Colby Covington hefur verið einn mest umtalaði UFC-bardagamaður undanfarinna ára en áhugamenn um blandaðar bardagalistir virðast ekki fá nóg af því að hata Colby. Það eru ekki mörg ár síðan að Colby var einn mest spennandi bardagamaður UFC. Þegar Colby sigraði Rafael Dos Anjos og var krýndur tímabundinn meistari í veltervigt UFC voru einhverjir sem töldu Colby vera framtíð deildarinnar og gæti verið meistari í langan tíma. Sú varð þó ekki raunin og undanfarin ár hafa verið erfið fyrir Colby en hann hefur tapað þremur af síðustu fimm bardögum og sá Colby aldrei til sólar í síðasta bardaga gegn Joaquin Buckley.
Á youtube-rás Colby var hann að ræða um framtíð sína í UFC og hvað gæti tekið við þegar hann leggur hanskana á hilluna og snýr sér að öðrum verkefnum. Colby sagði að hann myndi trúlega færa sig yfir í WWE og verða atvinnumaður í glímu en WWE eru vinsæl samtök í Bandaríkjunum þar sem fara fram glímubardagar sem eru fyrir fram ákveðnir og fara fram samkvæmt handriti. Þá vildi Colby byrja að æfa sig bæði hvað sjálfar glímurnar varðar en einnig að ná til áhorfenda. Það er ekki langt í hæfileika Colby til að æsa í áhorfendum WWE en hann hefur verið að leika persónu undanfarin ár til að komast í blöðin og er sú persóna ekki ólík því sem sést gjarnan í WWE.
Um framtíð sína í UFC sagði Colby að vonandi myndi hann berjast aftur á næstu þremur mánuðum, ég vil fá 12 vikna æfingabúðir fyrir næsta bardaga sagði Colby. Þá bætti Colby við að hann hefði ekkert æft fyrir síðasta bardaga heldur hafi hann mætt á svæðið án þess að vera tilbúinn í bardagann af ást á UFC. Þegar UFC finnur góðan bardaga fyrir mig, stórt nafn sem býr til viðskipti fyrir UFC, mun ég byrja 12 vikna æfingabúðir til að verða tilbúin, sagði Colby einnig. Colby mun þá koma fram í þáttunum The Ultimate Fighter sem er í tökum sem stendur.