Önnur umferð af þremur í Vorbikarmótaröð Hnefaleikasambandsins fór fram um helgina í húsakynnum HFH og heyrðust orðrómar um að þetta gæti hafa verið síðasta mótið sem haldið verður í Dalshrauni 10.
Nóel Freyr Ragnarsson sigraði Viktor Zoega
Margar hörku viðureignir voru á dagskrá og var mikil spenna og eftirvænting fyrir bardaganum milli Nóels Freys Ragnarssonar og Viktors Zoega sem voru að mætast núna í elite flokki en þeir höfðu áður mæst á Icebox meðan Nóel var ennþá í u17 ára flokki. Nóel hafði unnið fyrri bardagann á Icebox en sú viðureign var hnífjöfn. Nóel Freyr hefur verið að taka stór stökk fram á við og sýnt stöðugar bætingar frá bardaga til bardaga og um helgina stimplaði hann sig sterkt inní elite flokkinn með frábærri frammistöðu og átti Viktor Zoega mun erfiðara með að eiga við hann núna en í fyrri bardaganum. Fyrsta lotan var jöfn en yfirburðir Nóels komu meira og meira í ljós og virtist meira í gastanknum hans þegar leið á bardagann. Ekki mörg högg Viktors lentu hreint og þegar þau gerðu það náði Nóel yfirleitt að svara því og gott betur. Nóel sigraði með einróma dómaraákvörðun og sendi sterk skilaboð til annarra manna í 70kg þyngdarflokknum. Viktor Zoega mætir svo Teiti Þóri Ólafssyni liðsfélaga Nóels í 3. umferð eftir 2 vikur.
Alejandro Cordova Cervera sigraði Mihail Fedorets
Einn af betri bardögum dagsins var viðureign Alejandro Cordova Cervera og Mihail Fedorets sem lögðu allt í sölurnar og fóru í algjört stríð. Alejandro byrjaði bardagann vel og hitti nokkrum góðum höggum í fyrstu lotu og náði að verjast flestum árásum Mihail. Mihail kom þó tvíelfdur inn í 2. lotu, og eftir að hafa verið meira bakkandi undan Alejandro í 1. lotu, fór að pressa á hann með góðum árangri. Mihail náði að pressa Alejandro upp að köðlunum í nokkur skipti í lotunni og lét höggin á honum dynja. Lotan endaði svo á því að Mihail fleygir Alejandro niður í gólfið þegar Alejandro reyndi að clincha við hann. Mihail eyddi mögulega of miklu púðri í lotunni og virkaði þreyttur komandi inní þriðju og síðustu lotuna. Hann hélt þó áfram stífri pressunni en Alejandro smellhitti hann með vinstri krók og fékk hann þá talningu frá dómara. Mihail lét það þó lítið á sig fá og hélt pressunni áfram en uppskar þó lítið og Alejandro náði inn fullt af góðum höggum í þriðju lotu og sigraði að lokum bardagann á einróma ákvörðun.
Benedikt Gylfi Eiríksson sigraði Ísak Guðnason
Benedikt Gylfi Eiríksson og Ísak Guðnason mættust einnig í svakalegum bardaga og ekki voru allir sammála um niðurstöðuna en Benedikt sigraði á einróma ákvörðun og varð með því bikarmeistari. Hann vann allar loturnar hjá öllum dómurum. Flestir viðstaddra og m.a.s. þjálfarar og liðsfélagar Benedikts viðurkenndu þó að Ísak hefði átt fyrstu lotuna skuldlaust og virtust allir jafn hissa og HFK menn skiljanlega mjög ósáttir eftir bardagann. Ísak kom mjög aggressívur inní bardagann og pressaði stíft á Benedikt sem átti fá svör við árásum Ísaks alla 1. lotuna. Benedikt kom hins vegar sterkur inn í 2. lotu eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í þeirri fyrstu og voru lotur 2 og 3 hnífjafnar og bardaginn algjör flugeldasýning alveg til enda. Benedikt sýndi mikið hjarta að koma tilbaka eftir vægast sagt erfiða 1. lotu og verður ekkert tekið af honum þrátt fyrir að ákvörðunin hafi verið umdeild.
Þónokkrir bikarmeistarar krýndir
Margar aðrar skemmtilegar viðureignir voru á boðstólnum og eru nokkrir menn orðnir bikarmeistarar eftir 2 umferðir. Auk Benedikts Gylfa Eiríkssonar er Tristan Styff Sigurðsson orðinn bikarmeistari eftir seinni sigurinn á Hilmari Þorvarðarsyni og átti hann meira afgerandi frammistöðu í þessum bardaga heldur en þeim fyrri sem var hnífjafn og hefði alveg getið fallið með Hilmari. Alan Alex Szelag Szadurski er orðinn bikarmeistari eftir tvo sigra gegn Sigurbergi Einari Jóhannssyni en hann sigraði einnig á meiri afgerandi hátt í seinni bardaganum. Volodymyr Moskvychov er orðinn bikarmeistari eftir seinni sigurinn gegn Birni Helga Jóhannssyni. Arnar Jaki Smárason er orðinn bikarmeistari eftir að Arnar Geir Kristbjörnsson þurfti að draga sig úr seinni bardaganum vegna veikinda. Jökull Bragi Halldórsson er orðinn bikarmeistari eftir tvo góða sigra á Tomas Barsciavicius. Jakub Biernat er orðinn bikarmeistari eftir tvo góða sigra á Hlyni Þorra Helgusyni. Vitalii Korshak er orðinn bikarmeistari eftir tvo afgerandi sigra gegn Steinari Bergssyni í 1. umferð og Dorian James Anderson í 2. umferð. Að lokum er Ágúst Davíðsson orðinn bikarmeistari eftir 2 góða sigra gegn Deimantas Zelvys.
3. umferð fer fram 22. febrúar hjá HR/WCBA
Í næstu umferð mætast Elmar Freyr Aðalheiðarson og Sigurjón Guðnason og getur Elmar með sigri orðið bikarmeistari en hann sigraði Magnús Kolbjörn Eiríksson um helgina í hnífjöfnum bardaga og sagði Elmar sjálfur að þetta hefði verið algjörlega 50/50 fyrir honum. Ísak Guðnason og William Þór Ragnarsson mætast í 75kg þyngdarflokknum í 3. umferð en Benedikt Gylfi Eiríksson er orðinn bikarmeistari eftir sigur gegn þeim báðum. Róbert Smári Jónsson og Viktor Örn Sigurðsson mætast í 3. umferð í hreinum úrslita bardaga en þeir sigruðu báðir Adrian Pawlikowski.
Alejandro Cordova Cervera og Mihail Fedorets mætast aftur í 3. umferð eftir að Alejandro sigraði fyrri viðureignina og Kormákur Steinn Jónsson og Almar Sindri Daníelsson Glad mætast einnig í 3. umferð en Kormákur sigraði fyrri viðureignina um helgina og þurfti dómarinn að stöðva bardagann í 3. lotu.
Alla bardaga dagsins má finna hér að neðan en Bikarmótaröðin er sýnd í beinni á Youtube rás MMA Frétta.