Yoel Romero var í gær dæmdar 27 milljónir dollara í skaðabætur frá fæðubótarefnaframleiðandanum Gold Star.
Yoel Romero féll á lyfjaprófi í desember 2015 og átti yfir höfði sér tveggja ára bann. Honum tókst hins vegar að sýna fram á að ólöglega efnið hefði komið úr fæðubótarefni frá Gold Star. USADA gaf honum því aðeins sex mánaða bann þar sem rannsókn þeirra leiddi í ljós að efnið hefði komið úr menguðu fæðubótarefni. Ólöglega efnið var ekki á innihaldslýsingunni á fæðubótarefninu og fór Romero í mál við Gold Star í desember 2017.
Gold Star svaraði aldrei Romero og lét ekki sjá sig í réttarsalnum. Dómstóllinn í New Jersey dæmdi Romero 27,45 milljónir dollara (3,4 milljarðar íslenskra króna) í skaðabætur sem Gold Star þarf að greiða. Romero varð fyrir tekjumissi á meðan hann var í banninu og var mannorð hans svert.
Abe Kawa, umboðsmaður Romero, sagði við ESPN að hann efast um að Romero fái allar 27,45 milljónirnar þar sem Gold Star hefur ekki látið sjá sig. Kawa telur að Romero muni engu að síður fá um fimm milljónir dollara (623,6 milljónir íslenskra króna).
Romero hefur ekki barist síðan hann tapaði fyrir Robert Whittaker í júní 2018. Romero á að berjast við Paulo Costa á UFC 241 í ágúst.