Ronald Bjarki Mánason keppti nýliðna helgi á PAL International Tournament í Oxnard í Los Angeles í 50kg flokki en PAL er eitt af stærstu mótunum í Bandaríkjunum. Í bland við miklar og strangar æfingar á Íslandi í WCBA/HR hefur Ronald æft á mörgum stöðum í bæði Kanada og Bandaríkjunum en í horninu var enginn annar en Jose Navarro frá Bandaríkjunum sem er Ólympíufari fyrir Team USA árið 2000 og heimsmeistari í atvinnumanna hnefaleikum sem var eitt sinn í fyrsta sæti heimslista WBC.
Með Jose í horninu var bróðir hans Ignacio “Nacho” Navarro sem einnig náði góðum árangri sem atvinnumaður en Navarro fjölskyldan er mjög þekkt nafn í bransanum í Bandaríkjunum. Jose Navarro var þjálfari Davíðs Rúnars þjálfara Ronalds allan tímann sem hann var við æfingar í Los Angeles um árið og samband þeirra gott og þeir áttu gott samstarf yfir þessa bardaga helgi sem var á allan hátt virkilega stór og góð reynsla fyrir alla.
Hann mætti Christian Kuopono-James í undanúrslitum á föstudeginum og vann með yfirburðum og lotu 2 og 3 með meirihluta 10-8 hjá öllum dómurum. Andstæðingurinn í úrslitunum á Laugardeginum var mun sterkari og veðraðari boxari að nafni Brandon Stogner sem var mikil jarðýta og pressaði mikið á andstæðing sinn í undanúrslitum. Ronald Bjarki mætti engu að síður virkilega klár til leiks í úrslitum og hafði Brandon engin svör en Ronald vann allar lotur með stigagjöfinni 5-0, 4-1, 5-0 eða með miklum yfirburðum. Ronald Bjarki Mánason er því með þessu (að okkur vitandi) fyrsti Íslendingurinn í sögunni til að vinna tournament í Bandaríkjunum og megum við vera mjög stolt af honum. Það sem af er ári hefur hann unnið gull á Pirrkka Tournament í Finnlandi og nú gull á PAL Tournament í Bandaríkjunum og næst á dagskrá Hillerød Bokscup í Danmörku næstu helgi og King of the ring í Svíþjóð í lok mánaðar.






