spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSveinbjörn Iura: Æfingar í Covid hafa verið mjög skrautlegar

Sveinbjörn Iura: Æfingar í Covid hafa verið mjög skrautlegar

Aðsend mynd.

Júdó kappinn Sveinbjörn Iura keppir á Grand Slam í Búdapest um helgina. Sveinbjörn reynir að komast á Ólympíuleikana og vantar ekki mikið upp á til að hann nái því markmiði.

Sveinbjörn Iura situr í 64. sæti heimslistans í -81 kg flokki og hefur verið einn okkar fremsti júdó kappi til margra ára. Draumur Sveinbjörns er að komast á Ólympíuleikana en vantar hann enn nokkra punkta til að komast inn á leikana. Góður árangur í Ungverjalandi getur hjálpað honum að komast nær þeim draumi.

Það hefur verið erfitt að halda æfingum og keppnum gangandi alls staðar í heiminum á þessu ári vegna kórónuveirufaraldsins. Loka hefur þurft líkamsræktarstöðvum, æfingar stöðvaðar og erfitt að halda tveggja metra bili á glímuæfingum. Það hafa því ekki verið draumaaðstæður til að undirbúa sig fyrir mikilvægt mót síðustu mánuði.

„Æfingar í Covid hafa verið mjög skrautlegar en ég og faðir minn sem er einnig þjálfarinn minn höfum reynt að aðlagast aðstæðum útaf samkomubanninu. Þessi tímasetning hentar frekar illa því það má ekkert glíma og allt sett í lás en við höfum fundið leiðir til að koma okkur í besta keppnisástand með stuttum fyrirvara. Til að nefna höfum við notað bílastæðahúsið í Kringlunni og með því að vera frumlegur er helling af æfingu hægt að ná útúr því,“ segir Sveinbjörn.

Draumurinn er ennþá að komast á Ólympíuleikana á næsta ári og getur góður árangur í Búdapest hjálpað honum að komast þangað.

„Ég hef alltaf haft auga á markmiðunum og aldrei misst trúna þrátt fyrir ups and downs á ferlinum og það er ekki stoppað fyrr en það er komin loka niðurstaða. Góður árangur um helgina myndi fleyta mér töluvert hátt upp heimslistann en þetta er gríðarlega öflugt mót og með öllum sterkustu keppendum úr heiminum. Myndi vera djarfur og segja að þetta mót er sterkara en heimsmeistaramótið.“

Sveinbjörn náði 3. sæti á Asian Open í Hong Kong í fyrra sem var sterkt. „Hong Kong mótið var heimsbikarmót og er það Ólympíupunktamót og öll mót sem teljast inná leikana eru sterk. En hins vegar er Grand Slam mót töluvert fjölmennara og sterkara en gæjinn sem vann minn flokk í Hong Kong hefur unnið svona Grand Slam mót. Örfáir Íslendingar hafa náð á pall á svona heimsbikarmóti, enginn í -81 flokki sem ég keppi.“

Grand Slam mótið er hluti af mótaseríu alþjóðlega júdósambandsins, International Judo Federation, og eru nokkur Grand Slam mót á hverju ári. Sveinbjörn keppir á laugardaginn en dregið er í flokkinn daginn fyrir.

Pabbi Sveinbjörns og þjálfari, Yoshihiko Iura, getur ekki ferðast með honum eins og hann gerir vanalega. Í hans stað kemur Ólympíufarinn Þormóður Árni Jónsson.

„Já ég óskaði þess að pabbi myndi ekki koma með vegna kórónuveirunnar og taka enga sénsa þó ég hefði viljað hafa hann mér við hlið. Hins vegar kemur Þormóður með mér sem er gríðarlega mikill reynslubolti af öllum þessum mótum og við höfum ferðast og keppt mikið saman. Hann er ekki síðri og virkilega gott að hafa svona jaxl með manni en hann hefur gengið í gegnum allan þennan pakka nema köttað vigt,“ segir Sveinbjörn og hlær.

Eftir mótið í Búdapest um helgina vonast Sveinbjörn til að ná fleiri mótum áður en árið klárast. „Næsta mót eftir þetta er Íslandsmeistaramót ef það verður haldið í nóvember og svo er það Evrópumeistaramót sem er í Tékklandi en það getur allt gerst og öllu þessu aflýst en maður tekur bara einn dag í einu.“

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular