Ólympíuleikarnir í Ríó standa nú yfir þessa dagana. Á leikunum er keppt í glímu og fengum við einn mesta glímuáhugamann landsins til að fara aðeins yfir það sem framundan er.
Einar Árni Friðgeirsson er búsettur á Akureyri og hefur lengi fylgst með Freestyle og grísk-rómverskri glímu. Í þessari grein skoðar hann stærstu nöfnin í Freestyle kvenna og Grísk-Rómversku glímuna. Síðar í vikunni mun hann fjalla um Freestyle karla. Gefum honum orðið.
Einar Árni Friðgeirsson skrifar:
Á morgun hefst keppni í glímu á Ólympíuleikunum í Ríó de Janeiro. Keppnin verður að mestu leyti með svipuðu sniði og undanfarin ár fyrir utan fjölgun á þyngdarflokkum í Freestyle kvenna úr fjórum í sex. Þessi breyting er í takt við þann mikla vöxt þeirrar greinar á heimsvísu.
Keppni í Grísk-Rómverskri glímu stendur yfir þann 14. til 16. ágúst þar sem karlarnir byrja. Freestyle kvenna fer fram 17. og 18. ágúst og Freestyle karla 19. til 21. ágúst. Umfjöllunin hér að neðan er alls ekki tæmandi og dekkar ekki alla þyndarflokka heldur einungis yfirlit yfir það sem undirritaður telur það athyglisverðasta á leikunum.
Icho og Yoshida í sögubækurnar?
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan konur glímdu fyrst á Ólympíuleikunum fyrir einungis tólf árum síðan. Þá hafði þátttaka kvenna í sportinu enn ekki verið fyllilega meðtekin í mörgum af sterkustu glímulöndum heims og er það ástand enn að vissu leyti við lýði. Íran t.d., sem er gríðarlega sterk glímuþjóð, sendir enn enga kvenkyns keppendur á alþjóðleg mót. Það hefur gefið löndum sem eru kannski ekki talin með þeim allra sterkustu í sportinu að marka sér sess í þessari nýju keppnisgrein.
Það hefur gengið eftir þar sem sigursælustu þjóðirnar í kvennaglímunni hafa hingað til verið Japan, Kanada, Kína og Bandaríkin frekar en hin hefðbundnu glímustórveldi á borð við Rússland, Íran, Tyrkland, Aserbaídsjan og Georgía. Japan hefur vegnað sérstaklega vel og skrifast sá góði árangur fyrst og fremst á hreint út sagt frábærar frammistöður tveggja kvenna sem fyrir löngu eru orðnar að stórstjörnum í sínu heimalandi – Kaori Icho (32 ára) og Saori Yoshida (33 ára).
Báðar hafa verið virkar í sportinu síðan þær voru unglingar seint á 10. áratugnum og tekið gull á öllum Ólympíuleikum sem konur hafa tekið þátt hingað til. Báðar eru þær mættar til Ríó og eru enn á besta aldri og í fantaformi. Flestir reikna með því að allavegana önnur þeirra muni hampa gullinu í fjórða skiptið og verða þar með fyrsti glímukeppandinn í sögu leikanna til að gera það.
Sá sem hefur komist næst því að afreka það er hinn goðsagnakenndi Greco-Roman kappi Alexander Karelin. Karelin var grátlega nálægt því árið 2000 þegar hann tapaði sinni fjórðu úrslitaglímu með eins stiga mun og varð að sætta sig við að enda ferilinn með „bara“ þrjú gull og fjögur silfur.
Með sigri myndu þær einnig verða fjórða og fimmta manneskjan í sögu leikanna til að vinna gull í einstaklingsíþrótt á fjórum leikum í röð. Þar með myndu þær slást í hóp með með danska siglingakappanum Paul Elvstrom (1948-60), bandaríska kringlukastaranum Al Oerter (1956-68) og þeim sem er sennilega lang þekktastur af þeim þremur, bandarísku frjálsíþróttastjörnunni Carl Lewis, sem vann langstökkið 1984-1996.
Það er því ekki skrítið að kastljósið sé kyrfilega á þeim Icho og Yoshida. Sérstaklega þar sem fátt bendir til að þær séu farnar að dala sem glímumenn og gætu hæglega orðið fulltrúar Japan á heimavelli í Tokyo 2020 ef þær ná að forðast meiðsli.
Þó eru verðugir andstæðingar í boði sem munu gera allt sem þær geta til að halda tvíeykinu japanska fyrir utan sögubækurnar (í bili allavega). Hin sænska Sofia Mattson, sem hefur ítrekað þurft að sætta sig við silfurverðlaun, og Helen Marouslis, bandaríski heimsmeistarinn úr -55 kg þyngdarflokknum (sem ekki er keppt í á Ólympíuleikunum) eru helstu áskorendur Yoshida í -58 kg. flokknum.
Icho, sem keppir í -53 kg flokki þarf m.a að kljást við hina rússnesku Valeriu Koblovu – silfurverðlaunahafa frá síðasta HM. Það má einnig reikna með að hin kornunga Purevdorj Orkhon frá Mongólíu, sem keppir nú á sínum fyrstu Ólympíuleikum, muni koma sterk inn eftir að náð því sjaldgæfa afreki að hafa lagt Icho að velli á Yargin Grand Prix mótinu fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það er því á brattan að sækja en flestir glímuspekúlantar spá þó japanska tvíeykinu gullverðlaunum.
Hér að neðan má sjá stutta heimildarmynd um þær Icho og Yoshida:
Þrátt fyrir að mesta athyglin verði náttúrulega á -53 og -58 kg þyngdarflokkunum verður nóg um að vera í hinum fjórum kvennaflokkunum. Það verður sérstaklega gaman að fylgjast með hinum galopna -63 kg flokki þar sem Sorenzonbold Battsetseg frá Mongólíu, Elena Pirozhkova frá Bandaríkjunum, Yulia Tkach frá Úkraínu og Risako Kawai frá Japan eiga allar góðan séns á að fara alla leið. Dagsformið mun sennilegast ráða úrslitum hér.
Í -75 kg flokki er bandaríska stjarnan Adeline Gray talin sigurstranglegust en Zhang Fengliu frá Kína gæti hæglega velt henni úr sessi. Í -48 kg flokknum gæti Japan hæglega klófest sitt þriðja eða jafnvel fjórða gull í kvennaglímunni á þessum leikum þar sem Eri Tosaka er sjóðheit þessa dagana.
Ég hvet alla lesendur MMA Frétta til að fylgjast grannt með kvennaglímunni. Þar er á ferðinni vaxandi sport og ekki kæmi það mér á óvart þó að einhverjir af keppendum á þessum Ólympíuleikum muni láta til sín taka í MMA þegar fram líða stundir.
Stór spurningamerki umkringja Soryan (Greco-Roman)
Grísk-Rómverski stíllinn er kannski ekki jafn vinsæll og Freestyle sem er oft á tíðum dýnamískari og hraðari íþrótt. En þeir sem til þekkja eru sammála um að fáar eða engar fangbragðaíþróttir séu jafn krefjandi, bæði andlega og líkamlega. Þar sem ekki má snerta fætur andstæðingsins né nota sína eigin fætur til að fella hann reynir gríðarlega mikið á kraft, snerpu og síðast en ekki síst þol keppenda. Oft á tíðum eru Grísk-Rómversku glímurnar líka umtalsvert harkalegri en tíðkast í öðrum stílum. Menn brúka engin vettlingatök og ekki óalgengt að menn þurfi að þola umtalsvert hnjask af hendi andstæðings síns, viljandi eða óviljandi. Það getur verið freistandi að t.d leiða með höfðinu (og eiga þá í hættu að skalla andstæðinginn alveg óvart) eða „klappa“ andstæðingnum hressilega með framhandleggnum þegar menn leitast við að ná yfirburðatökum.
Þetta kemur þó mönnum stundum í koll eins og Hamid Soryan fékk svo eftirminnilega að kynnast á HM í Las Vegas á síðasta ári. Þar var þessi gríðarlega sigursæli íranski glímumaður á höttunum eftir sínum 8. titli á alþjóðlegu stórmóti í -59 kg. flokki og gekk vel til að byrja með.
Hann valtaði yfir fyrstu tvo andstæðinga sína eins og búist var við en í fjórðungsúrslitinum fór allt í köku gegn Rovsan Bayramov frá Aserbaídsjan. Soryan virtist annað hvort ekki geta, eða vilja, fara eftir leiðbeiningum dómarans sem varaði hann ítrekað við því að hann yrði dæmdur úr leik ef hann hætti ekki að skalla Baymarov.
Eftir að bæði vallardómarinn og aðaldómararnir höfðu lesið yfir hausamótunum á honum var hann á endanum dæmdur úr leik. Hann fékk þó að taka þátt í uppreisnarglímunum þar sem Baymarov komst alla leið í úrslit. Þar mætti Soryan Norður-Kóreu manninum Yun Won-chol og skallaði hann líka. Hann skallaði hann svo harkalega að Yun lá lengi vel hreyfingarlaus á mottunni, ófær um að standa upp. Þó hélt hann áfram fyrir rest og marði frækilegan sigur á Soryan með einu fallegasta „pólska kasti“ sem ég hef séð.
Þessi mjög svo svekkjandi endir á HM var þó einungis upphafið á níu mánaða niðurlægjandi eyðimerkurgöngu Soryan á leið sinni á ólympíuleikana. Þar sem hann hafði ekki náð nægilega góðum árangri á HM til að tryggja sér þáttökurétt þurfti hann að skella sér í harkið á úrtökumótaröðunum sem notuð eru til að útdeila þeim Ólympíusætum sem út af standa eftir HM og Evrópu, Asíu og Afríkumótin.
Þar virkaði hann engan veginn sannfærandi og mistókst í tvígang að komast á pall. Soryan tryggði sér ekki miða til Rio fyrr en á allra síðasta mótinu sem var í boði. Þar var samkeppnin ekki eins mikil þar sem þeir bestu höfðu flestir tryggt sig inn á leikana. Í gegnum allt þetta ferli virkaði Soryan ekki nema skugginn af sjálfum sér. Óöruggur, hikandi og alls ekki sá sexfaldi heimsmeistari og Ólympíumeistari sem hann er.
Því er það ekki skrítið að menn viti ekki alveg hverju er hægt að búast við af honum í Ríó. Á pappír er hann meira en fær um að valta yfir keppinautana og koma sér upp í 2. sætið yfir sigursælustu Greco-Roman keppendum allra tíma (á eftir Alexander Karelin). Hann er enn á besta aldri, einungis 31 árs gamall, glímir ekki við nein alvarleg meiðsli og er í fantaformi líkamlega. Það er andlegi parturinn sem er vandamálið og það gerir þennan þyngdarflokk óvenju spennandi.
Ekki skemmir fyrir að aðrar persónur og leikendur frá Las Vegas dramanu eru líka í Ríó. Baymarov og Yun Won-chol eru báðir mættir til leiks og eru fullfærir um að klófesta gull. Stærsta hindrunin fyrir Soryan verður þó líklega Kúbumaðurinn Ismael Borrero Molina sem vann síðasta HM. Einnig er japaninn Shinobu Ota, sem hefur verið uppnefndur „the Ninja Wrestler“ sökum óhefðbundins stíls síns til alls líklegur eftir að hann sló Soryan út í fyrstu umferð eins úrtökumótanna.
Lopez stefnir á sitt þriðja gull
Einn Greco-Roman glímumaður stendur jafnfætis Sorayan hvað heildarafrek á ferlinum varðar og ef menn meta Ólympíutitla framar heimsmeistaratitlum þá stendur hann skör ofar. Kúbumaðurinn Mijain Lopez-Nunez tók gull í -130 kg flokki bæði 2012 og 2008. Nú er hann mættur til Rio, 34 ára gamall og sennilega á sínum síðustu leikum. Þar standa í vegi fyrir honum nokkrir sterkir keppinautar eins og Tyrkinn Riza Kayaalp, sem vann Lopez í afar viðburðalítilli úrslitaglímu á síðasta HM, Úkraínumaðurinn Alexander Chernetski og hinn sænski Johan Magnus Euren.
Allir eiga þeir góðan séns á gulli og sérstaklega í ljósi þess að þrátt fyrir sinn glæsilega feril hefur Lopez lengi haft það orð á sér að dala þegar nær dregur úrslitunum. Úthaldið hans er ekki það besta og dregur af honum þegar glímurnar dragast á langinn. Þetta er eitthvað sem yfirleitt eldist ekki af mönnum og tel ég því meiri líkur en minni á að Lopez fatist flugið í Ríó og sennilegast á Kayaalp eftir að hampa gullinu.
Get hype! Stäbler og Chunaev í sama þyngdarflokki!
Tveir glímumenn heilluðu áhorfendur umfram flesta aðra á síðasta HM fyrir einstaklega falleg tilþrif og fágaða glímustíla. Þjóðverjinn Frank Stäbler í -66 kg flokknum og Rasul Chunayev frá Azerbaijan í -71 kg flokki. Chunayev er einnig sá glímumaður sem almenningur á Vesturlöndum er líklegastur til að hafa borið augum þó svo að þeir viti kannski ekki endilega af því. Myndskeið af mjög svo skemmtilegum fagnaðardans hans eftir sigur á rússanum Islam-Beka Albiev árið 2013 fór sem eldur um sinu á netinu.
https://www.youtube.com/watch?v=mOa5g5JanhM
Í Las Vegas voru Chunayev og Stäbler í sérflokki hvað varðar yfirburði umfram keppinauta sína. En þar sem ekki er keppt í öllum alþjóðlega viðurkenndum þyngdarflokkum á Ólympíuleikum er Chunaev nú búinn að skafa af sér fimm auka kíló og er mættur í -66. Ég hoppaði hæð mína af kátínu þegar ég áttaði mig á því að tveir af mínum uppáhalds Greco-Roman köppum gætu mögulega tekist á.
Þó er það alls ekki víst. Albiev, sem Chunaev lagði svo eftirminnilega um árið, hefur verið gríðarlega sterkur undanfarin misseri og Ryu Han-Soo frá Kóreu, ungverjinn Tamaz Lorincz og Davor Stefanek frá Serbíu eru mjög svo færir um að eyðileggja draum minn um Stäbler/Chunaev úrslitaglímu.
Stutt heimildarmynd um Frank Stäbler: