spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeBoxIcebox í dag! (föstudag)

Icebox í dag! (föstudag)

Það er komið að því, stundin er runnin upp! Viðburðurinn sem allir íslenskir áhugamenn um hnefaleika hafa beðið eftir með mikilli eftirvæntingu í fleiri mánuði verður haldinn í dag (föstudag) í Kaplakrika.

Icebox verður stærra og betra en nokkru sinni fyrr í þetta skiptið. Hingað til hefur aðeins hálfur salurinn verið nýttur en nú verður öllu tjaldað til og stækkað um helming. Það verða 5 international bardagar á dagskrá á aðal kortinu þar sem landsliðsmenn okkar mæta landsliðsmönnum frá Noregi og má búast við erfiðum og krefjandi bardögum fyrir okkar fremsta hnefaleikafólk. Þeir boxarar sem eru á leið í landsliðsverkefni á þessu Iceboxi eru: Elmar Gauti, Erika Nótt og Nóel Freyr frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur, Viktor Zoega frá Bogatýr og Benedikt Gylfi frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar.

Landsliðið eru nýkomin heim úr æfingaferð til Írlands í gamla hnefaleika gym Conors McGregors og fengu þar góð spörr við sterka æfingafélaga til að undirbúa sig fyrir komandi átök. Flest af þeim eru einnig tiltölulega nýkomin heim frá Norðurlandameistaramótinu þar sem Erika Nótt tók gullið og varð fyrsti íslendingurinn í sögunni til að ná þeim árangri. Nóel Freyr nældi sér einnig í silfur á því móti og Benedikt Gylfi brons. Viktor Zoega er sá eini af landsliðshópnum sem fór ekki á Norðurlandameistaramótið en Hafþór Magnússon keppti þar í hans flokki. Þeir tveir hafa keppt tvisvar nýlega í æsispennandi bardögum í bæði skipti, síðast á Íslandsmeistaramótinu í apríl þar sem Viktor Zoega sigraði með tæknilegu rothöggi og varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti. Elmar, Nóel og Benedikt nældu sér einnig í Íslandsmeistaratitil á því móti.

Erika Nótt Einarsdóttir, fyrsti Íslendingur í sögunni til að vinna gull á Norðurlandameistaramótinu

En það er margt annað mjög spennandi á dagskrá á Icebox í ár auk landsliðsins. Gabríel Marínó frá Bogatýr og Kristófer Deyemo frá Mjölni sem mættust í einum besta bardaga á síðasta Icebox móti mætast núna aftur og eru eflaust flestir sem náðu fyrri viðureign þeirra að prjóna yfir sig af spennu fyrir þessari. Gabríel er grjótharður og höggþungur southpaw boxari sem slær mikið og heldur stöðugri pressu á andstæðingum sínum og Kristófer er með afar skemmtilegan og tæknilegan stíl en hann hefur einnig æft MMA og sjást þau áhrif greinilega í hans leik.

Í u17 ára flokki mætast tveir mjög spennandi strákar, Mihail Fedorets frá Bogatýr og Sölvi Steinn Hafþórsson frá Hnefaleikafélagi Kópavogs (VBC). Þessir tveir mættust á Íslandsmeistaramótinu í apríl þar sem Mihail sigraði og varð Íslandsmeistari eftir mjög skemmtilegan og tæknilegan bardaga. Sölvi Steinn byrjaði betur og leiddi dansinn framan af en Mihail kom sterkur tilbaka og tók yfir þegar líða fór á og verður fróðlegt að sjá hvernig þessi bardagi mun spilast út. Þeir tveir hafa einnig æft og sparrað talsvert saman enda mikill vinskapur milli klúbbana þeirra tveggja sem sameina oft sparr æfingar sínar og þekkja þeir tveir þess vegna hvorn annan mjög vel.

Aðrir bardagar á dagskrá eru ekkert minna spennandi og hvetjum við áhorfendur til að mæta snemma og missa ekki af neinu. Eins og hefur tíðkast verða líklega tónlistaratriði í boði og líklegt verður að teljast að mótshaldarinn og þjálfari bæði Hnefaleikafélags Reykjavíkur og landsliðsins, Davíð Rúnar Bjarnason, sé með nokkra ása upp í erminni.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular