Friday, April 26, 2024
HomeErlent2020: Rothögg ársins

2020: Rothögg ársins

Það er komið að því að gera upp árið 2020 í MMA heiminum. Að þessu sinni ætlum við að skoða fimm bestu rothögg ársins.

Á næstu dögum munum við gera upp árið en farið var rækilega yfir árið í áramótaþætti Tappvarpsins sem kom út á dögunum.

5. Francis Ngannou gegn Jairzinho Rozenstruik

Óhætt er að ímynda sér að Ngannou sé sá bardagamaður sem vekur hve mesta skelfingu meðal kollega sinna. Þessi kamerúnski tröllkarl býr yfir ónáttúrulegu afli í höndunum og getur slökkt ljósin á hverjum sem er með einu höggi.

Það kom því flestum á óvart á sínum tíma þegar Rozenstruik bað sérstaklega um Ngannou sem sinn næsta andstæðing. Ngannou var ekki lengi að svara kallinu og var sömuleiðis ekki lengi að enda bardagann eða um 20 sekúndur. Tiltölulega snemma í bardaganum gerði Ngannou árás með látlausri hríð högga sem endaði með því að eitt þeirra hitti hökuna á ‘Biggie Boi’ og þar með var sagan öll.

4. Kevin Holland gegn Jacare Souza

Fyrir bardagann gegn Jacare Souza hafði árið 2020 leikið ljúfum höndum um millivigtar keppninautinn Kevin Holland en lengi getur maður á sig blómum bætt og það gerði Holland svo sannarlega er hann rotaði Jacare á ótrúlegan hátt í fyrstu lotu núna í desember.

Jacare náði fellu þegar tvær sekúndur voru liðnar af bardaganum en Holland náði að koma sér á lappir eftir að hafa skapað sér pláss með nokkrum góðum olnbogum. Souza var fastur fyrir og kom Holland aftur í gólfið og þegar þangað var komið tóku þeir félagar létt spjall sín á milli. Fljótlega vildi Holland frekar láta hnefana tala sem og hann gerði þó hann lægi enn í gólfinu. Holland náði að koma inn þungri hægri og fleiri slíkar fylgdu í kjölfarið og allt í einu lá Jacare rotaður á dúknum.

3. Sean O’Malley gegn Eddie Wineland

Þegar þessi bardagi fór fram í júnímánuði var ‘Sugar’ Sean O’Malley enn ósigraður og ein heitasta vonarstjarnan í UFC. Að bardaganum loknum skein stjarnan enn skærar er O’Malley rotaði reynsluboltann Eddie Wineland í einu höggi.

Það var Wineland sem átti fyrsta alvöru höggið í bardaganum þegar hann tengdi hægri hendina á sér við andlitið á O’Malley. En svo var komið að O’Malley að svara fyrir sig er hann hótaði upphöggi sem fékk Wineland til að frjósa og fylgdi því svo eftir með fullkomnlega tímasettri beinni hægri. O’Malley var ekkert að þjösnast á Wineland í gólfinu heldur rölti hann yfirvegaður í burtu. Snyrtilegt!

2.  Cody Garbrandt gegn Raphael Assuncao

Fyrir þennan bardaga var það að duga eða drepast fyrir Cody Garbrandt sem var á myndarlegri taphrynu og á hálum ís.

Á pappír var hin ólseigi og slóttugi Raphael Assuncao hrikalegur erfiður andstæðingur fyrir Cody. Sérstaklega ef litið er til þess að það var eins og Cody væri haldinn mjög djúpri sjálfseyðingarhvöt í sínum síðustu þremur bardögum. En það var Cody sem var þolinmóður og notaði fótavinnu sína til að halda Assuncao giskandi og gerði hann óþolinmóðan. Í lok annarrar lotu reyndi Assuncao að enda bardagann með einu höggi en Cody smeygði sér undir höggið og sendi Assuncao í háttinn snemma. Það er óhætt að fullyrða að annar eins hraði á einu höggi hefur sjaldan sést áður.

https://twitter.com/_jrickz/status/1269476357123330053

1. Joaquin Buckley gegn Impa Kasanganay

Það var Joaquin Buckley sem veitti Impa Kasanganay sitt fyrsta tap sem atvinnumaður og setti í leiðinni nafn sitt í umræðuna um besta rothögg allra tíma.

Það var um miðja aðra lotu þegar Kasanganay greip spark frá Buckley og útlitið ekkert alltof bjart. En svo, eins og út frá einhverri eðlishvöt, stekkur Buckley upp á löppinni sem hann hafði lausa og í loftinu snýr hann sér við og sparkar í andlitið á Kasanganay sem missti samstundis meðvitund og stífnaði allur upp. Sjón er sögu ríkari.

Sjonni
Sjonnihttps://www.mmafrettir.is
-Bardagaáhugamaður -Fjólublátt belti í BJJ -Stjórnamaður í Mjölni -Tölvunarfræðingur
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular