spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaUpphitun fyrir UFC Fight Night 33: Hunt vs. Bigfoot (annar hluti)

Upphitun fyrir UFC Fight Night 33: Hunt vs. Bigfoot (annar hluti)

Á föstudagskvöld, á áströlskum tíma, fer fram UFC Fight Night 33: Hunt vs. Bigfoot í Brisbane, Ástralíu. Aðalbardagi kvöldsins stendur á milli Mark Hunt og Antonio ‘Bigfoot’ Silva. Í þessum pistli verður fjallað um bardagana tvo sem fara fram á undan aðalbardaganum.

 

Anthony Perosh (14-7) gegn Ryan Bader (15-4)

Anthony Perosh er 41 árs Ástrali og því heimamaður í þessum bardaga. Perosh er næst elsti bardagakappi UFC í augnablikinu, en aðeins goðsögnin Dan Henderson er eldri. Perosh fékk svarta beltið sitt í BJJ frá Carlos Machado árið 2003 og er af mörgum talinn einn helsti brautryðjandi MMA í Ástralíu. Hann keppti í þungavigt á árum áður og ber hið skemmtilega viðurnefni “The Hippo” sem hann vann sér inn frá æfingarfélögum sínum, en þeir kvörtuðu undan þungri pressu hans í gólfglímunni og byrjuðu í kjölfarið að kalla hann Flóðhestinn.

Í síðasta bardaga sínum mætti Perosh einum besta gólfglímukappa dagsins í dag, Vinny Magalhaes, sem er jafnframt 12 árum yngri en Perosh. Fyrir bardagann lét Vinny hafa eftir sér að ef hann tapaði fyrir Perosh myndi hann eiga skilið að verða leystur undan samningi hjá UFC. Margir álitu þetta sem vanmat en Perosh rotaði hann eftir aðeins 14 sekúndur í fyrstu lotu og Vinny var í kjölfarið látinn fara frá UFC.

Perosh er sjaldnast í leiðinlegum bardögum en af 21 bardögum hans hafa aðeins tveir endað með dómaraúrskurði. Allir hinir hafa endað með rothöggi eða uppgjöf. Það er líka áhugavert að segja frá því að síðustu tveir bardagar Perosh stóðu aðeins yfir í samanlagt í 21 sekúndu; fyrst var hann rotaður af Ryan Jimmo eftir aðeins sjö sekúndur og í næsta bardaga rotaði hann Magalhaes eftir fjórtán sekúndur. Rothögg Jimmo er fljótasta rothögg í sögu léttþungavigtardeildarinnar en rothögg Perosh á Magalhaes er í þriðja sæti. Perosh verður því seint ásakaður um að vera leiðinlegur bardagamaður! Rothögg Perosh gegn Magalhaes má sjá hér:

Ryan Bader er sigurvegari 8. seríu af Ultimate Fighter en í úrslitunum sigraði hann Vinny Magalhaes og eiga Bader og Perosh því sigur gegn þeim kappa sameiginlegan. Bader missti snemma af kjörnu tækifæri til að næla sér í fyndnasta viðurnefnið í MMA. Hann valdi sér ‘Darth’ Bader, þrátt fyrir að það sé öllum ljóst að ‘Master’ hefði vakið mun meiri kátínu.

Í kjölfar Ultimate Fighter sigursins komst Bader á ágætis skrið, sigraði fjóra bardaga í röð og hafði aldrei tapað á ferlinum, en var með 12 sigra. Þá mætti hann rísandi stjörnu, Jon Jones að nafni, og í annari lotu sigraði Jones hann með ‘guillotine’ hengingu. Í næsta bardaga mætti Bader Tito Ortiz og tapaði sömuleiðis með ‘guillotine’ hengingu. Hann á því þann vafasama heiður að vera eini bardagakappinn sem Ortiz hefur sigrað síðan hann sigraði Ken Shamrock 2006, en á þessum tíma hefur Ortiz tapað níu bardögum.

Bader er höggþungur og hefur sigrað sjö af 19 bardögum sínum með rothöggi eða tæknilegu rothöggi. Auk þess var hann sigursæll í bandarísku háskólaglímunni. Þetta tvennt mun reynast Perosh erfitt og er ljóst að þessi rimma er honum ekki sérlega hliðholl á blaði. Hins vegar sýndi hann það í bardaga sínum gegn Vinny Magalhaes að það getur verið hættulegt að vanmeta hann. Þá hefur Bader átt það til að vera kærulaus með varnir sínar standandi og hefur oftar en einu sinni lent í að vera rotaður eftir að hafa komið hlaupandi að andstæðing sínum, eitthvað sem góðir svo kallaðir ‘counter strikers’ nýta sér hiklaust.

Spá MMAfrétta: Þessi viðureign ætti að henta glímukappanum Bader vel og mun hann að öllum líkindum ná Perosh í gólfið. Þrátt fyrir að vera svartbeltingur hefur Perosh aldrei klárað andstæðing með uppgjafartaki af bakinu og hann mun ekki byrja á því gegn Bader. Möguleiki Perosh felst í að ná rothöggi á Bader.

 

Mauricio ‘Shogun’ Rua (21-8) gegn James Te Huna (16-6)

Shogun þarf vart að kynna fyrir aðdáendum MMA en hann er af mörgum talinn einn sá allra besti í léttþungavigtinni frá uppafi. Hann hefur rotað menn eins og Chuck Liddell, Forrest Griffin, Lyoto Machida og Alistair Overeem (tvisvar!). Shogun hugsar sjaldnast um að skora stig og er markmið hans augljóst: að rota andstæðinginn. Þetta sést glöggast á því að hann hefur aðeins sigrað tvisvar með dómaraúrskurði en 18 af 21 sigrum hans hafa komið með rothöggi. Þó að þetta skili sér í spennandi bardögum þá felst viss áhætta í því að berjast á þennan hátt.

Sem dæmi er ólíklegt að hann komi andstæðingum sínum á óvart, en áætlun hans í undanförnum bardögum hefur að mestu leiti falist í nokkuð villtum höggum og einstaka lágspörkum (e. low kicks). Þessi taktík hefur virkað vel á köflum en gagnrýnendur benda á að slík áætlun sé of einhæf til að virka í nútíma MMA. Shogun reynir sjaldan að fella andstæðing sinn og þrátt fyrir að vera með svart belti í BJJ hefur hann aðeins einu sinni sigrað með uppgjöf, með kneebar lás gegn Kevin Randleman árið 2006. Þessi einhæfni veldur því að andstæðingar hans þurfa litlar áhyggjur að hafa af fellum og uppgjöfum, sem gerir honum að sama skapi erfiðara fyrir að ná inn höggum og spörkum. Svipað dæmi má sjá hjá Quinton ‘Rampage’ Jackson, sem var nánast orðinn boxari í lok ferilsins – sparkaði aldrei og reyndi engar fellur.

Enginn skal þó vanmeta Shogun og það verður fróðlegt að sjá hvernig hann tæklar þennan bardaga. Te Huna hefur sýnt fram á veikleika í gólfglímunni en öll töp Te Huna nema eitt hafa verið vegna uppgjafartaks í fyrstu lotu.

Hér fyrir neðan má sjá rothögg Shogun gegn Chuck Liddell:

 

 

 

 

 

 

 

James Te Huna er nýsjálenskur bardagakappi sem æfir í Sydney, Ástralíu og verður því hálfgerður heimamaður í þessum bardaga. Te Huna er, líkt og Shogun, lítið fyrir að glíma og leitast helst eftir því að rota andstæðinginn og hefur hann sigrað 10 af 16 bardögum sínum með rothöggi. Te Huna er ekki sterkur í gólfglímunni en spurningin er hvort Shogun muni reyna á hann þar. Báðir þessir kappar töpuðu síðasta bardaga sínum með ‘guillotine’ hengingu, Te Huna gegn Glover Teixeira og Shogun gegn Chael Sonnen, svo mögulega munum við bara sjá standandi rimmu á milli þeirra. Te Huna hefur ekki enn verið rotaður í 22 bardögum og því gæti þetta reynst Shogun erfitt ef hann ákveður að halda bardaganum standandi. Það er einlæg von höfundar að Shogun ákveði að reyna á gólfglímuna og nái öðrum sigri sínum með uppgjafartaki á ferlinum. Það er þó líklegast óskhyggja og telja má líkur á því að þessi bardagi fari fram standandi.

Spá MMAfrétta: Bardaginn fer að öllum líkindum fram standandi og þar sigrar Te Huna. Ef Shogun ákveður að taka bardagann í gólfið sigrar hann með uppgjöf.

 

spot_img
spot_img
spot_img
Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular