spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í desember 2020

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í desember 2020

Desember mánuður er genginn í garð og verður glæsilegur í MMA heiminum. Einn besti bardagi mánaðarins féll niður í gær en mánuðurinn er engu að síður góður.

UFC er með þrjú bardagakvöld í mánuðinum. Aldrei þessu vant er eitt af þessum minni Fight Night kvöldum betra heldur en Pay Per View kvöld mánaðarins. Bellator er með eitt bardagakvöld í mánuðinum sem er ekkert stórkostlegt og ONE er með tvö kvöld. Á ONE kvöldinu ber helst að nefna að Garry Tonon berst í mánuðinum og það er alltaf áhugavert. Cage Warriors er með þrjú bardagakvöld – þrjú kvöld í röð þann 10., 11. og 12. desember. UFC á þó flesta áhugaverðustu bardaga mánaðarins.

Eins og við greindum frá í gær þá var Leon Edwards greindur með kórónuveiruna og er bardagi hans við Khamzat Chimaev ekki lengur á dagskrá í desember.

10. Ronaldo ‘Jacare’ Souza gegn Kevin Holland (UFC 256, 12. desember)

Á þessari stundu er alls óvíst að þessi bardagi geti farið fram en UFC hefur í það minnsta opinberað þennan bardaga á UFC 256. Um síðustu helgi greindist Kevin Holland með kórónuveiruna og var fjarlægður úr bardaga sínum við Jack Hermansson um helgina. UFC hefur engu að síður bókað hann í bardaga gegn Jacare viku eftir að hann átti að berjast. Þetta verður engu að síður mjög áhugaverður bardagi og ekta „striker vs. grappler“ bardagi.

Spá: Jacare hefur aðeins fatast flugið upp á síðkastið en er ennþá góður. Jacare vinnur með uppgjafartaki í 1. lotu.

9. Michel Pereira gegn Khaos Williams (UFC Fight Night: Thompson vs. Neal, 19. desember)

Þessi verður einhver geðveiki, það er alveg ljóst. Pereira er langt frá því að vera hefðbundinn og venjulegur bardagamaður. Hann stóð sig vel í síðasta bardaga og gæti verið að finna sig aðeins í UFC. Khaos Williams er 2-0 í UFC og búinn að vinna báða bardagana á samanlagt 57 sekúndum. Hann lofar ansi góðu og ef þessi stendur undir væntingum verður 100% fjör fyrir áhorfendur.

Spá: Pereira byrjar vel en Khaos stendur þetta af sér. Khaos nær síðan rothöggi í 2. lotu.

8. Marlon Moraes gegn Rob Font (UFC Fight Night: Thompson vs. Neal, 19. desember)

Rob Font fær hér stórt tækifæri gegn fyrrum titiláskorenda. Font hefur unnið tvo bardaga í röð en Moraes hefur ekki verið upp á sitt besta í síðustu bardögum. Font getur komið sér á topp 5 í flokknum með sigri en Moraes ætlar að halda sinni stöðu þar.

Spá: Moraes reynist of stór biti fyrir Font. Moraes klárar hann með tæknilegu rothöggi í 2. lotu.

7. Mackenzie Dern gegn Virna Jandiroba (UFC 256, 12. desember)

Þetta verður hörku bardagi í strávigt kvenna þegar þessar tvær brasilísku bardagakonur mætast. Jandiroba er fyrrum meistari í Invicta en eftir tap í frumraun sinni í UFC hefur hún unnið tvo bardaga í röð og gert vel. Jandiroba er svart belti í brasilísku jiu-jitsu og er með 13 sigra eftir uppgjafartök. Dern er ein besta gólfglímukona heims og hefur litið vel út í síðustu tveimur bardögum. Dern er með talsvert betri ferilskrá í BJJ heldur en Jandiroba en hvor er með betri MMA glímu?

Spá: Jandiroba er með meiri reynslu í MMA og nær að halda sér standandi. Jandiroba vinnur efitr dómaraákvörðun.

6. Jack Hermansson gegn Marvin Vettori (UFC on ESPN: Hermansson vs. Vettori, 5. desember)

Upphaflega átti Hermansson að mæta Darren Till en Bretinn meiddist. Kevin Holland kom síðan í hans stað en hann greindist með kórónuveiruna um siðustu helgi. Því kemur Marvin Vettori inn með viku fyrirvara en Vettori átti upphaflega að mæta Jacare viku síðar. Þetta er búið að vera mikil hringavitleysa fyrir Hermansson en þetta er engu að síður afar mikilvægur bardagi fyrir hann og millivigtina. Hermansson þarf að vinna til að halda sér í toppbaráttunni í millivigtinni.

Spá: Hermansson vinnur eftir uppgjafartak í 2. lotu og Vettori fer aftar í röðina.

5. Jose Aldo gegn Marlon Vera (UFC Fight Night: Thompson vs. Neal, 19. desember)

Það er pínu sérstakt að Jose Aldo sé í fyrsta bardaganum á aðalhluta bardagakvöldsins og það á Fight Night kvöldi. Staðreyndin er þó sú að Aldo hefur tapað þremur bardögum í röð þó það hafi allt verið gegn sterkum andstæðingum. Marlon Vera er síðan sjóheitur eftir sigurinn á Sean O’Malley í september og getur heldur betur komið sér í titilumræðuna með sigri.

Spá: Vera er hungraður, yngri, ferskari og bara mun beittari en Aldo. Vera vinnur eftir dómaraákvörðun í jöfnum bardaga.

4. Ciryl Gane gegn Junior dos Santos (UFC 256, 12. desember)

Ciryl Gane hefur ekki enn barist á þessu ári en tók þrjá bardaga á fjórum mánuðum í fyrra. Gane hefur verið óheppinn en er ennþá mesta efnið í þungavigtinni í dag. Hann fær risastórt próf gegn Junior dos Santos sem hefur tapað þremur bardögum í röð.

Spá: Þetta er stórt stökk fyrir Gane en hann mun standa sig vel gegn reynsluboltanum og vinna eftir dómaraákvörðun.

3. Stephen Thompson gegn Geoff Neal (UFC Fight Night, Edwards vs. Chimaev, 19. desember)

Eins og staðan er núna verður þetta aðalbardagi kvöldsins þann 19. desember eftir að Leon Edwards fékk Covid. Thompson hefur sýnt að hann er enn með þetta 37 ára gamall en hefur ekkert barist á þessu ári. Geoff Neal er einn sá mest spennandi í veltivigtinni í dag og fær hér risastórt próf.

Spá: Þetta er stórt stökk fyrir Neal en ég held að karate strákurinn sé ennþá með þetta. Thompson eftir dómaraákvörðun.

2. Tony Ferguson gegn Charles Oliveira (UFC 256, 12. desember)

Loksins fær Charles Oliveira stóran bardaga. Tony Ferguson er mögulega búinn sem einn af þeim allra bestu í léttvigtinni en er sennilega á meðal fimm bestu ennþá. Oliveira hefur klárað sjö bardaga í röð og verið hreinlega geggjaður á síðustu árum. Þessi verður gríðarlega spennandi!

Spá: Oliveira er góður en hann hefur sýnt að hann getur brotnað. Eftir smá bras í byrjun mun Ferguson brjóta hann niður og klára í 3. lotu.

1. Deiveson Figueiredo gegn Brandon Moreno (UFC 256, 12. desember)

Figueiredo snýr aftur með aðeins þriggja vikna millibili. Ótrúlegt hjá ríkjandi meistara. Moreno er líka að snúa aftur eftir að hafa barist þann 21. nóvember og verður þetta hörku bardagi. Stóra spurningin er hvernig Figueiredo gengur að ná vigt aftur þegar hann var að skera niður fyrir skömmu síðan.

Spá: Ef Figueiredo getur náð vigt vandræðalaust þá vinnur hann. Figueiredo með tæknilegt rothögg í 2. lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular