UFC 299 var haldið í Miami, Florida um síðustu helgi og var það fjórði tekjuhæsti viðburður UFC frá upphafi. Sean O´Malley sýndi mikla yfirburði yfir Marlon Vera í aðal bardaga kvöldsins og Dustin Poirier sneri til baka sterkari en nokkru sinni fyrr eftir að hafa verið rotaður af Justin Gaethje í síðasta bardaga. Hann kom mörgum á óvart og gerði sér lítið fyrir og rotaði Benoit Saint Denis í 2. lotu en margir töldu Frakkann sigurstranglegri.
Mikið hefur verið spáð og spekúlerað hvað gæti verið framundan fyrir þá bardagamenn sem sigruðu sína bardaga og höfum við tekið saman hvað gæti talist bæði líklegt og skemmtilegt.
Sean O´Malley vs. Merab Dvalishvili
Suga Sean O´Malley sýndi þvílíka yfirburði í aðalbardaga kvöldsins og gjörsamlega rústaði Marlon Vera og verður að teljast hálf ótrúlegt að Marlon Vera hafi náð að endast allar 25 mínúturnar í búrinu með Sean.
Sean kallaði út Ilia Topuria, nýja fjaðurvigtarmeistarann, en hann á eftir að verja beltið sitt eftir að hafa rotað Alexander Volkanovski í síðasta mánuði og unnið titilinn.
Sean sagði samt sem áður að ef að við vildum sjá hann rota Merab Dvalishvili fyrst þá gæti hann alveg gert það. Merab sem tapaði sínum fyrstu tveimur UFC bardögum hefur verið í banastuði síðan en hann er búinn að vinna núna 10 í röð og síðustu 3 hafa allt verið risastór nöfn. Merab er fremstur í röðinni á styrkleikalistanum og ætti að vera næstur til að gera tilkall til titilsins og hefði í raun átt að gera það fyrir löngu en hann hefur ekki viljað berjast við æfingafélaga sinn og vin, Aljamain Sterling, á meðan hann var bantamvigtarmeistari.
Það liggur því beinast við að Sean og Merab mætist næst
Dustin Poirier vs. Islam Makhachev
Þó að vissulega hafi sýklalyfjakúr sem Benoit Saint Denis þurfti á að halda eftir “staph” sýkingu sett strik í reikning verður að teljast stórt afrek fyrir hinn 35 ára gamla Dustin Poirier að rota einn mest spennandi unga og hungraða ljón léttvigtar þyngdarflokksins.
Islam Makhachev er meistarinn í léttvigtinni og hafa margir haldið því fram að hann muni verja beltið sitt í júní. Charles Oliveira og Justin Gaethje ættu að vera líklegastir til að fá næsta skot á meistarann en þeir eru báðir með bardaga á UFC 300 í apríl og því óvíst hvort þeir verði búnir að ná fullri heilsu fyrir júní. Margir hafa bent á að vegna áhættunar sem Dustin tók með því að mæta Benoit að hann eigi skilið að fara framfyrir röðina, sérstaklega þar sem Oliveira og Gaethje eru uppteknir við önnur verkefni.
Islam vs. Poirier er bardagi sem örugglega allir UFC aðdáendur myndu taka fagnandi í júní.
Michael Venom Page vs. Stephen Thompson
Michael Venom Page átti frábæra innkomu inní UFC um helgina. Margir héldu að hann væri orðinn of gamall og hefði aldrei mætt eins sterkum andstæðing og Kevin Holland en hann lét þetta líta auðveldlega út. Kevin Holland sem virðist aldrei missa gleðina og spaugið jafnvel þó hann sé að tapa var orðinn mjög pirraður á að komast ekki nálægt MVP.
MVP er með einstakan karate stíl og er afar léttur á fæti og hafa margir viljað para hann saman við Stephen “Wonderboy” Thompson sem hefur einnig sinn einstaka karate stíl. Page hefur hins vegar sagt það sjálfur að það gæti orðið leiðinlegur bardagi. Þó Stephen Thompson sé ótrúlega skemmtilegur bardagamaður hefur hann átt nokkra hundleiðinlega bardaga eins og t.d. gegn Tyron Woodley í tvígang. En það gæti vel verið áhætta sem margir MMA áhugamenn væru tilbúnir að taka. Annars yrði gaman að sjá Michael Venom Page spreyta sig gegn nokkurn vegin hverjum sem er í efstu 10-15 sætunum í veltivigtinni.
Jack Della Maddalena vs. Ian Garry
Jack Della Maddalena tókst að klára Gilbert Burns um helgina sem verður að teljast mikið afrek, eitthvað sem jafnvel Khamzat Chimaev tókst ekki. Hann klifraði upp um 6 sæti og situr núna í 5. sæti styrkleikalistans. Hann sagðist sjálfur vilja fá Shavkat Rakhmonov en hefur einnig verið sterklega orðaður við Ian Garry. Rakhmonov er talinn af mörgum líklegur til að verða meistari í veltivigtinni en gæti þurft að bíða eftir að Belal Muhammad fái sitt skot á meistarann, Leon Edwards, fyrst. Dana White og UFC eru þekktir fyrir að vilja byggja upp nýja spennandi bardagamenn hægt og rólega frekar en að henda þeim beint í ljónagryfjuna eins og bardagi gegn Shavkat gæti orðið fyrir Maddalena. Það væri gaman að sjá Maddalena, sem er helst þekktur fyrir boxið sitt, mæta öðrum sterkum “striker” og gæti Ian Machado Garry verið hinn fullkomni andstæðingur fyrir hlutlausa áhorfendur.
Petr Yan vs. Marlon Vera
Eftir að hafa átt erfiða 1. lotu gegn Song Yadong um helgina kom Petr Yan sterkur tilbaka og sigraði Kínverjann á sannfærandi hátt. Petr Yan var fyrir þennan bardaga á þriggja bardaga taphrinu. Hann tapaði beltinu fyrir Aljamain Sterling fyrir 3 árum en hann gaf honum ólöglegt hné í höfuðið í þeim bardaga. Honum tókst að sigra Cory Sandhagen í næsta bardaga en taphrinan hófst eftir það þegar hann mætti Sterling í seinna skiptið. Eftir það mætti hann Sean O´Malley og þó hann hafi tapað þeim bardaga á klofinni dómaraákvörðun þá var stór meirihluti sem hélt því fram á Petr Yan hefði átt að fá sigurinn dæmdan í sitt horn. Hann mætti svo Merab Dvalishvili eftir það sem hann tapaði einnig fyrir. Hann tók sér svo árs frí og kom jafn sterkur tilbaka og raun ber vitni. Hann sagði sjálfur eftir bardagann að hann vilji fá Marlon Vera næst og svo Sean O´Malley eftir það enda hefur hann harma að hefna gegn honum. Það hljómar eins og gott plan en óvist er hvort Sean O´Malley verði meistari þegar kemur að því að hann og Petr Yan verði látnir endurtaka leikinn enda er Sean O´Malley með risaverkefni (líklega) fyrir framan sig í Merab Dvalishvili.
Nokkrir aðrir bardagamenn áttu flottar frammistöður og þó við látum það vera að spá í það sérstaklega verður gaman að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir menn eins og t.d. Michel Pereira og Kyler Phillips sem áttu stórkostlegar frammistöður um helgina.