Á laugardagskvöldið fer fram enn eitt frábæra UFC kvöldið. Að þessu sinni eru fjórir aðalbardaganir sýndir á Fox sjónvarpsstöðinni. Upphaflega átti Anthony Pettis að verja titilinn sinn gegn Josh Thomson en Pettist meiddist. Því miður þá meiddist Matt Brown einnig í síðustu viku og getur ekki barist við Carlos Condit en sá bardagi hefði geta orðið algjör veisla! Þrátt fyrir það eru þarna þessi skakkaföll eru þarna mjög flottir bardagar.
Urijah Faber (29-6) vs. Michael McDonald (16-2) – bantamvigt
Í næstsíðasta bardaga kvöldsins eigast við reynsluboltinn Urijah Faber og hinn ungi og efnilegi Michael McDonald.
McDonald telst til nýju kynslóðar MMA keppenda sem hafa alist upp með íþróttinni og æft hana frá unga aldri. Hann byrjaði að æfa kickbox 10 ára, MMA 14 ára og var orðinn atvinnumaður 16 ára. Hann hefur því verið að berjast í 10 ár, þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára og er með 18 atvinnumannabardaga á bakinu. McDonald er fær boxari og er sérlega höggþungur með hægri hendinni. Flestar árásir hans miða að því að búa til opnanir til þess að koma inn hægri krók eða upphöggi (e. uppercut). Flest rothögg hans koma sem gagnhögg þar sem hann bíður eftir því að andstæðingurinn sæki en svarar svo fyrir sig. Gott dæmi um þetta er rothögg hans gegn Miguel Torres:
Þrátt fyrir að hafa ekki glímt sem unglingur er McDonald enginn aukvissi á jörðinni. Hann er brúnbeltingur í BJJ og hefur stöðvað tæplega 60% allra fellutilrauna, en það er svipað hlutfall og andstæðingur hans Urijah Faber, sem er einna þekktastur fyrir góða glímuhæfileika. Það mun reyna á glímuna hjá McDonald gegn Faber og verður fróðlegt að sjá hvernig sú rimma fer.
Urijah Faber er 12 árum eldri en McDonald og hefur barist 35 bardaga sem atvinnumaður. Faber var WEC meistarinn og varði þann titil fimm sinnum. Faber hefur aldrei tapað bardaga sem er ekki titilbardagi, en öll sex töp hans hafa verið í bardögum um titilinn. Faber var síðast meistari árið 2008 en hefur síðan tapað fimm sinnum í titlbardaga og því má leiða líkur að því að Faber sé orðinn ansi hungraður í að verða meistari á ný.
Faber keppti í bandarísku háskólaglímunni í Division I. Árið 2004 stofnaði hann keppnisliðið Team Alpha Male. Auk Faber, æfa þar menn eins og Joseph Benavidez, Chad Mendes og TJ Dillashaw. Alpha Male kappar eru þekktir fyrir að berjast allir á nokkuð svipaðan hátt, en þeir eru flestir góðir glímukappar og klára marga bardaga með ‘guillotine’ eða ‘rear naked choke’ hengingum. Núverandi aðalþjálfari liðsins er Duane Ludwig og vilja margir meina að meðlimir Team Alpha Male séu nú mun hættulegri standandi eftir að hann bættist við hópinn, þar sem hann hefur innleitt meiri áherslu á kickbox.
Hér má sjá skemmtilega takta frá Faber gegn Ivan Menjivar, sem endar með ‘rear naked choke’ hengingu:
Spá MMAFrétta: Urijah Faber heldur áfram sigurgöngu sinni í bardögum sem eru ekki titilbardagar. Glímuhæfileikar hans reynast of miklir fyrir McDonald. Faber sigrar eftir dómaraákvörðun.
Demetrious Johnson (18-2-1) vs. Joseph Benavidez (19-3) – fluguvigt
Aðalbardagi kvöldsins átti upprunalega að vera titilbardagi í léttvigtinni þar sem Anthony Pettis átti að mæta Josh Tomson. Þegar Pettis meiddist var titilbardagi Johnson og Benavidez látinn koma í staðinn. Þessir kappar mættust í september 2012 í bardaga sem ákvarðaði fyrsta fluguvigtarmeistarann í UFC. Þann bardaga sigraði Johnson og hefur haldið titlinum síðan.
Benavidez er hluti af Team Alpha Male sem æfa í Sacramento, en þessi viðburður fer einmitt fram í Sacramento og því verða hann og æfingarfélagar hans Uriah Faber og Chad Mendes á hálfgerðum heimavelli. Benavidez hefur tapað þrisvar sinnum á ferlinum: tvisvar gegn bantamvigtarmeistara Dominick Cruz og einu sinni gegn Demetrious Johnson. Benavidez er töluvert höggþungur fyrir fluguvigtarmann en einnig góður í uppgjafartökum. Flestar uppgjafir hans hafa verið með ‘guillotine’ eða ‘rear naked choke’ hengingu eins og sannur Team Alpha Male meðlimur. Síðast þegar þessir tveir mættust var Johnson of hraður fyrir Benavidez, sem lenti oftar en ekki í því að sveifla út í loftið þar sem Johnson var löngu búinn að færa sig. Dæmi um þetta má sjá hér að neðan:
Í þetta sinn mun Duane Ludwig vera í horninu hjá Benavidez og verður að fróðlegt að sjá hvort það komi til með að hafa áhrif. Eins og áður sagði er Benavidez mjög höggþungur fyrir fluguvigtarmann og síðustu tveim bardögum hans lauk með rothöggum eftir skrokkhögg. Rothögg hans gegn Darren Uyenoyama má sjá hér:
Besti möguleiki Benavidez er að hitta Johnson með þungu höggi og klára bardagann þannig. Það er hins vegar auðveldara sagt en gert, þar sem Johnson er að öllum líkindum snöggasti bardagakappinn í UFC í augnablikinu.
Demetrious ‘Mighty Mouse’ Johnson er ekki meistari af ástæðulausu. Hann er einstaklega snöggur, með frábæra fótavinnu og er af mörgum talinn vera einn sá allra besti í að tímasetja fellur. Dæmi um það má sjá úr fyrri Benavidez bardaganum.
Annað dæmi um hve fljótt Johnson skiptir yfir í fellu má sjá í bardaga hans við Kid Yamamoto.
Johnson er fær glímumaður og keppti í bandarísku háskólaglímunni, en velgengni hans í MMA kemur fyrst og fremst til vegna þess hve vel hann blandar saman öllum þáttum MMA: hann er góður boxari með frábæra fótavinnu, góður glímumaður og hefur einnig klárað bardaga með spörkum, eins og sjá má hér:
Einn helsti styrkleiki Johnson er auk þess úthaldið. Titilbardagar eru 5 lotur, eða 25 mínútur og Johnson heldur nánast sama hraða allan bardagann. Í síðasta bardaga Johnson og Benavidez var Benavidez farinn að hægja á sér í lotu 4 og 5, en Johnson leit út fyrir að vera óþreyttur. Það má búast við því að þetta verði herslumunurinn; þ.e. að Johnson muni geta haldið áfram á háu tempói síðustu 10 mínúturnar þegar Benavidez er farinn að hægja á sér.
Spá MMAFrétta: Benavidez og Johnson hafa aldrei verið rotaðir né tapað með uppgjöf í samanlagt 43 bardögum. Johnson er einfaldlega of fjölhæfur fyrir Benavidez og sigrar á stigum.
Fyrir áhugasama er hægt að horfa á fyrri bardaga Johnson og Benavidez í heild sinni hér: