Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar stóð fyrir stórskemmtilegu móti um helgina 21 – 22. mars. Þetta var í fyrsta skipti sem HFH heldur mótið en stefnt er að því að halda viðburðinn árlega, stækka dagskrána og fá erlenda keppendur í keppnina. Laugardagurinn var aðalkeppnisdagur mótsins en þar fóru fram 11 viðureignir á öllum getustigum.
Iceland Boxing var á staðnum og tók upp bardagana fyrir áhugasama hnefaleikaaðdáendur. Sjá á Youtube.
Yahya Ghazali frá HFK sigraði Gabríel Alexandru frá HFH í 85kg flokki U17
Þetta var erfiður bardagi fyrir báða og þreytan sagði mikið til sín í seinni tveimur lotunum. Bardaginn gekk mikið fram og til baka þrátt fyrir að dómarari hafi að lokum dæmt einróma ákvörðun. Yahya í bláa horninu tókst að klára sterkar í seinustu lotunni.
Viktor Víkingur frá HFK sigraði Tomas Barsciavicus frá HFH í 66kg flokki U17
Viktor Víkingur sá um pressuna alla fyrstu lotuna og gekk Tómasi illa að svara fyrir sig en það breyttist í annarri lotu. þrátt fyrir það hætti Viktor ekki á bensíngjöfinni og pressaði áfram. Við fengum svo að sjá meira af því sama í þriðju lotunni, Viktor byrjaði aðeins að þreytast en Tómasi tókst ekki að nýta sér það. Að lokum var dæmd einróma ákvörðun í rautt horn.
Volodomyr Moskvychov frá HAK sigraði Alan Alex frá HFK í 60kg flokki U17
Þessi bardagi var mjög jafn frá fyrstu sekúndu. Volodomyr í rauða horninu virtist lenda fleiri hreinum höggum í fyrstu lotunni, en Alan stóð vel í honum allan tímann og var mikið á gjöfinni. Alan virtist ferskari í annarri lotu en hún var mjög jöfn og var mikið verið að skiptast á góðum og tæknilegum höggum. Alan hélt pressunni áfram í þriðju lotu en Volodomyr tókst að countera vel. Á endanum var það einróma dómaraákvörðun í rauða hornið.
Frosti Sólon frá GFR sigraði Sindra Thor frá HFH í 65kg flokki U19
Fyrsta lotan var róleg. Frosti stjórnaði hringnum en Sindri Thor virtist finna fjarlægðina betur ásamt því að lenda fleiri hreinum höggum. Frosti pressaði meira í annarri, en þá byrjaði Sindri að dansa í kringum miðjuna og beita öflugum stungum. Þeir áttu nokkur jöfn og góð skipti þegar Frosti króaði af hringinn og þeir lentu saman. Frosti byrjar svo þriðju lotu af kappi og tókst að fá talningu yfir Sindra. Frosti var svo áfram með mun meira output, hreinni högg og stanslausa pressu. Niðurstaðan var einróma dómaraákvörðun í rautt horn.
Adrian Pawlikowski frá HFH sigraði Braga Freyr frá ÞÓR í 80kg flokki U17
Adrian frá HFH tók yfir miðjuna, stjórnaði hasarnum alla fyrstu lotuna og lenti fleiri höggum. Adrian hélt svo áfram að pressa í annarri lotu en Bragi Freyr gerði vel að forðast þungu höggin en þrátt fyrir það var það Adrian sem dómineraði bardagann. Bardaginn hélt svo áfram gefnum hætti í þriðju lotu þó að Adrian hafi lækkað tíðni hagganna þá hélt hann stjórninni vel. Einróma dómaraákvörðun í rauða hornið.
Viktor Örn frá HFK sigraði David Ísak frá HFH í 80kg flokki U19 – Besti Bardaginn
Viktor byrjaði pressuna snemma. Davíð Ísak var virkur á aftari fætinum og náði að countera vel. Viktor í rauða horninu lenti fleiri og þyngri höggum. Stutt pása var gerð til að þurrka blóðið af Davíð. Þeir eiga öflug og jöfn skipti undir lok lotunnar. Strax í annarri lotu er talið yfir Davíð Ísak eftir að Viktor lenti þungum og hreinum höggum. Þeir skiptast svo á flottum fléttum strax í kjölfarið. Það er svo gerð önnur pása til að þurrka blóðið á Davíð og læknir skoðar hann. Viktor hjólar strax í hann eftir pásuna og þá byrjar flugeldasýning! Davíð fær aðra talningu á sig undir lok lotunnar. Þriðja lotan byrjar rosalega! Viktor sér um að pressa og Davíð gerir sitt besta að svara fyrir sig með þungum höggum. Pressan og vinnusemin hjá Viktori er hreinlega of mikil og dómarinn stöðvar bardagann í þriðju lotu.
Artem Siurkov frá BOGATYR sigraði Arnar Jaka frá HFK í 63.5kg flokki U17 – Artem var valinn boxari mótsins.
Arnar Jaki byrjaði bardagann með pressuna að vopni eins og honum einum er lagið en Artem var með betri fléttur og hreinni counter-högg í fyrstu lotu. Við fengum svo að sjá meira af því sama í annarri lotu – Arnar reynir að stjórna miðjunni og pressa en Artem er alltaf með yfirhöndina þegar þeir koma saman. Þriðja lota hljómar eins. Arnar Jaki pressar en stepback 1-2 hjá bláa hittir beint í mark í hvert skipti. Flétturnar og counterinn hjá Artem voru í aðalhlutverki í þessum bardaga. Einróma ákvörðun í blátt horn.
Sölvi Steinn frá HFK sigraði Mihail Fedorets frá BOGATYR í 70kg flokki U19
Sölvi Steinn sér um pressu snemma, en þeir byrja að þreifa fyrir sér eftir það. Sölvi virðist lenda fleiri höggum í lotunni en hún er annars mjög jöfn. Sölvi tekur miðjuna í annarri lotu en Mihail úr rauða horninu gerir vel að lenda counters og hreinum höggum í ytri hring. Mihail var mjög léttur á fæti í annarri og lendir meira. Mihail hélt áfram að dansa í þriðju lotu og lenti fleiri höggum en dómarinn neyddist til að taka stig af Mihail fyrir að setja ennið í átt að gólfinu of oft. Mihail var þó með yfirhöndina í þriðju lotu, stjórnaði hasarnum og lenti hreinni höggum. Að lokum fór bardaginn til Sölva í bláa horninu.
Björgvin Snær frá ÆSIR sigraði Dorian James frá HFK í 75kg flokki ELITE
Þetta var fyrsti elite bardagi dagsins. Björgvin byrjaði sterkt með flottri fléttu snemma í bardaganum en hún endaði að mestu í vörninni hans Dorian í rauða horninu. Björgvin hélt pressunni áfram og lenti hann þyngri og hreinni höggum út bardagann. Dorian virtist aldrei taka skref til baka og labbaði af sér mjög þung yfir þrjár lotur. Það virtist ætla að hægja á Björgvini en þolið sveik hann ekki og tókst honum að sigra bardagann á einróma ákvörðun dómara.
Demario Elijah frá HFK sigraði Bendikt Gylfa frá HFH í 80kg flokki ELITE
Demario byrjaði bardagann á því að pressa snemma en Benedikt Gylfi í rauða horninu var mjög hreyfanlegur gegn pressunni og kom sér vel frá. Jöfn lota – Demario hélt pressunni út lotuna og náði að cutta á hringinn og lenda höggum af og til. Önnur lotan er meira af því sama – Demario hélt áfram að pressa, lenti nokkrum höggum vel en Benedikt stendur vel í honum og lendir sjálfur góðum höggum og endar lotuna sterkur. Mjög jöfn 2 lota. Bardaginn fer svo fram og tilbaka í þriðju lotu, Demario virðist varla taka skref afturábak og báðir lenda mjög góðum höggum. Þeir lentu nokkrum sinnum í clinchi og vinna báðir vel þar. Mjög jöfn lota. Dómararnir eru ekki sammála og niðurstaðan er klofin í blátt horn.
Elmar Freyr frá ÞÓR sigraði Armandas Sangavicius frá HFK í 90kg flokki ELITE
Viðureignin byrjaði afar rólega. Elmar í rauða horninu lendir nokkrum þungum stökum höggum snemma en svo verða ágætlega jöfn skipti á milli þeirra eftir það. Fyrsta lotan var jöfn í heildina en þó virtist Elmar hafa gert aðeins betur. Þeir byrja svo aðra lotu á því að skiptast á þungum krókum. Dómarinn tók stig af Elmari fyrir að setja ennið í gólfið. Lotan var mjög jöfn í restina af en Elmar virtist hafa fengið skurð á höfuðið og blóðnasir. Þungu höggin héldu svo áfram í þriðju lotu hjá báðum aðilum. Elmar sló Armandas niður og var talið yfir honum. Armandas var þá einnig kominn með blóðnasir. Elmar fann lyktina af blóði og fékk talningu yfir Armandas í lok seinustu lotunnar eftir að hafa lent þungum, ósvöruðum höggum, ósvöruðum höggum. Niðurstaðan var klofinn dómaraúrskurður til Elmars.