Á laugardagskvöldið fór fram UFC bardagakvöld í London. Í aðalbardaga kvöldsins tókst Michael Bisping að sigra goðsögnina Anderson Silva í skrítnum bardaga.
Michael Bisping sigraði eftir dómaraákvörðun eftir fimm erfiðar lotur. Það má segja að Bisping hafi sigrað fleiri lotur en Silva sigraði bardagann. Michael Bisping sigraði klárlega lotur 1, 2 og 4 þar sem Silva gerði sjálfur afskaplega lítið.
Silva bakkaði mikið fyrstu loturnar og var kýldur niður í 2. lotu. Í 4. lotu gerði Silva nánast ekkert nema að standa kyrr upp við búrið og leyfa Bisping að skora stig. Aftur á móti var Anderson Silva nálægt því að klára bardagann í tvígang.
Silva gerði talsvert meiri skaða þegar hann loksins gerði eitthvað. Eins og sjá mátti á andliti Bisping var hann ansi skorinn og blóðugur á meðan ekki sást á andliti Silva. Brasilíumaðurinn var óánægður með dómaraákvörðunina og ýjaði að spilling hafi haft eitthvað með úrslitin að segja.
Silva þarf bara að horfa á bardagann aftur og sjá hve lítið hann gerði í lotum 1, 2 og 4 og átta sig á að þetta gallaða stigakerfi dæmir eftir lotum. Því er eiginlega ekki hægt að segja að Silva hafi átt sigurinn skilinn þó hann hafi verið nær að klára bardagann.
Þá er ekki hægt að sleppa því að tala um umdeildu þriðju lotuna. Undir lok lotunnar missti Bisping góminn úr sér en dómarinn Herb Dean gat ekki stoppað bardagann þar sem Silva var að sækja að Bisping á fullu. Bisping stoppaði um skamma stund, benti Dean á að gómurinn hefði dottið en á sama tíma stökk Silva inn með fljúgandi hnéspark sem var nálægt því að rota Bisping.
Það var ansi vandræðaleg stund þarna í búrinu þegar Silva fagnaði líkt og bardaginn hafi verið stöðvaður og starfsmenn sögðu honum að drífa sig af búrinu því bardaginn væri ekki búinn. Allir virtust fremur ringlaðir en enginn jafn ringlaður og Michael Bisping sem sat á stólnum hálf rotaður.
Þarna hefði maður haldið að Silva myndi láta kné fylgja kviði og einfaldlega klára bardagann í 4. lotu. Þess í stað gerði hann afskaplega lítið í 4. lotunni sem kostaði hann sigurinn.
Það var gaman að sjá Silva þegar hann virtist reyna að klára bardagann í 3. og 5. lotu. Þar leit hann út eins og gamli Silva og var með skemmtileg spörk, hné og olnboga sem minntu á gamla tíma. Hann er kannski ekki dauður úr öllum æðum en hann getur ekki komist lengur upp með það að fíflast og gefa andstæðingnum lotur.
Annars gerðist fátt markvert á bardagakvöldinu. Brad Pickett var tilfinningaþrunginn eftir sigur sinn á Francisco Rivera sem hefði getað dottið Rivera megin. Pickett ætlaði að hætta ef hann hefði tapað en mun þess í stað halda áfram. Hefði það ekki bara verið flottur endir á ferlinum að enda með sigri á heimavelli í London?
Gegard Mousasi sigraði Thales Leites mjög örugglega en var óánægður með baul áhorfenda. Gagnrýnin á að vissu leyti rétt á sér en Mousasi fannst sigurinn skipta meira máli en að skemmta áhorfendum. Mousasi hefur átt misjöfnu gengi að fagna í UFC en spurning hvort að hann komist á smá sigurgöngu núna.
Tom Breese valtaði ekki yfir andstæðing sinn eins og margir bjuggust við en fékk hins vegar dýrmæta reynslu. Keita Nakamura kom Breese í erfiðar stöður oft á tíðum en Breese olli sjálfum sér vonbrigðum með frammistöðu sinni. Hann á þó eftir að læra margt af þessum bardaga og halda áfram að bæta sig.