spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGreg Hardy berst í kvöld: „Allir eiga skilið annað tækifæri“

Greg Hardy berst í kvöld: „Allir eiga skilið annað tækifæri“

Hinn umdeildi Greg Hardy berst í kvöld í áskorendaseríu Dana White. Greg Hardy var rekinn úr NFL deildinni á sínum tíma eftir að fyrrverandi kærasta hans kærði hann fyrir heimilisofbeldi.

Tröllið Greg Hardy spilaði í NFL deildinni með Carolina Panthers. Hardy var handtekinn fyrir að ganga í skrokk á þáverandi kærustu sinni og dæmdur sekur í júlí 2014. Hardy áfrýjaði málinu og var málið fellt niður eftir að kærasta hans neitaði að bera vitni í réttarsal. Samningi Hardy við Carolina Panthers var rift en hann fékk síðar samning við Dallas Cowboys. Hardy fékk 10 leikja bann frá NFL deildinni eftir að rannsókn þeirra leiddi í ljós að Hardy hefði brotið gegn hegðunarreglum deildarinnar með því að ganga í skrokk á unnustu sinni að minnsta kosti fjórum sinnum. Bannið var síðar stytt í 4 leiki.

Deadspin birti svo myndir af slæmum áverkum kærustunnar og hefur Hardy síðan þá ekki fengið samning við annað lið í NFL.

Þrátt fyrir að vera afar umdeildur maður í Bandaríkjunum hefur UFC ákveðið að gefa honum tækifæri. Hardy mun mæta Austin Lane (sem var sjálfur í NFL áður) í Dana White’s Tuesday Contender Series í kvöld. Þar berjast upprennandi bardagamenn um að fá samning hjá UFC en í kvöld eru fimm bardagar á dagskrá. Þeir sem þykja skara mest fram úr að mati Dana White fá samning hjá UFC.

Þessi 196 cm íþróttamaður berst í þungavigtinni en hann er bara 3-0 sem áhugamaður. Á sama tíma er andstæðingur hans 4-0 sem atvinnumaður.

Dana White, forseti UFC, sagði um síðustu helgi að allir ættu skilið að fá annað tækifæri. „Hann fór í gegnum allt, í gegnum allt lagalega ferlið og fór aftur í fótboltann. Hann átti við slæm fíkniefna vandamál að stríða, fór í MMA og kom sér á beinu brautina,“ sagði White en í september 2016 var Hardy einnig ákærður fyrir vörslu fíkniefna.

„Ef þú ræðir við þá sem æfa með honum, karla eða konur, segja allir að hann sé góður maður, að hann sé mjög hógvær. Allir eiga skilið annað tækifæri.“

Hardy veit sjálfur að ekki munu allir gefa honum tækifæri. Hann vonast samt til að sýna heiminum að hann sé ekki slæmur maður. „Það væri góð byrjun fyrir fólk að kynnast mér. Talið við mig, gefið mér sama tækifæri og aðrir fá,“ sagði Hardy við fjölmiðla í gær.

Hardy segist ætla að verða meistari í UFC og getur tekið stórt skref að því markmiði með sannfærandi sigri í kvöld. Hann segist ekki hafa áhuga á frægð og stjörnulíferni heldur aðeins að sanna að hann eigi heima í UFC. „Ég er hér til að vinna mig upp og hafa fyrir þessu. Ég er ekki að reyna að komast inn bakdyrameginn eins og CM Punk af því ég er Greg Hardy.“

Ákvörðun UFC um að setja hann í áskorendaseríu Dana White er umdeild og yrði enn umdeildara ef hann endar á að fá samning hjá UFC. UFC hefur margoft haldið því fram að bardagasamtökin láti heimilisofbeldi ekki viðgangast hjá sínum bardagamönnum. Til að mynda var Will Chope látinn fara eftir einn bardaga í UFC þar sem hann hafði áður setið af sér dóm eftir heimilisofbeldi. UFC vissi ekki af dómnum þegar hann fékk samning en um leið og bardagasamtökin vissu af dómnum var samningi hans rift. „Það er aðeins eitt sem þú getur aldrei lagað og það er ef þú leggur hendur á konur,“ sagði Dana White árið 2014 þegar Will Chope var rekinn.

Mörg augu eiga eftir að beinast að bardaganum í kvöld og eflaust margir sem óska þess að Hardy tapi illa. Bardagarnir fimm hefjast á miðnætti í kvöld á Fight Pass rás UFC.

Heimildir:

ESPN
NFL.com

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular