spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í janúar 2020

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í janúar 2020

Janúar er dimmur og kaldur en það er þó eitthvað ljós í myrkrinu. Stærsta stjarna íþróttarinnar snýr aftur um miðjan mánuðinn og margir ungir og efnilegir fá erfiða andstæðinga. Auk þess mætir Cyborg til leiks í Bellator. Förum yfir þetta!

10. UFC 246, 18. janúar – Holly Holm gegn Raquel Pennington (bantamvigt kvenna)

Það er kominn tími á smá endurnýjun í bantamvigt kvenna en þessi bardagi breytir ekki miklu. Þetta er endurat af frekar óspennandi bardaga sem átti sér stað árið 2015. Er einhver þörf á þessum bardaga? Erfitt að segja en hér kemur hann. Báðar þessar konur eru í topp fimm í þyngdarflokknum þó svo að Holm hafi aðeins unnið tvo af síðustu sjö bardögum sínum.

Spá: Holm tekur þetta á stigum.

9. UFC 246, 18. janúar – Andre Fili gegn Sodiq Yusuff (fjaðurvigt)

Sodiq Yusuff er spennandi efni í fjaðurvigt. Hann er rotari með hraðar og nákvæmar hendur en hann þarf meiri reynslu og Andre Fili er mjög gott próf sem gæti hæglega orðið of erfitt. Fili er nokkuð vanmetinn bardagamaður í fjaðurvigt sem ætti kannski að fá meiri virðingu. Það verður gaman að sjá hvað hann gerir á móti ungu ljóni eins og Yusuff.

Spá: Þetta verður standandi stríð en ég ætla að veðja á reynsluna. Fili sigrar með TKO í lotu þrjú.

8. UFC 246, 18. janúar – Nasrat Haqparast gegn Drew Dober (léttvigt)

Hér kemur svo annar ungur og efnilegur. Nasrat Haqparast er 24 ára strákur frá Tristar í Kanada sem hefur litið hrikalega vel út undanfarið. Drew Dober er sterkur glímumaður og góð prófraun fyrir mögulega framtíðar stjörnu.

Spá: Haqparast sigrar á stigum.

7. UFC Fight Night 166, 25. janúar – Josh Emmett gegn Arnold Allen (fjaðurvigt)

Enn einn ungur og efnilegur. Arnold Allen er 25 ára, líka úr Tristar og ósigraður í sex bardögum í UFC. Allen sigraði Gilbert Melendez í júlí og fær nú Emmett sem ætti að verða mjög áhugavert. Emmett getur slegið en hann er búinn að rota Ricardo Lamas, Michael Johnson og Mirsad Bektić.

Spá: Allen sigrar með uppgjafartaki í annarri lotu.

6. UFC 246, 18. janúar –  Roxanne Modafferi gegn Maycee Barber (fluguvigt kvenna)

Þá er það hin ósigraða 21 árs Maycee Barber sem er á góðri leið með að verða stjarna. Barber er búin að rota fimm andstæðinga í röð, síðast Gillian Robertson í október. Modafferi er þekktari stærð en hún er með 39 bardaga á bakinu og er orðin 37 ára. Þetta er því aftur æskan og reynslan sem mætast.

Spá: Höldum okkur við æskuna. Það er samt erfitt að klára Roxanne, Barber sigrar á stigum.

5. UFC 246, 18. janúar – Anthony Pettis gegn Carlos Diego Ferreira (léttvigt)

Síðustu fjögur ár hefur Anthony Pettis verið að vinna og tapa til skiptis. Hann virðist vera á niðurleið en kemur þó enn með frábær tilþrif annað slagið eins og þegar hann rotaði Stephen Thompson í fyrra. Pettis tapaði síðast svo það þýðir að hann vinnur núna. Eða hvað? Ferreira er ekki beint hátt skrifaður en hann hefur þó verið að bæta sig undanfarið með sigrum gegn Rustam Khabilov og Mairbek Taisumov. Ekki gaur sem má vanmeta.

Spá: Pettis skemmir munstrið og tapar. Ferreira sigrar á stigum.

4. UFC Fight Night 166, 25. janúar – Curtis Blaydes gegn Junior dos Santos (þungavigt)

Curtis Blaydes hefur verið að valta yfir alla í þungavigt sem heita ekki Francis Ngannou undanfarin ár. Hér ræðst hann á fyrrverandi meistara sem er enn mjög hættulegur þrátt fyrir nokkuð háan aldur (35). Blaydes hefur verið að stunda „ground and pound“ undanfarið en getur hann gert það á móti reynslubolta eins og JDS?

Spá: JDS rifjar upp gamla tíma, verst fellum og rotar Blaydes í fyrstu lotu.

3. UFC Fight Night 166, 25. janúar – Rafael dos Anjos gegn Michael Chiesa (veltivigt)

RDA hefur átt svolítið erfitt undanfarið. Hann hefur tapað þremur af síðastu fjórum bardögum og þarf virkilega að minna á sig. Chiesa er ekki beint auðveldur andstæðingur. Hann er stór og gæti staðið í RDA í glímunni en hver vinnur glímustríðið? Chiesa er góður glímumaður en hann tapaði fyrir Kevin Lee á gólfinu. RDA vann aftur á móti Lee á gólfinu en auðvitað virkar ekki MMA stærðfræði.

Spá: RDA sigrar með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

2. Bellator 238, 25. janúar – Julia Budd gegn Cris Cyborg (fjaðurvigt kvenna)

Cyborg er mætt í Bellator og fer auðvitað beint í meistarann – hvað annað? Julia Budd er alvöru andstæðingur en hún hefur ekki tapað síðan 2011, þá gegn Rondu Rousey. Budd vann titilinn í Bellator árið 2017 og hefur varið hann þrisvar. Þetta er því alls ekki auðveldur andstæðingur fyrir Cyborg.

Spá: Budd er góð en Cyborg er Cyborg. Cyborg sigrar, TKO í lotu 2.

1. UFC 246, 18. janúar – Conor McGregor gegn Donald Cerrone (veltivigt)

Þetta verður vægast sagt áhugaverður bardagi sem mun segja okkur mikið um stöðu Conor McGregor í dag. Eins og staðan er núna vitum við nánast ekki neitt. Í hvernig bardagaformi er Conor þessa dagana? Hvernig líður honum andlega? Er hann að fara að mæta til leiks kokhraustur eða auðmjúkur? Ef hann vinnur, mun hann nefna Khabib eða Masvidal? Cerrone er fullkominn andstæðingur. Hann er vel þekktur og vinsæll, góður en kominn yfir sitt besta og með skemmtilegan bardagastíl.  Svo margar spurningar í kringum þennan bardaga, vonandi fáum við svörin.

Spá:  Það er freistandi að spá Cerrone en ég ætla samt að taka Conor, KO lota 1.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular