spot_img
Thursday, December 26, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Holm vs. Correia

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Holm vs. Correia

Holly Holm Bethe Correa UFC Fight NightUFC er með bardagakvöld í Singapúr á morgun. Í raun er villandi að kalla þetta bardagakvöld enda byrja bardagarnir snemma í fyrramálið á íslenskum tíma. Hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana.

Að duga eða drepast fyrir Holly Holm

Holly Holm varð heimsfræg á einni nóttu þegar hún rotaði Rondu Rousey með hásparki árið 2015. Síðan þá hefur hún tapað öllum þremur bardögum sínum í UFC og verður að komast aftur á sigurbraut. Holm verður að vinna Bethe Correia ef hún ætlar ekki að falla í gleymskunnar dá. Bardagar hennar hafa verið heldur tilþrifalitlir að undanförnu og það þarf að breytast ef hún vill komast aftur í titilbardagana.

Correia er sjálf með tvö töp, einn sigur og eitt jafntefli í síðustu fjórum bardögum sínum. Hún hefur ekki sýnt margt sem bendir til þess að hún geti ógnað Holm mikið en Holm verður að eiga betri frammistöðu en hún hefur sýnt undanfarið.

Endalokin hjá Andrei Arlovski?

Hinn 38 ára Andrei Arlovski hefur átt slæmu gengi að fagna. Arlovski er með fjögur töp í röð og þar af þrjú af þeim eftir rothögg. Hann mætir Pólverjanum Marcin Tybura á morgun en báðir sigrar hans í UFC voru eftir rothögg. Tapi Arlovski eftir rothögg á morgun verður það 11. tapið hans á ferlinum eftir rothögg. Það er ansi mikið og spurning hvort það verði hans síðasti bardagi á ferlinum ef hann tapar illa.

Ólíkir glímustílar mætast

Dong Hyun Kim mætir Colby Covington í áhugaverðum veltivigtarslag. Ferill Kim mjakast hægt áfram þessa dagana. Hann hefur unnið sex af síðustu sjö bardögum sínum, er í 7. sæti styrkleikalistans en fær samt Colby Covington sem er ekki einu sinni meðal 15 efstu í veltivigtinni. Einu þrjú töp Kim í UFC voru gegn Carlos Condit, Tyron Woodley og Demian Maia (eftir vöðvakrampa). Samt virðist hann eiga erfitt með að komast hærra.

Covington er hörku andstæðingur, 6-1 í UFC og er á uppleið. Hann er sterkur glímumaður og verður áhugavert að sjá þessa tvo glímumenn mætast. Kim er frábært svart belti í júdó og verður fellubarátta þeirra mjög áhugaverð. Covington kæmi með ferskt blóð í toppbaráttuna í veltivigtina með sigri en það verður þrautinni þyngri. Þess má geta að Covington er sigurstranglegri hjá veðbönkum og kemur það nokkuð á óvart. Þeir sem hafa gaman af veðmálum ættu að kíkja á þennan bardaga.

Fyrrum léttvigtarmeistari í veltivigt

Fyrrum léttvigtarmeistarinn Rafael dos Anjos berst sinn fyrsta bardaga í veltivigt á morgun. Dos Anjos hefur áður lýst gríðarlega erfiðum niðurskurði sínum og setur hann nú heilsuna í forgang og fer upp um flokk. Fraumraun hans verður ekki auðveld en dos Anjos mætir Belganum Tarec Saffiedine en hann var síðasti veltivigtarmeistari Strikeforce. Þetta er einn áhugaverðasti bardagi kvöldsins og verður gaman að sjá hvort Rafael dos Anjos stimpli sig inn í veltivigtina.

Það er fátt um fína drætti í upphitunarbardögum kvöldsins (fyrir utan kannski Justin Scoggins) en aðalhluti bardagakvöldsins er virkilega flottur. Tveir bardagar gætu breytt styrkleikalistanum í veltivigtinni og hvetjum við alla til að fylgjast með.

Bardagarnir eru á óvenjulegum en frábærum tíma. Fyrsti bardagi dagsins byrjar kl 8:45 á íslenskum tíma en aðalhlutinn hefst kl 12. Fátt betra en að hanga og horfa á góða bardaga en allir bardagarnir verða sýndir á Fight Pass rás UFC.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular