Síðasta bardagakvöld ársins hjá UFC fór fram í kvöld í Las Vegas. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Stephen Thompson og Geoff Neal en hér má sjá úrslit kvöldsins.
Hinn 37 ára Stephen Thompson virðist vera síungur og er ennþá meðal þeirra bestu í veltivigtinni. Thompson átti frábæra frammistöðu gegn Geoff Neal og vann allar loturnar.
Bardaginn var skemmtilegur en í 1. lotu skullu höfuð þeirra saman og fengu báðir skurð á slæmum stað. Thompson hélt sér í góðri fjarlægð yfir loturnar fimm og raðaði inn fjölda högga í Neal. Neal átti sín augnablik en Thompson hitti meira. Neal átti séns í 5. lotu þegar Thompson meiddist á hné í 4. lotu sem dró úr hreyfanleika hans. Neal náði þó ekki að gera nóg enda þreytan farin að segja til sín.
Jose Aldo mætti Marlon Vera í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Aldo átti frábæra fyrstu lotu og lenti góðum skrokkhöggum. Vera var betri í 2. lotu og var augnablikið með honum fyrir síðustu lotuna. Vera var aðeins of ákáfur í 3. lotu og náði Aldo fellu snemma í lotunni. Aldo hélt sér á bakinu á Vera alla 3. lotuna eins og bakpoki og vann því eftir dómaraákvörðun.
Rob Font átti eina bestu frammistöð kvöldsins þegar hann kláraði Marlon Moraes í 1. lotu. Þetta var annað tap Moraes í röð eftir rothögg og virðist hann vera í frjálsu falli.
Marcin Tybura var í veseni í 1. lotu gegn Greg Hardy en í 2. lotu náði hann fellu og komst ofan á. Tybura fór strax að kýla Hardy og lenti mörgum höggum strax. Hardy gerði lítið til að komast upp og stöðvaði dómarinn bardagann í 2. lotu. Öll úrslit kvöldsins má sjá hér að neðan.
Aðalhluti bardagakvöldsins:
Veltivigt: Stephen Thompson sigraði Geoff Neal eftir dómaraákvörðun (50-45, 50-45, 50-45).
Bantamvigt: José Aldo sigraði Marlon Vera eftir dómaraákvörðun (29–28, 29–28, 29–28).
Veltivigt: Michel Pereira sigraði Khaos Williams eftir dómaraákvörðun (29–28, 29–28, 29–28).
Bantamvigt: Rob Font sigraði Marlon Moraes með tæknilegu rothöggi (punches) eftir 3:47 í 1. lotu.
Þungavigt: Marcin Tybura sigraði Greg Hardy með tæknilegu rothöggi (punches) eftir 4:31 í 2. lotu.
ESPN / ESPN+ upphitunarbardagar:
Veltivigt: Anthony Pettis sigraði Alex Morono eftir dómaraákvörðun.
Bantamvigt kvenna: Pannie Kianzad sigraði Sijara Eubanks eftir dómaraákvörðun.
Hentivigt (195 pund): Deron Winn sigraði Antônio Arroyo eftir dómaraákvörðun.
Fluguvigt kvenna: Taila Santos sigraði Gillian Robertson eftir dómaraákvörðun.
Millivigt: Tafon Nchukwi sigraði Jamie Pickett eftir dómaraákvörðun.
Fluguvigt: Jimmy Flick sigraði Cody Durden með uppgjafartaki (flying triangle choke) eftir 3:18 í 1. lotu.
Hentivigt (160 pund): Christos Giagos sigraði Carlton Minus eftir dómaraákvörðun.