UFC on Fox 23 fer fram í kvöld í Denver, Colorado. Það eru kannski ekki stærstu nöfnin í aðalbardaga kvöldsins en þó má finna marga skemmtilega bardaga á bardagakvöldinu.
- Næsta áskorun Amöndu Nunes: Tvær af þeim bestu í bantamvigt kvenna eigast við í aðalbardaga kvöldsins. Að öllum líkindum mun sigurvegarinn fá næsta titilbardaga í þyngdarflokknum og því mikið undir. Julianna Pena heldur því fram að hún sé sú besta í flokknum og getur staðið við stóru orðin með sigri í kvöld. Valentina Shevchenko er þó ekkert lamb að leika sér við og vill ekkert meir en að fá annan bardaga gegn Nunes. Hvor fær næsta titilbardaga?
- Tveir áhugaverðir í skemmtilegum bardaga: Þeir Donald Cerrone og Jorge Masvidal eru afar áhugaverðir og skemmtilegir bardagamenn. Masvidal er sannfærður um að Cerrone sé ekkert merkilegur bardagamaður og að hann geti klárlega sigrað. Cerrone er þó á því að Masvidal sé ekkert nema B-klassa bardagamaður sem er að fara að tapa fyrir A-klassa bardagamanni. Hvernig sem fer verður þetta eflaust einn af bestu bardögum kvöldsins og gaman að sjá hvor hafi rétt fyrir sér.
- Næsta stóra nafnið í þungavigtinni? Francis Ngannou mætir Andrei Arlovski í kvöld. Ngannou er einn sá allra efnilegasti í þungavigtinni og hefur tekið gríðarlegum framförum á þeim þremur árum sem hann hefur verið í MMA. Ngannou er stór, sterkur, fljótur að læra og virðist hafa allt til að komast í fremstu röð. Hann fær sitt erfiðasta próf í nótt þegar hann mætir reynsluboltanum Andrei Arlovski. Arlovski hefur ekki riðið feitum hesti undanfarið og tapað þremur í röð. Sigur gegn Arlovski kemur Ngannou enn framar í þungavigtinni og verður forvitnilegt að sjá þessa tvo jaxla mætast.
- Geggjaður bardagi í bantamvigtinni: Bantamvigtin blómstar sem aldrei fyrr núna og fáum við hörku bardaga þar í nótt. Aljamain Sterling er í 7. sæti á styrkleikalistanum og mætir Raphael Assuncao sem er í því 4. Báðir töpuðu þeir sínum síðasta bardaga og eru því æstir í sigur. Þetta ætti að verða jafn og skemmtilegur bardagi milli tveggja hörku bardagamanna.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 21 á Fight Pass rás UFC en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 1 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.