Á laugardagskvöldið verður haldinn einn stærsti hnefaleikabardagi síðari ára þegar Canelo Álvarez mætir Terence Crawford á Allegiant Stadium í Las Vegas. Þetta kvöld verða öll stærstu ofurmillivigtarbeltin í hnefaleikaheiminum í húfi (WBA, WBC, IBF og WBO) þegar hinn óumdeildi leggur allt undir gegn hinum ósigraða.
Terence Crawford fær tækifæri til að skrifa sig í sögubækurnar sem fyrsti karlkyns boxarinn til að verða óumdeildur meistari í þremur þyngdarflokkum. Fyrir Canelo er þetta tækifæri til að halda áfram að byggja upp sína arfleifð sem einn verðlaunaðasti hnefaleikakappi allra tíma.
Crawford er að stíga upp um tvo þyngdarflokka til að mæta Canelo. Hann hefur þurft að bæta á sig vöðvamassa og styrk til að eiga möguleika á að standast kraft og þyngd Canello en Crawford mætti á vigtina í óaðfinnanlegu formi fyrir bardagann. Spurningin er hvort hraði og tækni hans geti vegið upp á móti yfirburðaþyngd Canelo.
Crawford er þekktur fyrir að klára bardagana sína – 31 af 41 sigrum hans hafa komið með rothöggi. Canelo, sem á 39 KO-sigra á ferlinum, hefur hins vegar ekki klárað bardaga með rothöggi síðan 2021. Það getur þýtt að bardaginn fari alla leið ef rothöggið kemur ekki öðru hvoru megin snemma í bardaganum.
Canelo er varnarlega sterkur og notar öflug líkamshögg og nákvæma gagnhöggstækni (Ens. Counter Punching) ásamt því að vera vanur að stjórna fjarlægðinni og hraðanum í hringnum. Crawford er hins vegar fjölhæfur, getur skipt um stöðu, notar lipra fótavinnu og er þekktur fyrir að aðlagast aðstæðum. Þetta gæti því orðið bardagi þar sem taktík og aðlögunarhæfni verður í forgrunni.
Canelo hefur talað um að berjast fyrir Mexíkó og lofað „miklum sigri fyrir þjóðina“. Fyrir Crawford er þetta bardagi sem gæti tryggt honum einstaka stöðu í hnefaleikasögunni. Báðir hafa því sterka hvatningu – annars vegar þjóðarstolt, hins vegar persónulega arfleifð.
“I’m just feel grateful to them because they have supported me since day one… I just want to let them enjoy another victory for Mexico.” – Canelo
Bardaginn er fyrsti stórviðburður Zuffa Boxing, nýs viðskiptasambands milli Dana White og Turki Al-Sheikh. Hann er jafnframt sýndur á Netflix, sem þýðir að milljónir áhorfenda um allan heim geta fylgst með án hefðbundinnar PPV-gjaldtöku. Þetta gæti markað nýtt tímabil í dreifingu og kynningu hnefaleika þar sem Zuffa Boxing hefur ekki enn gert nýjan langtímasamning við útsendingaraðila. Top Rank og ESPN eru einnig í myndinni hvað varðar langtímasamning við Zuffa Boxing.
Canelo gegn Crawford er ekki bara bardagi um belti – þetta er bardagi um arfleifð, framtíð hnefaleikanna og nýtt form á íþróttinni. Hvort sem það verður reynsla og styrkur Canelo eða hraði og fjölhæfni Crawford sem ræður úrslitum, er ljóst að við erum að horfa upp á eitt stærsta augnablik hnefaleikaársins.







