Kevin Holland, sem mætti Gunnari Nelson í London í mars, heldur uppteknum hætti og snýr fljótt tilbaka eftir bardagann gegn Gunna. Eftir góðan sigur gegn sterkum andstæðingi í Gunnari hefur Kevin Holland unnið sér inn tækifæri gegn andstæðingi á Topp 15 styrkleikalista veltivigtarinnar, Vicente Luque.
Kevin Holland og Vicente Luque mætast á UFC 316 sem fer fram 7. júní í Newark, New Jersey. Merab Dvalishvili og Sean O´Malley mætast aftur í aðalbardaga kvöldsins og Holland og Luque bætast nú við dagskránna sem var kannski ekkert sérstök fyrir en tilkoma þeirra breytir ýmsu.
Kevin Holland sigraði Gunnar Nelson á einróma dómaraákvörðun og sneri þar við tapgöngu sinni en hann hafði tapað tveimur bardögum í röð en þeir voru báðir í millivigt. Holland virðist vilja halda sigurgöngunni áfram sem allra fyrst og fær flottan andstæðing með númer hliðiná nafninu sínu. Sigur á Luque kæmi honum líklega inn á styrkleikalista veltivigtarinnar og gæti sterkur sigur talað sínu máli og fleytt honum vel áfram.
Vicente Luque er sterkur andstæðingur og góður allsstaðar, svolítið eins og Holland sjálfur, þannig þetta gæti verið ágæt pörun hjá UFC og þeir gefið áhorfendum skemmtilegan bardaga. Luque hefur barist 22 bardaga í UFC síðan 2015 og mætt mönnum á efsta stigi í veltivigtinni. Hann er með sigra undir beltinu gegn nöfnum eins og núverandi meistaranum Belal Muhammad, fyrrverandi meistara Tyrone Woodley og Mike Perry.
