Fimm ára banni Nick Diaz hefur nú verið stytt í 18 mánuði eftir sáttagerð við íþróttasamband Nevada fylkis. Diaz gæti því snúið aftur til keppni í ágúst.
Í september í fyrra var Nick Diaz dæmdur í fimm ára keppnisbann eftir að hann féll á lyfjaprófi. Í lyfjaprófi Diaz fundust leifar af marijúana en þetta var í þriðja sinn sem hann hefur gerst sekur um slíkt brot í Nevada fylki.
Bann Diaz var einnig til komið þar sem Diaz neitaði að hafa neytt lyfja tveimur vikum fyrir keppni á sérstökum spurningalista sem allir bardagamenn þurfa að svara áður en þeir keppa í Nevada fylki. Diaz hafði neitt marijúana á laug því á spurningalistanum sem er brot.
Málið vakti gífurlega reiði og sérstaklega í ljósi þess að fyrir samsvarandi þriðja brot hefði Diaz aðeins átt að fá þriggja ára bann samkvæmt refsiramma íþróttasambands Nevada. Síðar kom í ljós að Diaz hefði staðist tvö önnur lyfjapróf sama kvöld sem málsvörn Diaz benti á að væri læknisfræðilega ólíklegt.
Prófið sem Diaz féll á var framkvæmt af Quest rannsóknarstofunni sem er ekki viðurkennd af WADA (World Anti Doping Agency). Prófin sem Diaz stóðst þetta kvöld voru hins vegar framkvæmd af rannsóknarstofu sem er viðurkennd af WADA.
Eftir sáttagerð Diaz við íþróttasambandið hefur fimm ára bann hans lækkað í 18 mánuði. Þá lækkaði sekt hans úr 165.000 dollurum í 100.000 dollara. Bannið nær frá 31. janúar 2015 er hann barðist gegn Anderson Silva og verður Diaz því laus úr banninu þann 1. ágúst á þessu ári.
Diaz gæti því barist í haust óski hann eftir því. Diaz hefur áður gefið að út að hann sé hættur en er aðeins 32 ára gamall og hver veit nema hann snúi aftur og berjist í UFC.
Nick Diaz var ekki viðstaddur málsmeðferðina í dag og hefur ekkert tjáð sig um málið í dag.