caged Steel 2023:
Hákon okkar er þó með vind í sínum seglum líka og er á þriggja bardaga sigurgöngu. Eftir tvö glæsileg rothögg á Caged Steel fór Hákon alla leið í dómaraúrskurð á Glacier Fight Night í nóvember sem var í umræðunni fyrir besta bardaga ársins meðal hlustenda Fimmtu Lotunnar. Rothöggið hans gegn Sandryno Dobrin var einnig í umræðunni fyrir rothögg ársins en liðsfélagi hans Addi Bjarna tók þann heiður eftir rothöggið fræga frá síðasta GFN viðburði. Bardaginn milli Hákons og Ali gæti verið klassísk striker vs. grappler viðureign en Ali er samt góður striker og glíman hans Hákons orðin mjög sterk, en hann fékk fjólubláa beltið sitt núna rétt fyrir jól.
Viktor Gunnarsson vs. Caleb Mullin
Viktor Gunnarsson fær tækifærið á að koma höndum sínum yfir annað belti í áhugamanna MMA en hann sigraði fimm lotu titilbardaga í Goliath Fight Series í mars í fyrra. Viktor er núna kominn með 6 bardaga undir beltinu, 5 sigra og 1 tap, og hefur ýjað að því að stutt gæti verið í það að hann taki skrefið yfir í atvinnumennsku.
Viktor fór til Króatíu í október og keppti á MMA móti hjá Croatian MMA Union þar sem hann sigraði fyrsta bardagann sinn með uppgjafartaki í fyrstu lotu en fékk því miður ekki annan bardaga vegna meiðsla andstæðingar síns. Hér má sjá brot úr þeim bardaga:
Andstæðingur Viktors er Englendingur að nafni Caleb Mullin. Caleb lítur út fyrir að vera nokkuð góður striker sem er ekki hræddur við að fara í gólfið og seigur í scrambles. Viktor sagði sjálfur í samtali við MMA Fréttir að Caleb sé 100% besti andstæðingur sem hann hefur mætt og nefndi Viktor sérstaklega reynsluna hans en Caleb er með 6-5 met í áhugamanna MMA. Viktor sér þó holur í leik hans og er öruggur um að hann sé betri allsstaðar og muni finna leið að sigri.
Fyrri viðburðurinn var haldinn í Andrew´s Theather á Ásbrú í Keflavík en flestir bardagaaðdáendur fagna því líklega að í þetta skipti sé Glacier Fight Night haldið í Framheimilinu. Miðasala hefst á föstudaginn 9. janúar og það seldist hratt upp síðast. Núna verða mun fleiri miðar í boði en samt sem áður skynsamlegt að tryggja sér miða snemma vilji maður ekki missa af.





