Hildur Kristín Loftsdóttir var slegin út í undanúrslitum í gær á Golden Girl þegar hún mætti mun reyndari andstæðingi með 120 bardaga undir beltinu, 100 fleiri en Hildur. Hún tapaði á stigum en andstæðingur hennar gat ekki keppt í úrslitum vegna áverka sem Hildur olli henni.
Hildur átti örlítið erfiða byrjun, að sögn þjálfara hennar Arnórs Grímssonar, en það tók hana ekki langan tíma að finna tilfinninguna fyrir bardaganum. “Hún hefði alveg getið unnið þessa stelpu með smá lagfæringum” sagði Arnór. Hildur var engan vegin að mæta neinum ofjarli sínum þarna þó hún væri að keppa í A Class Elite gegn töluvert reyndari andstæðingum en Hildur sigraði andstæðing með yfir 90 bardaga í 8 manna úrslitunum deginum áður.
Í undanúrslitabardaganum í gær var hún að smellhitta andstæðing sinn, Mariu, með yfirhandarhægri og fléttum en átti oft erfitt með að sleppa undan eftir sóknirnar sínar sem kostaði hana stigin. Hildur hefur líklega komið Mariu á óvart með hversu góð hún var þrátt fyrir mikinn mun á reynslu. Þær ræddu saman eftir bardagann og Maria og þjálfarinn hennar voru mjög hissa að Hildur væri einunigs búin með 20 bardaga. Maria sagði að Hildur væri fyrsti andstæðingurinn, af öllum þeim 120 sem hún hefur mætt, til þess að gefa henni glóðurauga. Maria gat ekki keppt í úrslitunum í dag vegna þess en augað hennar bólgnaði svo að það lokaðist alveg eftir bardagann. Hún stóðst því ekki læknisskoðun og þurfti að sætta sig við silfur.






