Eric Nicksick, þjálfari Sean Strickland, kom fram í hlaðvarpinu The Ariel Helwani show þar sem hann og þeir ræddu bardaga Strickland við Domino Du Plessis um liðna helgi. Helwani byrjar viðtalið á því að þakka Nicksick fyrir komuna og segir að það sé ekki sjálfsagt að þjálfarar komi í viðtal svo stuttu eftir töp en Nicksick setur þá tóninn með því að segja að þjálfarar og aðrir þurfi að svara fyrir sig eftir töp.
Helwani spurði Nicksick hvað hafi gengið á og hvort hann hefði einhverjar skýringar á frammistöðu Strickland. Nicksick var ómyrkur í máli og sagði að hann væri óánægður með útkomu bardagans, bardagann sjálfan og frammistöðu Stricklands í honum. Nicksick fannst þá frammistaða síns manns vera flöt og slök og sagði að það hafi hreinlega verið eins og Strickland hefði ekki verið á staðnum andlega. Helwani spurði þá hvort hann hefði búist við slakri frammistöðu frá Strickland en Nicksick var alls ekki á því, hann sagði að andrúmsloftið í Ástralíu væri mjög gott, bardaginn væri spennandi bardagi sem Strickland væri heitur fyrir svo hann hafi búist við góðri frammistöðu.
Helwani spurði þá Nicksick út í sýkingu á hendi Strickland og viðurkenndi Nicksick að um Staph-sýkingu væri að ræða sem þó væri búið að meðhöndla og því hefði það ekki átt að hafa áhrif á frammistöðu hans í bardaganum og að Strickland hafi litið vel út í aðdraganda bardagans. Nicksick hélt gagnrýni sinni áfram og sagði að Strickland þyrfti nú að líta inn á við og skoða hver metnaður hans væri og bætti við að hann sjálfur hefði ekki áhuga á því að þjálfa bardagamenn nema þeir væru að stefna á að berjast um titla og við bestu bardagamennina.
Sagði Nicksick þá að ef Strickland ætlaði sér að berjast bara fyrir launaseðilinn þá hefði hann ekki áhuga á því að þjálfa hann áfram og sagði að endingu að Strickland þyrfti að skoða hver hvatinn hans væri til að berjast. Helwani spurði þá einnig um afstöðu Nicksick á ummælum Strickland í aðdraganda þessa og raunar annarra bardaga um að hann sé tilbúin að deyja og drepa í búrinu og þeirri gagnrýni sem þau ummæla hafa fengið í ljósi frammistöðu hans. Nicksick gaf í skyn að mögulega væru aðstæður í lífi Strickland búnar að breytast og að hann sem persóna væri mögulega búin að koma sér þæginlega fyrir með bankainnistæðu og konu sem gæti hafa haft áhrif á hversu mikið hann í raun er tilbúin til að leggja í sölurnar.
Það er nokkuð ljóst að þeir sem eru í teymi Strickland vilja fá að sjá hvert hann stefnir áður en þeir skuldbinda sig við þjálfun hans til framtíðar. Það gætu því orðið kaflaskil í ferli Strickland ef Nicksick telur hann vera farinn að horfa meira á launin heldur en að landa titli.