Jólasveinarnir 13 eru á leið til byggða. Þar sem þessi þjóðsaga er þjóðþekkt er tilvalið að rifja upp 13 skemmtilegar þjóðsögur úr bardagaheiminum.
Einhverjar af þessum sögum hafa verið staðfestar en aðrar eru einfaldlega skemmtilegar þjóðsögur sem ómögulegt er að vita hvort séu sannar eða ekki.
Rickson Gracie er einhver goðsagnakenndasti bardagakappi sögunnar. Hann er sonur Helio Gracie og var samkvæmt föður sínum besti glímumaður fjölskyldunnar. Bræður Rickson voru Rorion og Relson auk þess sem Royce Gracie var hálfbróðir hans. Rickson fékk gælunafnið „The Bear“ frá föður sínum Helio sem sagði það að glíma við hann væri eins og að glíma við björn.
Snemma á 9. áratugnum barðist hann í neðanjarðar „No Holds Barred“ keppnum í Brasilíu, Vale Tudo, en slíkar keppnir voru ekki ósvipaðar fyrstu UFC keppnunum þar sem afar fáar reglur voru til staðar. Rickson heldur því fram að hann hafi sigrað 400 bardaga í MMA, Vale Tudo keppnum (bæði á götunni og í heimsóknum í önnur bardagafélög), BJJ, Júdó og Sambó og að hann hafi aldrei tapað bardaga í lífi sínu. Ef þetta reynist rétt mætti með sanni segja að hann væri besti bardagakappi allra tíma.
Opinbera bardagaskorið hans á Sherdog er hins vegar aðeins 11-0 en það er allt í bardögum gegn tiltölulega óþekktum japönskum bardagamönnum sem hafa samanlagt bardagaskorið 18-17-2.
Margir hafa dregið þessa frásögn hans í efa, meðal annars faðir hans, Helio, sem segir óhugsandi að Rickson hafi barist 400 bardaga. Þá á Rickson allavega eitt skráð tap, árið 1993 á Sambó móti, gegn náunga með hið einstaklega viðeigandi nafn Ron Tripp. Rickson afsakaði sig með því að hann þekkti ekki Sambó reglurnar (þrátt fyrir að hafa keppt í Sambó áður) og vildi meina að þar sem að hann vissi ekki að hreint kast endaði með fullnaðarsigri ætti ekki að telja þennan bardaga sem tap.
Hvað sem öllu þessu varðar var Rickson frábær glímukappi og þeir sem vilja kynnast þessari goðsagnarkenndu persónu nánar ættu að horfa á hina mjög svo áhugaverðu heimildarmynd Choke. Í myndinni er fylgst með undirbúningi Ricksons fyrir keppni á Vale Tudo móti í Japan. Myndina má nálgast hér að neðan.