Mike Jackson mun mæta Mickey Gall á UFC 196 í febrúar en Gall mun mæta CM Punk takist honum að sigra Jackson. Það gæti þó verið erfitt að ná höggum á hinn 431 cm háa Jackson miðað við heimasíðu UFC.
Það virðist einhver ruglingur vera á síðu Mike Jackson á UFC.com. Fyrir það fyrsta er hann hvorki meira né minna en 431 cm á hæð. Það sem verra er að hann er aðeins 32 kg.
Til eru tveir MMA bardagamenn sem bera nafnið Mike Jackson. Annar hefur aldrei barist atvinnumannabardaga en er með nokkra áhugamannabardaga að baki. Hann mun berjast sinn fyrsta atvinnumannabardaga í UFC þegar hann mætir Mickey Gall. Hér má sjá skemmtilega grein um Mike Jackson.
Hinn Mike Jackson í MMA heiminum er 11-10 og aldrei barist í UFC. Samkvæmt bardagaskorinu hans á Sherdog barðist hann síðast í janúar 2015 og hefur tapað sex af síðustu átta bardögum sínum.
Það er samt nokkuð ljóst að hvorugur Mike Jackson er 431 cm á hæð og alls ekki 32 kg en báðir berjast í veltivigt.
Þetta er þó augljóslega villa á heimasíðunni og spurning hvort Reebok sé farið að skipta sér af heimasíðu UFC.