Kevin Lee mætir Edson Barboza á morgun í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Atlantic City. Kevin Lee náði ekki tilsettri þyngd í vigtuninni áðan en bardaginn fer engu að síður fram.
Kevin Lee var 157 pund í vigtuninni í morgun fyrir 155 punda léttvigtarbardagann gegn Edson Barboza. Leyfilegt er að vera einu pundi yfir (nema þegar um titilbardaga er að ræða) en Lee var einu pundi yfir leyfileg mörk. Hann gefur því 20% launa sinna til Edson Barboza en Barboza ætlar að berjast á morgun þrátt fyrir vigtunarmisferli Lee.
Kevin Lee sendi frá sér yfirlýsingu nú fyrir skömmu þar sem hann baðst afsökunar og sagðist einfaldlega hafa runnið út á tíma. Lee var einnig í brasi með niðurskurðinn fyrir titilbardagann gegn Tony Ferguson í október en náði á endanum. Hann hefur íhugað að fara upp í veltivigt og spurning hvort hann fari upp eftir bardagann um helgina.