Þorleifur Feykir átti frábæra frammistöðu á fyrsta degi Norðurlandamótsins. Hann barðist úrslitabardagann gegn Arlex Blomqvist frá Finnlandi en sá reyndist aðeins of stór biti fyrir Feyki sem er að stíga sín fyrstu skref í áhugamennskunni. Finninn er með skráða 4 bardaga á Tapology og er töluvert reynslumeiri.
Feykir átti skilið gælunafn eftir fyrsta bardagann sinn og var við hæfi að kalla hann „Gullfótinn“. Spörkin hans eru kraftmikil og er greinilegt að honum líður vel með fæturna. Hann opnaði bardagann gegn Blomqvist með lágu sparki í lærið en Finninn lét það ekki á sig fá og byrjaði að spila sinn leik gegn Feyki. Eftir eina mínútu tókst Blomqvist að læsa saman höndum undir Feyki og taka hann í gólfið frekar auðveldlega. Feykir hafði áður verið duglegur að verjast fellutilraunum á mótinu en andstæðingurinn í úrslitunum var töluvert betri en sá fyrri í clinchi upp við búrið. Bardaginn fór stutta stund í gólfið en Feykir gerði vel í að standa upp. Blomqvist gaf okkar manni engan tíma til að anda eða láta sér líða vel og hélt pressunni áfram og lét þung högg dynja yfir Feyki áður en lotan kláraðist.
Í annarri lotu var það Blomqvist sem byrjaði á low kick sem Feykir lét ekki mikið á sig fá. Finninn pressaði Feyki upp við búrið sem reyndi sitt eigið spark en fjarlægðin var ekki alveg rétt og endaði Feykir í slæmri stöðu upp við búrið og svo í gólfinu stuttu seinna. Blomqvist sætti sig við stöðu í half guard topp og vann á Feyki þaðan. Blomqvist hélt topp stöðu allan tímann og gerði vel að halda stöðunni og bregðast við varnartilburðum Feykis. Mjög örugg lota til Finnans.
Þriðja lotan var líklega sú besta hjá Feyki. Í þetta skipti þurfti engin spörk til að hefja bardagann en kapparnir mættust í íþróttamannslegu faðmlagi í miðjum hringum í staðinn. Feykir fékk skilaboð frá horninu sínu að leyfa Blomqvist ekki að stjórna búrinu og gekk vel þegar Feykir var nær miðjunni. Finnanum tókst þó að taka Feyki niður og þurfti okkar maður að draga sig að búrinu til að standa upp aftur. Blomqvist var mjög ákafur en á lokamínútu bardagans tókst Feyki að snúa vörn í sókn og átti sínar bestu stundir í lokin.
Feykir hefur þótt mjög spennandi bardagamaður og biðu aðdáendur spenntir eftir að sjá hann spreyta sig í búrinu. Hann er klárlega mikill íþróttamaður og tekur reynsluna eftir vel heppnað mót í Svíþjóð.





