Það var þrælskemmtilegt UFC fight night í Las Vegas um liðna helgi þar sem Brandon Royval barðist við Tatsuro Taira í aðalbardaga kvöldsins sem gæti alveg komið til greina sem einn af bardögum ársins hjá samtökunum. Bardaginn var jafn og skemmtilegur, Brandon Royval sýndi yfirburði á fótum en ef bardaginn fór í gólfið var Taira með yfirhöndina þar. Þeir skiptust á að vinna lotur í miklum hasarbardaga þar sem Royval pressaði Taira og þrýsti honum út í mjög hátt tempo sem fór að segja til sín þegar leið á bardagann en Taira virkaði mjög þreyttur í fimmtu lotunni. Royval sigraði bardagann með klofnum dómaraúrskurði sem var líklega rétt niðurstaða. Með þessu tapi hefur aðeins hægst á upphafningarlestinni sem hefur verið að keyra Tatsuro Taira upp listann hjá UFC en Royval tryggir sinn sess í titilumræðunni og hlýtur að geta gert tilkall til titilbardaga á næstu mánuðum eftir þessa frammistöðu.
Í næst síðasta bardaga kvöldsins áttust við Brad Tavares og Junyong Park en Park sigraði með klofnum dómaraúrskurði. Brad Tavares, sem ekki fyrir svo löngu þótti gríðarlega spennandi bardagamaður sem var að stefna á titil, er farinn að líta út fyrir að vera ferðalangur í heim blandaðra bardagalista.
Í öðrum bardaga kvöldsins átti Chidi Njokuani yfirburðaframmistöðu gegn Jared Gooden en það verður þó að segjast að Gooden var ekkert að gera þetta sérstaklega erfitt fyrir Njokuani. Gooden vigtaði of þungur fyrir bardagann og virtist vera ánægður með bakið upp við búrið þar sem Njokuani var að stjórna og negldi Gooden með góðum hnjám í skrokkinn. Erfitt er að segja hvort þetta hafi verið gríðarlega flott frammistaða hjá Njokuani eða ofboðslega döpur hjá Gooden.
Grant Dawson sýndi flotta glímutakta þegar hann kláraði Rafa Garcia í annarri lotu, það virðist vera meira en að segja það, að losa Dawson af sér ef hann nær fellu. Þá sigraði Daniel Rodriguez Alex Morono í jöfnum bardaga sem hefði líklega getað farið til beggja í nokkuð yfirveguðum bardaga þar sem mikill tími fór í að bardagamennirnir læsu hreyfingar hvor annars og minna var slegið en í mörgum öðrum bardögum.