Ísfirðingurinn Ari Biering stígur inn í búrið annað kvöld, laugardag, á Caged Steel 39. Ari er á átjánda ári og bætist þar með í hóp stráka sem þreyta frumraun sína í blönduðum bardagaíþróttum aðeins sautján ára gamlir. Ari á afmæli í nóvember og tekur þar með titilinn sem yngsti MMA-keppandi Íslandssögunnar.
Ari mun mæta heimamanninum Ash Shemeld sem er 1 – 1 sem áhugamaður í MMA. Ash er eðlilega reynslumeiri en Ísfirðingurinn ungi en Ash fékk tækifæri á að vinna veltivigtartitilinn hjá Almighty Fighting Championship. Hann tapaði hins vegar viðureigninni fyrir Darce Choke í annarri lotu. Hreinskilningslega sagt virtist Ash aldrei líklegur til að vinna viðureignina og beltið. Bardaginn er hér fyrir neðan. Eins og sjá má liggja styrkleikar Ash í standandi leiknum. Hann er ágætis kickboxari en og er með hættulega hægri hendi, en á sama tíma skortir hann getu og kunnáttu í glímunni. Það er eitthvað sem að Ari Biering ætti að geta notfært sér í bardaganum.
Ari flutti að vestan til höfuðborgarinnar með það að meginmarkmiði að glíma og æfa MMA. Hann var að undirbúa sig fyrir bardaga á Interclub-móti í Manchester sem haldið verður á sunnudeginum eftir Caged Steel en hann fékk óvænt boð um að keppa á Caged Steel frekar og berjast sinn fyrsta bardaga sem áhugamaður.
Ari hefur keppt á Training Day sem haldið er í Reykjavík MMA með góðum árangri. Hans styrkleikar liggja klárlega í Jiu Jitsu, en hann er náttúrulegur hnefaleikamaður ofan á það. Í stuttu viðtali við MMA Fréttir segir Ari að draumurinn sé að fá tiltal og ráðgjöf frá þjálfurunum á milli lotna þar sem hann hefur ekki fengið að upplifa það áður. Honum hefur enn ekki tekist að draga æfingabardaga sína nægilega mikið á langinn að fyrsta lota klárist.
