Tatiana Suarez hefur fengið sinn skerf af mótlæti og sennilega mætti segja að hún hafi þurft að þola meira mótlæti en flestir. Í aðdraganda UFC 312 voru einhverjir sem töldu það skrifað í skýin að Suarez myndi sigra Zhang Weili, strávigtarmeistara UFC, og var talað um að það yrði ótrúlegur endir á þrautargöngu hennar undanfarin ár en hún var greind með krabbamein snemma á íþróttarferli sínum og hefur hún einnig verið óheppin með meiðsli á tímabilum yfir feril sinn.
Það varð þó ekki raunin og sigraði Zhang Weili með yfirburðum og mætti segja að Suarez hafi vart séð til sólar allan bardagann en talið var að Suarez gæti skákað Weili með sterkri glímu en Weili sýndi og sannaði að hún er langbesta bardagakona strávigtardeildarinnar. Nú hefur Suarez sett fram tilfinningaþrungna yfirlýsingu á Instagram þar sem hún segir meðal annars að meistarar mæti ekki til að fá allt í hendurnar, meistarar mæta til að gefa allt sem þeir geta og það sé hún tilbúin að gera í hvert skipti sem hún keppir. Það skipti ekki öllu máli hvernig bardagar hennar fari, sigur, tap eða jafntefli, hún elski það allt. Þá segist hún hafa upplifað allan tilfinningaskalann yfir sína ævi, spennu, hjartasorg, hamingju og eymd, um það snúist lífið og hún vilji deila reynslu sinni með börnunum sínum í framtíðinni. Yfirlýsing Suarez er tilfinningarík en hún ber með sér bjartsýnisblæ og má greina þess merki að hún ætli sér ekki að staldra við þetta tap of lengi.