Fyrsta Vorbikarmótið fór fram um helgina í húsakynnum VBC í Kópavogi. MMA Fréttir streymdu frá viðburðinum en besta upptakan frá deginum kemur frá Icelandic Boxing á Youtube. En það má finna hlekk á alla bardagana HÉRNA.
Alls voru 13 bardagar á dagskrá en einn bardagi forfallaðist vegna veikinda og verður leikinn á næsta móti sem fer fram 8. febrúar upp í HFH.
50kg (U15) – Tristan Styff sigraði Hilmar Þorvaldsson
Er til betri leið til að hefja hnefaleikaárið en með smá „Grudge Match“? Þessir strákar hafa mæst áður og var það Tristan Styff sem bar sigur úr bítum, það var á Bikarmótinu í fyrra. Báðir drengirnir eru hrikalega efnilegir miðað við aldur og fyrri störf og eru eiginlega draumaviðureign fyrir þá sem hafa áhuga á góðu og tæknilegu boxi. Allar loturnar voru jafnar og hefðu dómararnir átt versta dag lífsins ef allir bardagarnir væru svona jafnir. Niðurstaðan var klofindómara ákvörðun í rauða hornið.

57 kg (U15) – Alan Alex sigraði Sigurberg Einar
Alan Alex mætti örlítið reynsluminni en andstæðingurinn, en þetta var fyrsta keppnin hans Alan. Sigurbergur var reyndari af þeim tveimur með 3 bardaga undir beltinu. En lítil reynsla skiptir ekki öllu máli ef þú mætir til leiks eins og traktor með Ferrari-vél. Alan sló sjálfan sig út af laginu í fyrstu 2 lotunum og var orðinn sjáanlega þreyttur eftir tvær lotur. Þá fékk Sigurbergur tækifæri til að vaxa inn í bardagann og ákvað að labba niður Alan sem þurfti svo sannarlega að vinna fyrir laununum sínum. Alan gaf sig þó ekki og sýndi í rauninni að hann getur synt í djúpu vatni. Niðurstaðan var klofin dómaraákvörðun til Alan í rauða horninu.

60kg (U17)– Volodymyr Moskwychov sigraði Björn Helga
Þetta var fyrsta viðureign kvöldsins þar sem báðir keppendur voru að berjast sinn fyrsta bardaga. Volodymyr er kannski ungur og óreyndur, en hann er klárlega með hugmyndir um hvers konar boxari hann vill vera. Vínklar og fótahreyfing hefur greinilega verið honum ofarlega í huga. En Björn Helgi óx aldeilis vel inn í bardagann og virtist vera kominn með símanúmerið hans Volodymyr í þriðju lotu.

66 kg (U17) – Arnar Jaki sigraði Arnar Geir
Eins og má búast við frá ungum mönnum byrjaði bardaginn með miklum krafti! Arnar Jaki óð áfram eins og hann bæri enga virðingu fyrir andstæðingnum sínum en Arnar Geir var fljótur að sýna hvað í honum býr og lenti tveimur krókum í andlitið á Arnari Jaka snemma í fyrstu lotu. Arnar Jaki hélt þó áfram að slá taktvíst og fast og Arnar Bragi svaraði fullum hálsi. Niðurstaðan var sannkölluð hnefaleikaveisla, hágæðaskemmtun og endaði í einróma dómaraákvörðun til Arnars Jaka í bláa horninu.

65 kg (66 kg U17) Jökull Bragi sigraði Tomas Barsciavicius
Það þurfti ekki að bíða lengi eftir að þessi bardagi tæki við sér, en þessir kappar byrjuðu af fullum krafti á fyrstu sekúndu. Báðir voru þeir að berjast sinn fyrsta bardaga í hnefaleikum og ákváðu þeir að mæta með hriðskotabyssurnar í hringinn og voru alls ekki gun shy. Það var Jökull Bragi sem fann taking í pressunni. Í þriðju lotu ákvað dómarinn að taka stig af Tómasi fyrir að fara af lágt niður með höfuðið en Tómas brást við með því að setja bensíngjöfina í gólfið og slá vilt og galið þangað til bjallan hringdi. Niðurstaðan var þó einróma dómaraákvörðun til Jökuls Braga í bláa horninu.

75 kg – Jakub Biernat sigraði Hlynur Þorra Helguson
Hérna voru tvær nýgræðingar á ferð. Það tók smá tíma fyrir bardagann að fara í gang en þegar stífleikinn losnaði og drengirnir fóru að verjast sviðinu þá færðist hiti í leikinn. En það er öruggt að segja að Jakub Biernat hafi verið fyrri til að eigna sér hringinn og láta sér líða vel. Hlynur Þorri hlaut blóðnasir í fyrstu lotu og þurfti að gera stutta pásu á bardaganum til að hreinsa til í hringnum áður en önnur lota fór almennilega af stað. Hlynur átti líklega sitt besta högg í annarri lotu þegar hann smellti beinni hægri eins og ljósmynd beint í Jakub. En Jakub sýndi meiri ákefð og vilja og sigldi heim með einróma dómaraákvörðun.

85 kg (U17) – Viktor Örn sigraði Adrian Pawlikowski
Já, það er gaman að vera ungur og þyndarlaus! Þessir drengir byrjuðu með miklum kvelli og mátti varla líta undan. Viktor Örn var að berjast sinn fyrsta hnefaleikabardaga en hann hefur annars verið að gera það gott á diplomamótum HNÍ. Adrian hlaut blóðnasir í fyrstu lotu og þurfti að stöðva bardagann í annarri lotu vegna þess. Glæsileg frumraun Viktors sem hefði ekki getað hafið sinn hnefaleikaferil betur.

75 kg – Vitalii Korshak sigraði Steinar Bergsson
Það má kalla þetta nokkurs konar MMA-viðureign inn í hnefaleikahring. Steinar Bergsson lék frumraun sína í búrinu í desember í fyrra þegar hann keppti á Battle Arena í Englandi. Vitalii er alhliða bardagamaður og er 6 – 0 sem áhugamaður í MMA. Það leynir sér ekki að Steinar hefur æft mikið undir Gunnari Nelson en Steinar er með stórskemmtilegt, létt skopp í fótunum þegar hann berst. Vitalii var að berjast sinn fyrsta hnefaleikabardaga og sá um að pressa og leita að tækifærum gegn Steinari. Að lokum var það Vitalii sem hlaut einróma dómaraúrskurð eftir skemmtilega viðureign.

75 kg – Benedikt Gylfi Eiríksson sigraði William Þór Ragnarsson
Þá var komið að frumraun Benedikts Gylfa í Elite-flokki og mætti hann hinum feykisterka Willion Þór. Vinstri hendin hans Benedikts var í aðalhlutverki í bardaganum en hann sýndi skarpar hreyfingar samhliða og var fljótur að færa sig úr færi þegar á reyndi. Bardaginn var jafn og spennandi allan tímann en það var að lokum Benedikt sem sigraði viðureignina með klofinni dómaraákvörðun.

80 kg – Dmytro Hrachow sigraði Demario Elijah Anderson
Til hamingju, Ísland. Við höfum eignast okkar eigin Paddy „The Baddy“ en hin prýðhærði Dmytro skartaði frá hnefaleikafélaginu Æsi og var búinn að næla sér í aðdáendur áður en bardaginn gegn Demario hófst. Báðir voru þeir að keppa sinn fyrsta keppnisbardaga á ferlinum og leyndi hungrið sér ekki. Demario lék litinn Tyson og hélt höndunum sér upp að sér á meðan hann rúllaði undir og gekk áfram. Dmytro kaus að hreyfa sig vel og valdi tímasetningarnar sínar vel þegar Demario þrýsti honum aftur á bak. Dmytro lenti flottri yfirhandar-hægri í þriðju lotu sem lenti vel og kallaði á talningu var dómaranum. Að lokum var það Dmytro sem sigraði með klofinni dómaraákvörðun eftir ótrúlega skemmtun.

90 kg+ Ágúst Davíðsson sigraði Deimantas Zelvys
Fyrsti þungavigtarbardaginn var á milli Deimantas og Ágústs Davíðssonar. Ágúst byrjaði bardagann á því að stjórna hringnum og gerði vel í því að þrýsta Deimantas út í kaðlana. Báðir kappar voru orðnir þreyttir eftir aðra lotu en það vantaði ekki vinnusemi í drengina á nokkrum tímapunkti. Í þriðju lotu lenti Ágúst mjög beittri hægri hendi sem kallaði á talningu frá dómaranum. Bardaginn var jafn, rétt eins og flestir bardagar á mótinu, en það var að lokum Ágúst frá hnefaleikafélagi Þórs sem var dæmdur sigur á klofnum dómaraúrskurði. Þetta var frumraun Deimantas í hnefaleikum en við fáum vonandi að sjá meira frá þessum efnivið.

90 kg+ Magnús Kolbjörn sigraði Sigurjón Guðnason í lokaviðureigninni.
Þvílíkur endir á fyrsta móti vorsins! Þessir risar skildu gjörsamlega allt eftir í búrinu og hamingja áhorfenda leyndi sér ekki enda var salurinn alveg trylltur! Magnús Kolbjörn hafði sigur úr bítum eftir rosalegan bardaga þar sem bardagamennirnir tveir skipust á að slá svakalegar bombur og nýttu sér svo stund á milli stríða til þess að draga andann og óðu svo aftur inn.

Það er hægt að sjá meira af mótinu inni á Instagram-síðu MMA Frétta og Fimmtu Lotunnar, sem mun einnig gera upp mótið í næsta hlaðvarpsþætti.