spot_img
Saturday, January 4, 2025
Minigarðurinnspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Cejudo vs. Dillashaw

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Cejudo vs. Dillashaw

UFC var með bardagakvöld í Brooklyn á laugardaginn. Í aðalbardaga kvöldsins sáum við Henry Cejudo klára T.J. Dillashaw með tæknilegu rothöggi í 1. lotu en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Það voru ekki allir sáttir þegar Kevin MacDonald stöðvaði bardaga Cejudo og Dillashaw eftir aðeins 32 sekúndur á laugardaginn. Einn maður var þó mjög sáttur og það var Henry Cejudo. Hann er núna búinn að vinna TJ og Demetrious Johnson og má vera mjög ánægður með síðustu 12 mánuði ferilsins.

Það er eiginlega hálf leiðinlegt að þetta skildi hafa klárast eftir aðeins 32 sekúndur, mig langaði að sjá meira af þeim gegn hvor öðrum. Eins og sjá mátti á blaðamannafundinum eftir bardagann var Dillashaw gríðarlega svekktur. Skiljanlega enda hafði hann lagt gríðarlega vinnu í 12 vikur til að skera niður í fluguvigtina og svo var það bara allt búið strax. Hann sleppti þakkagjörðarhátíðinni (sem er hans uppáhalds hátíð) og jólunum en tapaði eftir 32 sekúndur.

Mikið hefur verið rætt um ákvörðun dómarans Kevin MacDonald að stöðva bardagann. Dillashaw og fleirum fannst dómarinn stoppa bardagann full snemma og má alveg færa rök fyrir því að leyfa þeim að halda aðeins lengur áfram þar sem þetta var titilbardagi tveggja meistara. En ég á samt erfitt með að sjá Dillashaw jafna sig úr þeirri stöðu sem hann var kominn í á meðan Cejudo var stanslaust að kýla hann. Dillashaw var kýldur niður tvisvar á 30 sekúndum, var að éta fullt af höggum þó hann væri að reyna að hreyfa sig og bæta stöðu sína.

Ég skil samt að keppnismaðurinn Dillashaw vilji frekar vera steinrotaður heldur en að skilja einhvern vafa eftir. Hann er auðvitað svekktur með niðurstöðuna og horfir núna frekar á mistök dómarans heldur en sín eigin mistök í bardaganum. Í svona atvikum verðum við bara að treysta sérfræði þekkingu þriðja mannsins í búrinu sem þarf að taka ákvörðun á augabragði. Við sem áhorfendur erum að missa okkur yfir fjörinu í bardaganum en hann er að hugsa um öryggi keppenda. Dillashaw hafði þegar verið kýldur niður og MacDonald hefur sennilega ákveðið að Dillashaw ætti lítið eftir. Auk þess leit Dillashaw út fyrir að vera ennþá vankaður þegar hann steig upp um leið og bardaginn var stöðvaður. Þess ber þó að geta að öll ummæli Dillashaw eftir bardagann hafa komið áður en hann fékk sjálfur tækifæri á að sjá bardagann sjálfur. Kannski skipti hann um skoðun þegar hann sá bardagann en það er eiginlega ólíklegt.

Dillashaw sagði líka eftir bardagann að ef hann hefði unnið bardagann eins og Cejudo þá væri hann ekki jafn glaður og Cejudo var eftir bardagann. Þau ummæli eru í besta falli hlægileg enda gerir það lítið úr sigri Cejudo. Auk þess var sigur Dillashaw á Cody Garbrandt í fyrri bardaganum ekki ósvipaður og þar fagnaði Dillashaw eins og eðlilegt þykir.

Þó margir vilji sjá þá mætast aftur og báðir virðast vera til í að mætast aftur þá held ég að sá bardagi verði að vera settur á ís. Það er ósanngjarnt gagnvart öðrum keppendum í fluguvigt og bantamvigt að þeir þurfi að bíða enn lengur á meðan Dillashaw fær það sem hann vill. Joseph Benavidez er með sigur á Henry Cejudo og hann ætti að fá tækifæri á beltinu. Að sama skapi á sigurvegarinn úr viðureign Marlon Moraes og Raphael Assuncao (mætast þann 2. febrúar) rétt á titilbardaga í bantamvigtinni. Svona ofurbardagar eru skemmtilegir en þetta má ekki fara í einhverja vitleysu þar sem allt stíflast í flokkunum. Það er líka gaman að sjá menn hreinsa sína flokka og það hefur hvorugur gert.

Greg Hardy var dæmdur úr leik í sínum fjórða atvinnubardaga. Hardy hnjáaði liggjandi mann í hausinn og það er stranglega bannað. Ég man ekki eftir að hafa heyrt áhorfendur fagna þegar einhver er dæmdur úr leik enda er Hardy afar óvinsæll. Áhorfendur kölluðu líka „Asshole, asshole“ þegar Hardy var dæmdur úr leik. Sennilega má skrifa þetta bara á reynsluleysi hjá Hardy en það er erfitt að vorkenna manni sem hefur hans fortíð.

Donald Cerrone átti síðan geggjaðan sigur gegn Alexander Hernandez. Gamli maðurinn er ekki dauður úr öllum æðum og leit frábærlega út. Hernandez var kokhraustur fyrir bardagann og var með ýmis áhugaverð ummæli en Cerrone þaggaði heldur betur niður í honum. Cerrone alltaf skemmtilegur og heldur áfram að sýna skemmtileg tilþrif í búrinu verandi 35 ára gamall. Það væri bara gaman að sjá hann á móti Conor McGregor á árinu.

Annars var þetta bara mjög skemmtilegt bardagakvöld sem heppnaðist vel í alla staði. Góð byrjun hjá UFC á ESPN rásinni og var fínn hraði á útsendingunni hjá UFC en þetta var oft leiðinlega hægt á Fox Sports.

Næstu helgi hefði UFC 233 átt að fara fram en það var fellt niður. Það er því ekkert UFC um næstu helgi og er næsta bardagakvöld þann 2. febrúar þar sem Raphael Assuncao og Marlona Moraes mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular