spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2017

Árið hefur farið nokkuð hægt í gang fyrir utan frábæran bardaga Gunnars Nelson í mars. Apríl mánuður ætti hins vegar að vera fjörugur mánuður með þremur góðum UFC kvöldum sem öll hafa upp á margt að bjóða.

Í Bellator verða auk þess þrír titilbardagar. Eduardo Dantas ver beltið sitt í bantamvigt gegn Leandro Higo, Rafael Carvalho ver beltið í millivigt gegn Melvin Manhoef og Daniel Straus ver betlið í fjaðurvigt gegn Patricio Pitbull en þetta verður fjórði bardaginn á milli þeirra. Þrátt fyrir allt þetta er fókusinn á UFC.

10. UFC Fight Night 108, 22. apríl – John Dodson gegn Eddie Wineland (bantamvigt)

Byrjum á flottum bardaga á milli tvegggja topp 10 bardagamanna í bantamvigt. Bardaginn er fyrst og fremst mikilvæg stöðubarátta fyrir báða en sigur kemur þeim upp listann og í stærri bardaga. Stílarnir tryggja góða skemmtun en báðir vilja standa og rota andstæðinga sína og gera það oftar en ekki.

Spá: Hraði Dodson skilar honum sigri, rothögg í fyrstu lotu.

9. UFC Fight Night 108, 22. apríl – Joe Lauzon gegn Stevie Ray (léttvigt)

Joe Lauzon er alltaf „must see TV“. Hann verður sennilega aldrei meistari en bardagar hans eru oftar en ekki bestu bardagar kvöldsins. Andstæðingurinn að þessu sinni er Skotinn vinsæli Stevie ‘Braveheart’ Ray sem sigraði Ross Pearsson í nóvember. Þessi kallar á popp og kók.

Spá: Ray kemur á óvart með sigri í bardaga þar sem báðir menn þurfa á öllu sínu að halda.

8. UFC Fight Night 108, 22. apríl – Cub Swanson gegn Artem Lobov (fjaðurvigt)

Þá er komið að stóru stund Artem Lobov sem er best þekktur fyrir að vera æfingafélagi og vinur Conor McGregor. Lobov leit vel út í Belfast í sínum síðasta bardaga þar sem hann sigraði hinn litríka Teruto Ishihara örugglega. Nú fær Lobov, sem er ekki á styrkleikalista UFC, talsvert stærra verkefni gegn sjálfum Cub Swanson sem er númer fjögur á listanum. Á hann einhvern möguleika?

Spá: Lobov er harður og fínn boxari en það verður ekki nóg til að sigra Swanson. Swanson sigrar örugglega á stigum.

7. UFC Fight Night 108, 22. apríl – Al Iaquinta gegn Diego Sanchez (léttvigt)

‘Raging’ Al Iaquinta ber nafn með rentu. Síðast þegar við sáum hann hafði hann nælt sér í umdeildan sigur gegn Jorge Masvidal og reiddist mikið þegar baulað var á hann af áhorfendum sem voru ósammála dómaraákvörðuninni. Nú er um tvö ár liðin og honum vonandi runnin reiðin. Andstæðingur hans að þessu sinni er annar tilfinningabolti sem á rætur að rekja til The Ultimate Fighter þáttanna líkt og Iaquinta. Þessi bardagi verður stríð.

Spá: Iaquinta boxar Sanchez í sundur með mun nákvæmari höggum þar til dómarinn stöðvar blóðbaðið í þriðju lotu.

6. UFC on Fox 24, 15. apríl – Rose Namajunas gegn Michelle Waterson (strávigt kvenna)

Þetta er frábær bardagi í strávigt kvenna. Báðar konur eru með mjög skemmtilegan stíl og báðar eru í topp 10 í þyngdarflokknum. Namajunes er þekktari stærð en ‘Karate Hottie’ er á góðri leið með að verða stjarna. Báðar rústuðu Paige VanZant og báðar eiga framtíðina fyrir sér. Hvor þeirra tekur skref fram á við á þessum tímapunkti ferilssins?

Spá: Báðar eru góðar allstaðar svo þetta ætti að verða fjörugur bardagi. Rose Namajunes nær þó að klára bardagann í annarri lotu með armlás.

5. UFC 210, 8. apríl – Charles Oliveira gegn Will Brooks (léttvigt)

Fyrrverandi léttvigtarmeistarinn í Bellator, Will Brooks, tapaði óvænt í hans síðasta bardaga gegn Alex ‘Cowboy’ Oliveira. Nú mætir hann öðrum Oliveira, mögulega enn betri Oliveira svo það er spurning hvort á honum hvíli einhvers konar Oliveira bölvun. En svona í alvöru þá er þetta mjög áhugaverður bardagi og á pappír mjög jafnt. Charles Oliveira er að þyngja sig upp úr fjaðurvigt eftir óteljandi misheppnaðar tilraunir við að ná vigt svo það er ákveðið spurningarmerki.

Spá: Brooks mun fara í felluna og ganga vel þar til Oliveira læsir hann í „inverted calf-slicer“ og sigrar.

4. UFC on Fox 24, 15. apríl – Demetrious Johnson gegn Wilson Reis (fluguvigt)

Enn ein titilvörnin hjá Demetrious Johnson gegn óæðri andstæðing, ekkert merkilegt er það nokkuð? Það er ekki rangt en það sem er merkilegt við þennan bardaga er að með sigri jafnar Johnson met Anderson Silva með því að verja beltið 10 sinnum. Það er því mikil pressa og Wilson Reis er enginn aumingi.

Spá: Johnson tekur þetta örugglega að vanda, á stigum að þessu sinni.

3. UFC on Fox 24, 15. apríl – Ronaldo Souza gegn Robert Whittaker (millivigt)

Síðan Robert Whitaker tapaði fyrir Stephen Thomspon árið 2014 í veltivigt hefur hann verið á rosalegu skriði. Hann hefur sigrar sex andstæðinga í röð, hvern öðrum betri, en nú fyrst kemur í ljós hvort hann eigi heima með þeim allra bestu í þyngdarflokknum. Í 21 bardaga hefur Whittaker aldrei mætt neinum eins og Ronaldo ‘Jacare’ Souza.

Spá: Souza reynist of stór biti fyrir Whitaker. Krókódíllinn læsir klónum í Ástralann í annarri lotu og sigrar með uppgjafartaki.

2. UFC 210, 8. apríl – Chris Weidman gegn Gegard Mousasi (millivigt)

Fyrir um tveimur árum var Chris Weidman ósigraður og óumdeildur meistari í millivigt. Tveimur töpum síðar er hann kominn í þá stöðu að þurfa nauðsynlega á sigri að halda. Andstæðingurinn er alveg á hinum endanum. Reynsluboltinn Gegard Mousasi hefur unnið fjóra bardaga í röð og hefur sennilega aldrei verið nær titilbardaga en einmitt núna.

Spá: Weidman er líklegri en það má ekki vanmeta Mousasi. Segjum Weidman með sigur á stigum.

1. UFC 210, 8. apríl – Daniel Cormier gegn Anthony Johnson (léttþungavigt)

Í fjarveru Jon Jones er þetta BARDAGINN í léttþungavigt. Þessir kappar mættust fyrst árið 2015. Í þeim bardaga náði Johnson að meiða DC snemma en svo tók Cormier yfirhöndina með sínum kæfandi glímustíl og kláraði bardagann í þriðju lotu með „rear-naked choke“. Allir vita hvað báðir vilja gera en spurningin er, nær Cormier að lifa af fyrstu lotuna orðinn 38 ára gamall?

Spá: Margir virðist ætla að velja Johnson í þetta skipti en ég hallast frekar að endurtekningu frá fyrsta bardaganum. DC notar glímuna og klárar bardagann með höggum á gólfinu í fjórðu lotu og mætir Jon Jones í haust.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular