Bardagakonan Daiane Silva tók bardaga í Bellator með stuttum fyrirvara þar sem hún átti að keppa í fjaðurvigt í fyrsta skipti og var hraðað á spítala í lífhættu vegna misheppnaðrar tilraunar til að ná vigt. Alex Davis umboðsmaður Silva hefur tjáð sig um atvikið en hann er þekktur umboðsmaður í heimi bardagaíþrótta og hafa þekktir bardagamenn verið skjólstæðingar hans má þar nefna Edson Barboza, Amanda Ribas og Norma Durmont.
Davis sagði að aðdragandi bardagans hafi borið af með skjótum hætti og átti Silva að berjast með stuttum fyrirvara í nýjum þyngdarflokki. Í nokkra daga fram að bardaga var ljóst að Silva myndi eiga erfitt með að ná vigt en það leit samt sem áður allt út fyrir að hún myndi ná því. Davis sagði að hann hafi heyrt í Silva daginn áður en hún var flutt á spítala og þá hafi henni gengið vel að losa sig við þyngd en morguninn eftir hafi hann vaknað og þá biðu skilaboð eftir honum þar sem honum var sagt að Silva hefði verið flutt á spítala.
Davis sagði að hann hafi aldrei lent í svona aðstæðum áður og viðurkennir hann að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu mikið álag það gæti verið fyrir líkama bardagamanna að ná vigt. Davis kvaðst þá hafa ekki gert sér grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar það gæti haft í för með sér ef líkaminn bregst illa við þyngdartapinu eins og átti sér stað hjá Silva.
Þegar Silva kom á spítalann í London ákváðu læknar að setja Silva í dá sem var framkallað með aðstoð lyfja sem gefur til kynna hversu alvarlegt ástand var á henni við komu á spítalann. Það vakti athygli að þegar ástand Silva var orðið þekkt þá hafði Bellator ekki gefið út yfirlýsingu eða annað í tilefni af atvikinu en Davis segir að það hafi verið að hluta vegna beiðni Silva og fjölskyldu hennar að halda atvikinu frá umræðunni eftir fremsta megni. Davis hrósar þá forsvarsmönnum Bellator þar sem honum þóttu viðbrögð þeirra til fyrirmyndar enda hafi starfsmenn Bellator áttað sig á því að eitthvað amaði að Silva og komið henni á fund læknis sem síðar hafi ákvarðað að hún þyrfti að fara á spítala.
Davis sagði að nýru Silva hafi verið að því komin að gefa sig en það hafi gerst þar sem hún hafi losað mikinn vökva úr líkamanum og þá hafi hlutfall natríums verið of hátt í líkama Silva og nýrun hafi brugðist illa við því. Sagði Davis þá að náin vinur Silva hafi flogið frá Brasilíu til Englands til að styðja hana í gegnum þennan erfiða tíma og hrósaði hann viðkomandi í hástert.
Davis sagði að ferlið þar sem Silva var endurheimt úr dáinu hafi tekið tíma og verið vandasamt en hann sagði að hún væri enn undir meðhöndlun vegna langtímaafleiðinga þessa atviks í endurhæfingarmiðstöð í Brasilíu. Búist er við að Silva nái fullum bata en Davis veit að þetta atvik hefði vel geta haft í för með sér alvarlegri og varanlegar afleiðingar.
Davis sagði að eftir atvikið hafi hann allt aðra sýn á því þegar bardagamenn eru að tæma vökva úr líkamanum til að ná vigt fyrir bardaga. Sagðist hann hafa verið staddur í herbergi þar sem margir bardagamenn hafi verið að losa þyngd fyrir bardaga þar sem einn hafi legið á gólfinu og kvartað undan bakverkjum. Davis hafi heyrt þjálfara hans hvetja hann og segja að hann yrði að sýna fagmennsku og ná vigt fyrir bardagann en þá hafi Davis gefið sér á tal við þjálfarann og sagt honum að nýrnaverkir á þessum tímapunkti ætti að taka alvarlega, þetta snerist ekki um fagmennsku heldur heilsu bardagamannsins. Davis kvaðst hafa gefið sig á tal við starfsfólk bardagasamtakanna og látið þá vita af áhyggjum sínum af viðkomandi bardagamanni.
Davis lítur öðrum augum á þyngdarlosun fyrir bardaga eftir atvikið með Silva og telur hann að það þurfi að líta betur á hvernig staðið er að því sem og hvernig horft er á þegar bardagamenn þurfa að losa mikla þyngd á skömmum tíma til að ná vigt fyrir bardaga.
Árið 2015 lést bardagamaðurinn Yang Jian Bing eftir að hafa losað mikla þyngd til að ná vigt í ONE bardagasamtökunum og frá þeim tíma hafa samtökin mælt hversu mikinn vökva bardagamenn hafa í líkamanum þegar þeir eru að skera þyngd fyrir bardaga. Þrátt fyrir að fyrirkomulagið hafi fengið á sig gagnrýni telur Davis það mikilvægt skref í átt að því að tryggja heilsu og velferð bardagamanna og vill hann sjá önnur bardagasamtök taka upp álíka forvarnarráðstafanir. Davis segir að mikilvægt sé að taka á þessu innan bardagaheimsins því þó að það sé ekki algengt að alvarlegar heilsufarsafleiðingar verði vegna þyngdartaps þá komi það fyrir og það þurfi að fyrirbyggja.
Þyngdartuddar (e. weight bullies) eru þeir kallaðir sem losa mikinn vökva fyrir bardaga með það fyrir augum að bæta því aftur við sig og hafa þá það forskot að vera nokkrum kílóum þyngri en andstæðingurinn þegar stigið er í búrið. Þrátt fyrir talsverða þróun í losun á þyngd fyrir bardaga koma enn atvik fyrir eins og í tilfelli Silva þar sem bardagafólk seilist of langt og líkaminn hrinur fyrir vikið. Til að tryggja heilsu og langlífi þarf að huga að þessu en það gæti reynst erfitt þar sem þá gæti þurft að grípa fram fyrir hendurnar á bardagamönnum og skikka þá í að taka þátt í ákveðnum þyngdarflokkum. Það væri vissulega skerðing á frelsi bardagafólks en það hefur nú komið fyrir atvik þar sem bardagamenn ná ekki vigt og í framhaldinu keppa ekki aftur í þeim þyngdarflokki. Þekkt dæmi er þegar Khamzat Chimaev átti að keppa við Nick Diaz árið 2022 en missti vigt með sjö pundum en Dana White sagði eftir það að Chimaev myndi ekki keppa aftur í veltervigt sem hefur verið raunin.