Hnefaleikasamband Íslands velur árlega hnefaleikamann og hnefaleikakonu ársins en það verkefni er ekki öfundsvert hlutverk þar sem mikil gróska er í hnefaleikasenunni hér á Íslandi.
Veitt voru verðlaun fyrir hnefaleikamann ársins og hnefaleikakonu ársins eins og hefð hefur verið fyrir og var hnefaleikamaður ársins að þessu sinni Elmar Gauti Halldórsson en hann var einnig valinn í fyrra. Elmar Gauti átti flott ár hann barðist 13 sinnum á liðnu ári og sigraði átta af þeim viðureignum. Elmar Gauti barðist jafnt erlendis sem hérlendis og tók þátt í heimsmeistaramóti Dacal Cup sem haldið var á Spáni síðasta sumar þar sem hann vann til bronsverðlauna með sigri í fjórðungsúrslitum en um er að ræða mjög sterkt alþjóðlegt mót og því frábær árangur að komast á pall. Elmar keppti einnig á HSK Box cup í A-flokki þar sem hann vann til gullverðlauna og þá vann hann til silfurverðlauna á Harangey Box cup sem er eitt stærsta hnefaleikamót sem haldið er á Englandi. Elmar keppti í tvígang á stærsta hnefaleikakvöldi sem haldin eru hér á landi, Icebox og sigraði báðar viðureignir sínar með nokkrum yfirburðum og þá varði Elmar einnig Íslandsmeistaratitil sinn síðasta vor.
Í frétt Hnefaleikasambands Íslands um valið kemur fram að Elmar hafi farið í sex keppnisferðir og tvær æfingaferðir á árinu.
Hnefaleikasamband Íslands valdi þá Eriku Nótt Einarsdóttur hnefaleikakonu árins 2024 hér á landi en hún er einnig valin í annað sinn en þessi bráðefnilega hnefaleikakona var einnig valin árið 2022 en Erika er aðeins 18 ára gömul. Erika braut blað í Íslenskri hnefaleikasögu á árinu þar sem hún varð Norðurlandameistari í sínum flokki fyrst Íslendinga. Erika keppti alls sex bardaga á árinu þar sem hún sigraði þrjá. Erika var krýnd haustbikarmeistari og barðist tvo bardaga á Icebox þar sem hún sigraði annan þeirra.
Í frétt Hnefaleikasambands Íslands kemur fram að Erika ætli sér stóra hluti á komandi ári þar sem hún hefur skipulagt æfingar í þremur löndum á komandi mánuðum. Erika mun geta keppt í flokki fullorðina á þessu ári í fyrsta sinn og setur markið hátt enda hefur hún allt til brunns að bera til að ná á hæsta getustig í íþróttinni.
MMA-fréttir óska Elmari Gauta og Eriku Nótt innilega til hamingju með flottan árangur á árinu sem var að líða og verður spennandi að fylgjast með þessu flotta íþróttafólki á komandi ári.