Charles Oliveira minntist á möguleikann að færa sig upp um þyngdarflokk eftir tapið gegn Arman Tsarukyan á UFC 300 í apríl. Nú hefur Colby Covington lýst yfir áhuga á að bjóða fyrrverandi léttvigtarmeistarann velkominn í veltivigtina og hefur Oliveira sagst vera opinn fyrir því.
Colby Covington og Ian Machado Garry hafa verið mikið orðaðir við hvorn annan undanfarið og hafa þeir rifið mikinn kjaft við hvorn annan á netinu. Þeir hafa báðir gefið út myndbönd til hvors annars en nú virðist Colby Covington vilja snúa sér frekar að Charles Oliveira. Colby gaf Garry upphaflega 3 fáranleg skilyrði til þess að hann myndi taka bardaga gegn honum sem beindust flest að konunni hans og Ian Garry svaraði honum með því að segja að sá sem tapar þarf að leggja hanskana á hilluna.
Colby, sem er ekki þekktur fyrir að fara mjúklega í hlutina, er strax farinn að skjóta föstum skotum að Oliveira. Hann segist vera fullkominn bardagamaður til að taka á móti Oliveira í nýjum þyngdarflokki. Hann kallaði sig kóng Brasilíu, kóng Miami og uppáhalds bardagamann Donalds Trump. Hann kallaði Oliveira weight bully fyrir að vera stærri en hann sjálfur en samt skera niður í 155 punda flokkinn til að hafa líkamlega yfirburði vegna þess að hann sé ekki nógu andlega sterkur.
Colby Covington fékk sitt þriðja tækifæri á veltivigtartitlinum gegn Leon Edwards í desember í fyrra sem hann tapaði líkt og hann gerði í hin tvö skiptin gegn Kamaru Usman. Á milli þessara titilviðureigna hefur hann samt sótt 2 sigra í 2 bardögum, fyrst gegn Tyron Woodley og svo gegn erkióvini sínum Jorge Masvidal, en hann er ekki með neinn sigur gegn aktívum top 15 veltivigtar bardagamanni innan UFC. Samt sem áður verður spennandi að sjá hvað hann gerir næst.
Ian Garry vann góðan sigur síðustu helgi gegn Michael Venom Page sem er líklega hans sterkasti andstæðingur til þessa og er hann núna kominn með 15-0 atvinnumanna record, búinn að sigra alla sína 8 UFC bardaga síðan hann þreytti frumraun sína í nóvember 2021.
Colby Covington yrði klárlega hans stærsta verkefni til þessa og situr hann í 4. sæti styrkleikalistans, þremur sætum ofar en Garry, og miðað við allt sem á hefur gengið milli þeirra lítur það út eins og bardaginn sem liggur beinast við að setja upp. Núna virðist eins og Colby vilji frekar leita á önnur mið en það verður áhugavert að fylgjast með hvað verður úr þessu öllu saman.