Bardagatvíeykið Ernest og Vitalii komu til Íslands sem flóttamenn frá Úkraínu en voru fljótir að koma sér fyrir á Íslandi og byrjuðu að æfa hjá Reykjavík MMA. Þeir hafa áratuga reynslu af bardagaíþróttum í heimalandinu og halda áfram að eltast við drauminn í nýju landi.
Vitalii Korshak: „Of margt fallegt á Íslandi„
Vitalii Korshak byrjaði kornungur að æfa glímu og er hrikalega efnilegur glímumaður. Hann er 6 – 0 sem áhugamaður í MMA og hefur hann sótt sér alla keppnisreynslu sem hægt er að komast í á Íslandi. Hann vann til gullverðlauna á Vorbikarmóti HNÍ með fullt hús stiga, náði góðum árangri í Jiu Jitsu-móti BJÍ undir lok síðasta árs og berst núna sinn fyrsta MMA-bardaga undir handleiðslu Bjarka og Magga hjá Reykjavík MMA.
Vitalii er einstaklega tæknilegur glímumaður og er með óaðfinnanlega fellutækni. Eins og sást á hnefaleikamóti HNÍ er hann með góða hnefaleikatækni og verður því mjög spennandi að sjá hvernig honum tekst til gegn andstæðingnum sínum Laurence „Hardknock“ Charnock.
Laurence Charnock (4 -0) er ósigraður í MMA en hann mætti síðast Will Bean og sigraði hann á einróma dómaraákvörðun. Will Bean var tæknilega séð ósigraður fyrir bardagann gegn Laurence, en við Íslendingar þekkjum Will Bean eftir tvíleikinn við Hrafn Þráinsson. Hrafn mætti Will Bean í tvígang en viðureignin þeirra á milli virtist alveg bölvuð og fékkst ekki afgerandi sigurvegari í hvorugri viðureigninni. Will Bean er sjálfur öflugur glímumaður sem gefur til kynna að Laurence Charnock sé það líka, allavegana ef við leyfum okkur að beita MMA-stærðfræði.
Caged Steel 39 verður auðvitað sýnt í Mini Garðinum á laugardaginn og munum við Íslendingar vonandi hvetja hann til dáða eins og við gerum ávallt þegar kemur að okkar mönnum. Vitalii hefur gengið vel að koma sér fyrir og aðlagast Íslandi, en aðspurður hvað honum líki mest við Ísland segir hann að erfitt sé að benda á eitt, hér sé bara gott að vera.
Herashchenko Ernest
Ernest kom til Íslands á sama tíma og Vitalii en þessir bardagafélagar eru nánast fastir við mjöðm – Þeir sjást aldrei í sitthvoru lagi. Þetta verður fyrsti MMA-bardaginn hans Ernest en hann hefur æft lengi og er með góðan grunn í bardagaíþróttum frá heimalandinu sínu.
Rétt eins og Vitalii þá hefur Ernest einnig látið taka eftir sér á mótum hérna heima fyrir en hann keppti síðast á Íslandsmeistaramótinu í BJJ sem haldið var í Mjölni undir lok síðasta árs. Ernest sýndi flotta tilburði á mótinu en var því miður dæmdur úr leik fyrir létt reglubrot. Það var þó ekki gert í illindum, einhver skilaboð týndust í tungumálinu.
Ernest virðist ansi vel slípaður á alla kanta miðað við að hann er að stíga inn í búrið í fyrsta skipti. Hann fjölyrðir ekki mikið um sinn bardagastíl en hann tekur UFC stjörnuna Khamzat Chimaev til fyrirmyndar og leggur upp einfald plan fyrir komandi bardaga – Smesh!
