Það er nú komið á hreint hver næsti andstæðingur Leon Edwards verður en það var tilkynnt um að hann myndi berjast í aðalbardaga kvöldsins á UFC Fight Night í London 22. mars. Edwards mætir Ástralanum Jack Della Maddalena sem margir hafa spáð að gæti orðið framtíðar veltivigtarmeistari.
Jack Della Maddalena hefur verið á blússandi siglingu síðan hann skrifaði undir hjá UFC og sigrað alla 7 bardaga sína til þessa. Í síðustu tveimur bardögum hefur hann sótt sterka sigra gegn Kevin Holland og Gilbert Burns. Hann sigraði Holland á klofinni dómaraákvörðun en kláraði Burns í 3. lotu í mars í fyrra á UFC 299.
Maddalena mætir nú fyrrverandi veltivigtarmeistaranum Leon Edwards og gerir það á hálfgerðum heimavelli Edwards í London en Edwards kemur frá Birmingham. Edwards varð veltivigtarmeistari með höfuðsparkinu fræga sem hann náði á Kamaru Usman í 5. lotu í titilviðureign þeirra og endaði valdatíð Usman sem hafði varið titilinn 5 sinnum áður en hann mætti Edwards. Edwards varði svo titilinn gegn Usman og aftur gegn Colby Covington áður en hann missti beltið yfir til Belal Muhammad í júlí í fyrra á UFC 304. Sá viðburður var einnig haldinn á hálfgerðum heimavelli Edwards í Manchester en það hjálpaði honum lítið í þeim bardaga að minnsta kosti.
Það er komin mikil spenna í titilbaráttunni í veltivigtinni en hinn ósigraði Shavkat Rakhmanov tók núllið af Ian Garry í viðureign þeirra í desember og á tilkall í titilskot gegn Belal þegar hann snýr tilbaka eftir meiðsli en Belal fékk sýkingu í tá sem varð til þess að Shavkat gat ekki barist um titilinn og tók bardaga við Garry í staðinn.
Edwards er staðráðinn í komast aftur á toppinn og með góðum sigri gegn Maddalena gæti hann vel átt tilkall í titilskot gegn sigurvegaranum úr næstu titilviðureign. Sama gildir um Maddalena sem myndi senda mjög sterk skilaboð til Dana White og hinna bardagamannanna í þyngdarflokknum með sigri á Edwards.