Alex Pereira gaf út myndband á instagram nýlega þar sem hann óskaði fylgjendum sínum gleðilegs árs og sagði: “Ástralía ég sakna þín/ykkar, sjáumst í febrúar, chama”
UFC 312 verður haldið 8. febrúar í Sydney, Ástralíu þar sem Dricus Du Plessis og Sean Strickland mætast í aðalbardaga kvöldsins. Weili Zhang og Tatiana Suarez eigast einnig við í titilbardaga á sama viðburði og því virðist óþarfi að bæta öðrum titilbardaga við, nema annar hvor þessara hafi dottið út. Ekkert hefur heyrst um það enn.
Alex Pereira hefur unnið bæði millivigtar- og léttþungavigtartitil UFC og nú varið léttþungavigtartitilinn þrisvar sinnum. Það gerði hann á mettíma og á afar sannfærandi hátt. Næstur í röðinni fyrir hann verður líklega Magomed Ankalaev en Pereira, sem hefur verið orðaður við annan flutning upp í þungavigtina, hefur þó sjálfur sagt að hann hafi einnig áhuga á að fara aftur niður í millivigt til þess að mæta Dricus Du Plessis.
Nú er spurningin, hverjum er Alex Pereira að fara mæta í febrúar? Mætir hann loksins Ankalaev? Gæti hann verið að leysa af hólmi annan hvorn manninn í millivigtartitilbardaganum? Fáum við að sjá hann í þungarvigt? Svo virðist sem hann gæti verið á leiðinni í bardaga í hverjum sem er af þessum þremur þyngdarflokkum.