spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 252

Spá MMA Frétta fyrir UFC 252

UFC 252 fer fram í kvöld. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í þungavigt: Stipe Miocic gegn Daniel Cormier

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er alvöru trílogía og verður gaman að sjá hvernig hún endar í nótt. Fyrir alla bardagana hef ég tippað á Stipe. Finnst bara eins og hann eigi að vera betri þungavigtarmaður en Cormier. DC er samt svo ógeðslega seigur, svo mikill keppnismaður og er frábær íþróttamaður þó hann líti kannski ekki út fyrir það. Sama hvernig fer vona ég að það verði engin augnpot í bardaganum í kvöld. DC hefur tvisvar potað illa í augu Miocic og svo illa í seinni bardaganum að Miocic þurfti að fara í aðgerð á auganu. Það er breyta sem ég nenni ekki að hafa.

DC sagði Miocic að mæta með glímuskóna sína í kvöld enda hefur hann sagt að hann hafi farið frá leikáætlun sinni síðast sem var að glíma við Stipe. Ég er ansi hræddur um að DC geti gert það vel í kvöld og svo hjálpar það honum að UFC er með minna búrið. Minna búr, minni flötur og auðveldara fyrir DC að ná taki á Stipe. DC átti frábæra frammistöðu síðast þar til Stipe kom með þessi geggjuðu skrokkhögg sem breyttu bardaganum. Ég veit ekki hvort sama taktík muni virka hjá Stipe í þetta sinn og þá er spurning hvað ætlar Stipe að koma með óvænt núna?

Það er svo margt sem segir mér að tippa á DC. Glíman hjá DC, dirty boxing-ið hjá honum, hraðinn og bara þetta gameness sem DC er alltaf með. En ég ætla að halda mig við Stipe sigur. Ætla að segja að Stipe komi mjög sterkur til leiks gegn örlítið eldri DC og sigri á stigum.

Óskar Örn Árnason: Epic bardagi, gaman að sjá þá útkljá þetta. Stipe er yngri og alltaf erfiður. Gæti farið í báðar áttir en ég held að meiri áhersla á glímuna skili DC sigri. DC tekur þetta á stigum. 

Guttormur Árni Ársælsson: Tveir bestu bardagamenn sem hafa keppt í þungavigt frá upphafi að mínu mati. Og við áhorfendur dekraðir að fá trílogíu á milli þeirra. Stipe leit út fyrir að vera í trylltu formi á vigtinni og ég held að planið hjá honum sé að geta haldið tempó í fimm lotur. Ég er meiri DC aðdáandi og hefði virkilega gaman af því að sjá hann vinna þennan bardaga og hætta á toppnum. En það er eitthvað sem segir mér að Stipe vinni þetta – hann er náttúrulegur þungavigtamaður og ég held að líkur hans aukist eftir því sem líður á bardagann. Stipe sigrar með TKO í þriðju lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Miocic og DC eiga samtals 5 lotur saman í búrinu saman á ferlinum. DC vann fjórar og hálfa. Það segir mér svolítið. DC er fáránlega góður bardagamaður en Miocic er það nefnilega líka. Þeir virðast báðir koma í þennan bardaga í betra formi en áður og DC hefur það á bakinu að vita að þetta sé síðasti bardaginn á ferlinum, hvort sem það sé gott eða slæmt. Ef hann tæklar þennan bardaga svipað og síðasta bardaga, en nær að bregðast við þegar Miocic skiptir um leikáaætlun þá vinnur DC þennan bardaga og endar ferilinn vel. Ég hef alltaf haldið með DC og finnst hann frábær og hans vegna vona ég að hans saga fái góðan endi, en það er erfitt að spá gegn Stipe. Hjartað segir DC, hausinn segir Stipe. Ég leyfi hjartanu að ráða för í þetta sinn. DC sigrar á stigum og hættir á toppnum með beltið.

Halldór Halldórsson: Stipe kom mér á óvart í vigtuninni, maðurinn leit hrikalega vel út og bersýnilegt að kappinn hefur verið að gera allt rétt í undirbúningnum. Á vigtinni leit DC út eins og 41 árs gamall maður, samt bara þremur pundum þyngri. Að því sögðu hefur DC gefið það út trekk í trekk að gameplanið sé að glíma Stipe út og suður. Ég sé ekki Stipe eiga svör við því, hvað þá í smærra búri. Cormier rear naked chocke í 3. lotu.

Stipe Miocic: Pétur, Guttormur
Daniel Cormier: Óskar, Arnþór, Halldór

Bantamvigt: Sean O’Malley gegn Marlon Vera

Pétur Marinó Jónsson: Ég var lengi vel ekki seldur á að O’Malley yrði einhver áskorandi í bantamvigtinni. Mér fannst hann skemmtilegur karakter sem var með sínar takmarkanir sem bardagamaður. Eftir sigur hans á Eddie Wineland er ég kominn á lestina. Hlakka til að sjá hversu langt hann fer. Það má ekki afskrifa Marlon Vera sem er mjög gott próf fyrir O’Malley. Vera er mjög góður varnarlega en finnst hann ekki vera nógu ógnandi fyrir O’Malley. Þetta verður góð prófraun en O’Malley sigrar eftir dómaraákvörðun á endanum.

Óskar Örn Árnason: O’Malley lítur út eins og nýr Conor en nóttin er ung og Vera er helvíti erfitt próf. Vera er rotari með miklu meiri reynslu. Kannski mun Suga’ rota hann í fyrstu eins og ekkert sé en ég held ekki. Ég tek sénsinn á Vera, TKO í þriðju lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: O’Malley er með þennan X-faktor; fáránlega spennandi stíl og skemmtilegan persónuleika í þokkabót. Ég er handviss um að Uncle Dana sér dollaramerki og mun halda með O’Malley í þessum bardaga. Vera er hættulegur andstæðingur en O’Malley er á þvílíkri siglingu og ég á erfitt með að spá gegn honum. TKO í 2. lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Suga’ hefur áru eins og Conor á sínum tíma. Það er ekkert sem getur stoppað hann. Hann hefur persónuleikann, vinstri hendina og fólk elskar hann. Við héldum alltaf að Conor væri að fá of þungt próf á sínum tíma en þá kláraði hann bara Poirier, Siver og Mendes. Suga’ er að eiga svipaðan feril á fyrstu árunum í UFC. Hér fær hann þungt próf gegn Marlon Vera. Ég held samt að Suga’ sé lest sem erfitt er að stoppa og hann fleytir sér í gegnum þetta á hæpinu. Suga’ sigrar í 2. lotu með TKO.

Halldór Halldórsson: O’Malley er stjarna í bígerð sem er svalur innan vallar sem utan og ég moka kolin á O’Malley lestinni. Því er ég mjög stressaður fyrir þessum bardaga, eitthvað hefur niðurskurðurinn farið illa í minn mann þvi hann skalf allur á vigtinni. Vera er glerharður og aldrei verið stoppaður í UFC, ekki nóg með það heldur hefur Chito látið eins og hann viti eitthvað sem við hin vitum ekki alla vikuna sem gerir mig enn taugaóstyrkari. Ég verð samt að bakka upp minn mann og kaupa miða á the Suga Show. O’Malley KO í 2. lotu.

Sean O’Malley: Pétur, Guttormur, Arnþor, Halldór
Marlon Vera: Óskar

Þungavigt: Junior dos Santos gegn Jairzinho Rozenstruik

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er algjört 50/50 að mínu mati. Bara spurning hvor hittir fyrst. Dos Santos er búinn að tapa tveimur í röð en það var gegn topp 5 gæjum. Framm að því var hann með þrjá sigra í röð. Stutt á milli í þessu. Mér fannst hann samt oft vera drullu tæpur í þessum sigrum og veit ekki hvort hann geti tekið við mörgum þungum höggum. Samt, ég veit ekki ennþá hversu góður Rozenstruik er. Overeem var að vinna hann þar til Rozenstruk náði rothögginu á síðustu stundu og við sáum ekki mikið af honum gegn Ngannou. Ég ætla að segja að reynslan vinni hér í kvöld. JDS eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta er 50/50 í mínum huga. Annað hvort rotar Rozenstruik JDS í fyrstu eða dos Santos vinnur á stigum. Veðja á fáranlega höggþyngd Rozenstruik, KO í fyrstu.

Guttormur Árni Ársælsson: Alltaf hálfgert coin toss hjá þungavigtarmönnum sem hafa tekið jafn mikinn skaða og Junior dos Santos. Ég held því miður að JDS sé búinn og verði rotaður í fyrstu lotu. 

Arnþór Daði Guðmundsson: Skemmtilegur bardagi í þungavigtinni þar sem báðir geta sigrað. JDS er búinn að tapa tveimur bardögum í röð með tæknilegu rothöggi eftir að hafa komið ferlinum á smá skrið aftur, en hann er orðinn 36 ára og hefur tekið ansi mikinn skaða á ferlinum. Rozenstruik var á flugi þar til hann lenti á vegg sem kallast Francis Ngannou, veggur sem ansi margir aðrir hafa stoppað á. Þeir hafa báðir getuna til að klára bardagann með einu höggi svo þetta er í raun spurning um það hvort JDS noti reynsluna og haldi sér frá Rozenstruik eða að Rozenstruik hitti þessu eina höggi sem þarf. Rozenstruik hitti því á móti Alistair Overeem og ég held að hann geri það aftur hér á móti JDS í 2. lotu.

Halldór Halldórsson: Ég er mjög tvístígandi hér. Fyrst var ég á því að JDS myndi nota reynsluna til að sigla í höfn góðum sigri á stigum en er eiginlega búinn að skipta um skoðun. Rozenstruik er yngri og er það mikill íþróttamaður að á einhverjum tímapunkti á hann eftir að ná að sprengja í áttina að JDS og koma inn nokkrum blýþungum höggum sem slökkva á gamla manninum. Rozenstruik TKO 2. lota.

Jairzinho Rozenstruik: Óskar, Guttormur, Arnþór, Halldór
Junior dos Santos: Pétur

Bantamvigt: John Dodson gegn Merab Dvalishvili

Pétur Marinó Jónsson: John Dodson er óþolandi gæji, þoli hann ekki! Ég ábyrgist að hann muni kvarta eitthvað í dómaranum í kvöld og fá örugglega eitt óverðskuldað pungspark. Merab er góður wrestler en það er Dodson líka. Dodson er með mjög góða felluvörn og ég held að það bjargi honum. Held að Dodson taki þetta bara eftir klofna dómaraákvörðun í ekkert sérstökum bardaga.

Óskar Örn Árnason: Alltaf gaman að sjá nýjan og efnilegan á móti reynslubolta. Segi að Dahlisvili taki þetta á glímunni, sigur á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég hef aldrei verið hrifinn af Dodson. Dvalishili æfir undir leiðsögn Ray Longo og Matt Serra og ætti því að mæta með ágætis gameplan til leiks. Hann er öflugur í sambó og júdó og ef honum tekst að ná taki á Dodson gæti hann stjórnað þessum bardaga í clinchinu. Dvalishili sigrar á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: John Dodson er ennþá eitt af stærri nöfnunum í bantamvigtinni í UFC og þetta er klassískur reynslubolti á móti einum á uppleið. Dodson hefur ennþá hraðann sem er svo mikilvægur í léttari flokkunum en ég efast um að það sé nóg í dag þar sem sportið hefur breyst síðan hann var upp á sitt allra besta. Ég hugsa að Dvalishili muni bara ná að grípa Dodson og stjórna bardaganum alfarið og sigra á stigum.

Halldór Halldórsson: Hér er týpískur „gefum þessum sem er á uppleið nafn á ferilskránna“ bardagi. Þessi á uppleið verandi Dvalishili á meðan Dodson er hægt og rólega á leiðinni út. Dvalishili á eftir að yfirbuga Dodson með fellum og þreytandi glímu í þrjár langar lotur og sigra á stigum.

Merab Dvalishvili: Óskar, Guttormur, Arnþór, Halldór
John Dodson: Pétur

Fjaðurvigt: Herberg Burns gegn Daniel Pineda

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er eiginlega sá eini sem ég er nokkuð viss um. Pineda er reynslubolti þar sem hann hefur klárað alla 26 sigra sína. Ég er að fila Herbert Burns en sigur hans á Evan Dunham fyrr í sumar var mjög flottur. Þó Pineda sé reynslumeiri held ég að Burns sé betri. Burns sigrar með uppgjafartaki í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Burns er heitur en Pineda verður erfiður. Tek samt Burns með uppgjafartaki í annarri.

Guttormur Árni Ársælsson: Burns er á siglingu og klárar þennan bardaga með uppgjafartaki í þriðju.

Arnþór Daði Guðmundsson: Yngri Burns bróðirinn er á siglingu eins og sá eldri og er búinn að klára þrjá bardaga í röð í fyrstu lotu í UFC. Pineda er ekki jafnheitur og ef ég væri að veðja mínum eigin peningum þá færu þeir á Burns í þetta sinn. Klárar þetta líka í fyrstu lotu.

Halldór Halldórsson: Herbert Burns er á góðu skriði og á eftir að halda því skriði áfram. Eina sem hringir smá viðvörunarbjöllum hjá mér er að hann náði ekki vigt. Var rúmlega þremur pundum of þungur. Hvort það sé vísir að mjög erfiðum niðurskurði sem var haldið við fram á síðustu stundu eða þá hann hafi bara séð að hann væri ekki að fara að ná þessu og hafi þvi hætt snemma að skera niður og því sæmilega frískur. Það verður bara að koma í ljós. Burns með armbar í 1. lotu.

Herberg Burns: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór, Halldór
Daniel Pineda: ..

Óskar: 26-4 *2019 meistarinn
Pétur: 25-5
Guttormur: 22-8
Halldór: 11-4
Arnþór: 5-5

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular