Nóvember er spennandi mánuður í MMA heiminum, fyrst og fremst út af UFC 244 sem er hlaðið góðum bardögum og svo er auðvitað BMF titillinn í boði.
10. Bellator London 2, 23. nóvember – Michael Page gegn Derek Anderson (veltivigt)
Michael Page þurfti að þola sitt fyrsta tap á ferlinum þegar hann tapaði fyrir Douglas Lima í maí. Í september snéri hann aftur með geggjað fyrstu lotu rothögg og núna er hann mættur aftur gegn lítið þekktum andstæðingi, Derek Anderson, með bardagaskorið 16-3.
Spá: Page gerir það sem Page gerir, sigrar með rothöggi í 2. lotu.
9. UFC 244, 2. nóvember – Derrick Lewis gegn Blagoy Ivanov (þungavigt)
Derrick Lewis er alltaf skemmtileg viðbót á öllum UFC kvöldum, sama hverjum hann mætir. Ivanov virkar kannski ekki spennandi andstæðingur en hann tapar bara fyrir þeim bestu og er þannig góð mælistika í þungavigt. Ef Lewis ætlar að halda sér í topp baráttunni þarf hann að minna á sig eftir tvö töp í röð.
Spá: Lewis sigrar á stigum eftir mikið más og blás.
8. UFC Fight Night 163, 9. nóvember – Greg Hardy gegn Alexander Volkov (þungavigt)
Harðir MMA aðdáendur hafa kvartað undan að Greg Hardy hafi verið haldið í bómull í UFC. Það verður þó að hafa í huga að kappinn byrjaði að berjast árið 2017 og hefur samtals barist sjö sinnum, núna síðast í október. Það kom því öllum á óvart þegar tilkynnt var að hann myndi mæta Rússanum Alexander Volkov í Moskvu núna í nóvemer. Hvernig sem þetta fer er ekki hægt að segja að Hardy sé að fá of auðvelda andstæðinga lengur.
Spá: Volkov tekur Hardy í kennslustund, TKO í þriðju lotu.
7. UFC 244, 2. nóvember – Corey Anderson gegn Johnny Walker (léttþungavigt)
Johnny Walker er einn mest spennandi nýliðinn í UFC. Hann er búinn að afgreiða alla þrjá andstæðinga sína í UFC á samtals tæpum þremur mínútum og við getum ekki beðið eftir næsta. Núna um helgina fær hann sitt erfiðasta próf til þessa. Corey Anderson er sterkur glímumaður sem sjálfur hefur unnið þrjá í röð og er nr. 7 á styrkleikalista UFC.
Spá: Segjum bara að Walker haldi áfram uppteknum hætti og roti Anderson í fyrstu lotu.
6. UFC Fight Night 164, 16. nóvember – Jan Błachowicz gegn Ronaldo Souza (léttþungavigt)
Ronaldo ‘Jacare’ Souza er enn einn millivigtarinn sem lætur reyna á léttþungavigt. Jacare er nú orðinn 39 ára gamall og mætir einmitt sama náunganum sem kjálkabraut Luke Rockhold í júlí. Souza er alltaf með glímuna í bakhöndinni en mun það duga gegn stóru strákunum?
Spá: Svarið er nei, Błachowicz rotar Souza í fyrstu lotu.
5. UFC 244, 2. nóvember – Stephen Thompson gegn Vicente Luque (veltivigt)
Þessi gullmoli er enn eitt kryddið á tryllt bardagakvöld í New York. Vicente Luque er búinn að standa sig vel undanfarið en hann hefur unnið sex bardaga í röð og fær nú tækifæri gegn topp tíu andstæðingi. Thompson þarf ekki að kynna en hann er erfið prófraun fyrir alla í veltivigt. Eins góður og Thompson er þá hefur hann aðeins unnið einn bardaga í síðustu fimm viðureignum.
Spá: Thompson útboxar Luque og sigrar á stigum.
4. UFC 244, 2. nóvember – Kevin Lee gegn Gregor Gillespie (léttvigt)
Það eru margir spenntir fyrir Gregor Gillespie og af góðri ástæðu. Hann er 6-0 í UFC og hefur klárað síðustu fimm andstæðinga. Gillespie er fjórfaldur NCAA Division I All-American glímumaður og gæti gert stóra hluti á næstu árum. Kevin Lee ætti að veita honum gott próf og gæti mögulega veitt honum fyrsta tapið.
Spá: Gillespie hefur betur í glímunni og sigrar örugglega á stigum.
3. UFC 244, 2. nóvember – Kelvin Gastelum gegn Darren Till (millivigt)
Frægðarsól Darren Till hefur lækkað talsvert eftir tvö slæm töp gegn Tyron Woodley og Jorge Masvidal. Nú fer hann upp í millivigt og beint í djúpu laugina gegn Kelvin Gastelum sem hefur fest sig í sessi sem einn af þeim bestu í þyngdarflokknum. Hversu góð hugmynd það er verður að koma í ljós.
Spá: Till byrjar vel en Kelvin pressar og rotar Till í annarri lotu.
2. UFC Fight Night 163, 9. nóvember – Zabit Magomedsharipov gegn Calvin Kattar (fjaðurvigt)
Þessi bardagi átti að vera í Boston fyrir stuttu en var færður af til Rússlands, heimavöllurinn færðist því frá Calvin til Zabit. Á pappírunum er þetta frábær bardagi. Báðir þessir kappar hafa verið hrikalega flottir undanfarið og eru líklegir í toppbaráttuna næstu árin.
Spá: Kattar er góður en það er erfitt að spá gegn Rússanum. Zabit tekur þetta á uppgjafartaki í þriðju lotu.
1. UFC 244, 2. nóvember – Jorge Masvidal gegn Nate Diaz (veltivigt)
Hver er mesti BMF í UFC, það er víst spurningin í þessum bardaga? Þetta er skemmtileg sölubrella en það sem skiptir máli er bardaginn. Sem betur fer eru báðir þessi menn ávísun á góðan bardaga og útkoman ætti að verða fjörug. Bardaginn fer fram í veltivigt en báðir hafa barist í bæði léttvigt og veltivigt svo það ætti ekki að skipta of miklu máli. Hættum þessu kjaftæði og keyrum þetta í gang!
Spá: Eftir fjórar skemmtilegar lotur tekur Masvidal BMF beltið, bardagi stöðvaður af lækni vegna skurðar. Diaz alveg brjálaður.