Fyrrum flugu- og bantamvigtarmeistarinn Henry Cejudo vaknaði upp við vondan draum á þriðjudagsmorgni þegar honum varð ljóst að brotist hafði verið inn í húsið hans og einu af UFC-beltunum hans stolið ásamt ýmsum tækjabúnaði. Þetta er í annað skipti á innan við sólarhring sem Cejudo kemst í fréttirnar en myndband af honum gekk um netið daginn áður þar sem hann framkvæmdi borgaralega handtöku.
Henry Cejudo komst nýlega í fréttirnar eftir að drukkinn ökumaður missti stjórn á bílnum sínum og ók honum inn í hús nágranna hans. Ökumaðurinn reyndi að hlaupa á brott en Cejudo elti manninn uppi og hélt honum niðri þar til lögreglan kom á vettvang.
Sólahring seinna ber aftur til tíðinda hjá Cejudo en aðfaranótt þriðjudags var brotist inn í stúdíóið hans. Fyrrum UFC-meistarinn heldur uppi hlaðvarpsþættinum Pound 4 Pound ásamt Kamaru Usman en innbrotsþjófurinn er talinn hafa numið af brott 10.000 dollara virði af tækjabúnaði úr stúdíóinu (rúmlega 1,3 milljónir ISK).
Framleiðandi þáttanna, Dylan Rush, var sofandi á sófanum þegar þjófnaðurinn átti sér stað en hann vaknaði við umganginn og fylgdist með þjófinum athafna sig í tvær mínútur haldandi að þetta væri Henry Cejudo sjálfur. Það var ekki fyrr en það heyrðist hátt brothljóð að Rush fór að athuga málið. Þjófnum hafði tekist að stela einu belti úr glæsilegu safni Cejudo.
Þjófurinn tók fyrsta beltið sem Cejudo vann. Cejudo varð fluguvigtarmeistari eftir að hafa sigrað Demetrious Johnson í endurleiknum þeirra á UFC 227.